133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

námsgögn.

511. mál
[16:35]
Hlusta

menntamálaráðherra (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg ljóst að við stóðum frammi fyrir því að ákveða að auka fjármagn til námsgagnagerðar. Ég kaus að fara þá leið að veita fleiri aðilum möguleika á því að koma með sitt framboð af námsgögnum í þá flóru sem nú er. Það er ekki þar með sagt að skólarnir muni nýta sér það. Flóran er hjá Námsgagnastofnun. Ég tel mikilvægt að fleiri komi að námsgagnagerð hér á landi en Námsgagnastofnun. Um leið erum við að segja að við erum ekki að rýra mikilvægt gildi Námsgagnastofnunar. Við erum einfaldlega að skjóta fleiri stoðum undir námsgagnagerð hér á landi.

Hitt er líka vert að hafa í huga. Ég segi: Gott og vel. Við treystum kennurunum. Við treystum skólastjórunum fyrir því að velja námsgögnin. Fram til þessa hefur það gefist ágætlega, eins og hv. þingmaður kom inn á líka. Kennarar velja ekki bara námsgögn frá Námsgagnastofnun í dag. Þeir velja líka námsgögn t.d. af netinu. Þess vegna er mikilvægt um leið og við fylgjum málinu úr hlaði að þá segjum við: Við treystum skólasamfélaginu til þess að meta námsgögnin en um leið aukum við svigrúmið fyrir fleiri. Við vitum að það eru mjög margir kennarar, bókaútgefendur og fleiri sem standa í námsgagnaútgáfu og námsgagnagerð og hafa lagt mikinn metnað í það að koma með góð námsgögn. Fyrir það erum við að opna.