133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

námsgögn.

511. mál
[16:37]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hæstv. menntamálaráðherra leggur áherslu á að hún sé að fjölga þeim aðilum sem koma að námsgagnagerð. Gott og vel. Það segir sig sjálft með 100 nýjum millj. í fjárlagalið í námsefnisgerð sem, nota bene, stendur núna í þessum fjárlögum í 126 millj. þannig að ekki var hann beysinn fyrir. Það var aukið við hann 100 millj. á árinu 2006. Ég vil því segja að auðvitað fjölgar þeim aðilum sem koma að námsefnisgerð, en það er ekki þar með sagt að það verði undir þeim sameiginlega hatti sem Námsgagnastofnun hefur haft yfir námsgagnagerðinni hingað til. Ég vara við þeirri breytingu sem það getur haft í för með sér.

Sjálfsbjargarviðleitni kennara er aðdáunarverð. Við þessar erfiðu aðstæður, við það svelti sem kennarar og Námsgagnastofnun hafa búið við varðandi námsgagnagerð hafa kennarar auðvitað þróað með sér ýmsar aðferðir við að búa til eigið námsefni og fá námsefni af netinu. Það gefur augaleið. Margir kennarar vilja búa til sitt eigið námsefni og leggja mjög mikinn metnað í það og finnst einfaldast og best að kenna sitt eigið námsefni. Auðvitað gerir ekki nokkur maður athugasemd við það að kennarar hafi það val, en kennarar sem kenna grunnskólabörnum eiga að hafa fjölbreytta flóru námsefnis og það á að vera lagt mikið fé í námsgagnagerð án þess að það sé skilyrði að Námsgagnastofnun komi ekki að nema litlum hluta þess.