133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

námsgögn.

511. mál
[16:39]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Frumvarp það til laga um námsgögn sem hér er til umræðu er í heildina athyglisvert frumvarp og að mörgu leyti skynsamlegt um viðkvæmt efni. Kennsluefni, námsgögn í grunnskólum hefur haft nokkra sérstöðu innan skólakerfisins og sú sérstaða lýsir auðvitað líka sérstöðu grunnskólans í okkar menntakerfi því grunnskólinn er öðrum skólum fremur uppeldisstöð, mótunarstaður ungs fólks, nýrra þátttakenda í samfélaginu en ekki bara einhvers konar kjörbúð með menntun í litlum bútum sem veita þreyttar einingar eða ganga undir einhvern annan kvarða.

Hlutverk grunnskólans, hins grundtvigska norræna grunnskóla, er að miðla gildum og verðmætum, að gera fólk að nýtum samfélagsborgurum, að vera til gagns fyrir börnin sem þangað ganga og sækja þangað sína menntun og félagsmótun en líka til gagns fyrir íslenskt samfélag og mannfélagið allt ef maður vill vera mjög hátíðlegur.

Mér sýnist að sú nefnd sem starfaði að frumvarpinu hafi unnið gott starf sem er því miður ekki reyndin um allar nefndir sem koma að málum hjá menntamálaráðuneytinu. Í inngangi athugasemda við frumvarpið er heilmikill sögulegur fróðleikur, gagnlegur, og líka niðurstöður könnunar sem nefndin gekkst fyrir. Helst skortir, sem við þurfum að bæta úr í menntamálanefnd, þeir sem ekki eru þeim mun handgengnari í þessum efnum, samanburð við stöðuna í grannlöndum okkar. Það opnast alltaf ný sýn með einhverjum hætti við það að skoða önnur lönd þrátt fyrir sérstöðu Íslendinga sem í þessu máli sem við ræðum kemur fram í því að markaðsbúskap eru takmörk sett hvað varðar íslenska grunnskóla. Það er munur á því gagnvart möguleikum markaðarins hvort í árgangi eru 4–5 þúsund börn eða hvort þau eru 40–50 þúsund eins og í norrænum grannlöndum a.m.k., eða hvort þau eru kannski 400–500 þúsund eins og er í öðrum löndum sem eru aðeins fjær.

Hér er farin sú leið að Námsgagnastofnun heldur áfram að gegna sínum skyldum við allan grunnskólann en stigin skref að því að auka framboð á námsgögnum frá höfundum og útgáfufyrirtækjum utan Námsgagnastofnunar. Þetta þýðir samkeppni á ákveðnum sviðum og að ég held aukalegt framboð efnis á öðrum sviðum. Kannski má skipta þessu mjög gróft í tvennt, að það sé kjarnaefni sem varðar grunn hverrar námsgreinar og síðan sé ítarefni eða aukaefni sem hér er um að ræða. Það má ímynda sér að samkeppnin verði í þessu tvennu. Í sjálfu sér er það kostur að auka samkeppni á þessu sviði eins og öðrum þó að hún hljóti að vera takmörkuð held ég alltaf í þessu samfélagi. Hitt skiptir auðvitað miklu meira máli að sú leið sem hér er farin getur orðið til þess að auka það sjálfstæði hvers skóla sem við tölum svo mikið um sem raun ber vitni og gefur þar af leiðandi færi á að hver skóli geti leitað sinnar eðlilegu sérstöðu miðað við umhverfi sitt og metnað.

Við fyrstu sýn er þessu þokkalega fyrirkomið, tel ég. Annars vegar hefur hver skóli eins konar inneignarnótu eins og verið hefur hjá Námsgagnastofnun en hins vegar kemur fastur kvóti úr námsgagnasjóði sem hver skóli notar væntanlega eins og hann vill. Mér sýnist hlutfallið í byrjun vera einn á móti fjórum eða einn á móti fimm. Ég tel að það sé hæfileg byrjunarstaða og hrósa hæstv. menntamálaráðherra fyrir það að standa svona að þessu. Þetta þarf auðvitað að skoða vel og það þarf að búa vel að Námsgagnastofnun. Undanfarinn er náttúrulega ekki góður, eins og rakið var í ræðu síðasta hv. ræðumanns, Kolbrúnar Halldórsdóttur, að Námsgagnastofnun hefur skort nægilegt fjármagn undanfarin ár og áratugi. Hún hefur ekki getað endurnýjað kennsluefni nógu hratt og ekki haft svigrúm til að bjóða nema að takmörkuðu leyti valkosti í námsgögnum.

Ef frumvarpið verður samþykkt að óbreyttu í stærstum dráttum hlýtur Námsgagnastofnun að móta sér endurnýjaða útgáfustefnu. Hún hlýtur að bregðast við með einhverjum hætti í samræmi við það sem ég nefndi áðan. Ég sakna umfjöllunar um það í athugasemdunum, það er engin lína mörkuð um það efni. Þetta hlýtur að breyta mjög miklu hjá Námsgagnastofnun og það er auðvitað spurning hvort hún t.d. leggi þá minni áherslu á ítarefni og aukaefni og láti það markaðnum eftir, en einbeiti sér þeim mun heldur að því sem mætti kalla kjarnaefni og reyni að standa sig þar. Þetta veit ég ekki en um þetta verður auðvitað spurt við umfjöllun nefndarinnar.

Frumvarpið er ekki þannig að það færi okkur beina leið til paradísar heldur skapar það ákveðið millibilsástand og ég geri ráð fyrir að eftir nokkur ár, kannski fimm eða tíu, þá þurfi hugsanlega að breyta frumvarpinu eða skoða þá nýju stöðu sem komin er upp. Menn verða að horfa á þróunina í málinu bæði í menntamálaráðuneytinu og á Alþingi því hér sker reynslan úr um gagnsemina. Mér sýnist að þessu sé svo stillt saman að hæstv. menntamálaráðherra og Alþingi geti saman ráðið hlutföllum milli stofnunar og sjóðs hverju sinni eftir því hvernig þróunin verður. Það getur farið svo að hinir sjálfstæðu, eða hvað á að kalla þá, höfundar, framleiðendur og bókaútgáfur ráði ekki við nema hluta af verkefninu. Þá helst þáttur Námsgagnastofnunar mikill í málinu öllu. Það getur líka farið svo að markaðurinn, sem við hljótum að kalla svo, sinni eftirspurninni að meginhluta. Ef svo fer að markaðurinn ræður við að gera það á þokkalegu verði og með þeim gæðum sem tryggja þarf dregst starfsemi Námsgagnastofnunar væntanlega nokkuð saman en hún tekur þá hins vegar við á þeim sviðum sem er ekki líklegt að markaðsfyrirtæki ráði nokkurn tíma við sem eru ófá í fámenni okkar.

Erfiðleikarnir koma strax fram í þessu, að hve miklu leyti Námsgagnastofnun er á markaði. Í 3. gr. frumvarpsins er skipting sem við sem erum nýkomin úr Ríkisútvarpsumræðunni könnumst mætavel við, milli hins almenna markaðar þar sem er áskilinn fjárhagslegur aðskilnaður milli samkeppnisrekstrar og almannaþjónustu. Það er því miður óljóst hvernig því er háttað. Annars vegar með hvaða hætti Námsgagnastofnun setur fram námsgögn í frjálsa samkeppni við aðra aðila, eins og hún þarf þá að taka ákvörðun um hverju sinni. Væntanlega gildir það bæði um námsgögn sem hún framleiðir eingöngu til þeirrar samkeppni og líka um námsgögn sem hún framleiðir í skólana en hefur líka til sölu á frjálsum markaði sem getur skapað alls kyns vanda. Hins vegar þarf betri yfirsýn yfir það hvað samkeppnisreglur og Evrópureglur segja og leyfa af starfsemi Námsgagnastofnunar. Ég verð að viðurkenna að af lestri frumvarpsins að viðbættum örlitlum samtölum við nokkra sem við sögu koma þá átta ég mig ekki vel á þessu. Ég veit ekki hvort ráðherra getur svarað því á þeim ákaflega takmarkaða tíma sem hún hefur til umráða á eftir af tilteknum ástæðum, en sé það ekki verður auðvitað að fara í gegnum það í nefndinni.

Gæðamálin eru svo alveg sérstakur kafli. Nú má segja að Námsgagnastofnun að forminu til annist þau sjálf þar sem hún framleiðir nánast allt það námsefni sem grunnskólarnir nota. Mér skilst að því sé vel fyrirkomið hjá Námsgagnastofnun út af fyrir sig. Ekkert slíkt eftirlit er í menntamálaráðuneytinu þó þar séu auðvitað fagmenn á því sviði. Svo bætist auðvitað við aðhald frá kennurum, foreldrum og áhugamönnum utan skólanna.

Frumvarpið virðist reyndar gera ráð fyrir gæðamati á þremur stöðum. Í fyrsta lagi hjá Námsgagnastofnun eins og verið hefur. Hún sér um gæðamat fyrir sitt efni. Í öðru lagi er hægt að kæra námsefni á forsendum gæða, að þau séu ónóg, til menntamálaráðherra. Það er rakið í 8. gr. Í þriðja lagi virðist gæðamat eiga að liggja til grundvallar við störf stjórnar námsgagnasjóðs.

Ég ætla að byrja á því. Það er svolítið skrýtið skipulag með námsgagnasjóð. Þar á að semja sérstakar úthlutunarreglur sem lítið sést nú af í frumvarpinu eða í athugasemdum við það. Af því sem þó sést af þeim virðist vera um að ræða einhvers konar gæðamat á úthlutunarreglum. Úthlutunarreglurnar eru lagðar til grundvallar sérstakri úthlutun sem þriggja manna stjórn sem er skipuð til fjögurra ára í senn sér um. Þetta er sérkennilegt því þegar ég var að reyna að skilja þetta í fyrsta lestri, eins og maður gerir með frumvörp, þá fannst mér þetta vera þannig að námsgagnasjóður skiptist á milli skólanna eins og segir reyndar í frumvarpinu, í hlutfalli af nemendafjölda. Svo væri heimilt að ívilna fámennum skólum og þar með væri kominn grundvöllur þess fjár sem menn fá.

Óljóst er hvort t.d. hver skóli þurfi að sækja um fé í námsgagnasjóð á einhverjum forsendum. Ég vil ekkert telja um það fyrir fram en mér sýnist í fyrstu að heppilegra væri að hafa gæðaeftirlitið eftir á þannig að menn þurfi að gera grein fyrir því hvað þeir hafa gert við féð — skólastjórum og kennurum sé treyst til þess — en ekki fyrir fram þannig að þessi þriggja manna stjórn leggi dóm á það hvort rök séu nægileg bak við umsóknina um skólana. Þetta upplýsir hæstv. menntamálaráðherra okkur um á eftir. Það þarf að passa sig hér því hinn mikli kostur við breytinguna er, eins og ég sagði áðan, ekki það að markaðsstarfsemin aukist, ekki frá sjónarmiði skólakerfisins, heldur það að skólastjórar, kennarar og fagmenn, skólamenn, ákveða námsgögnin og fyrirkomulagið að góðum hluta. Það dregur úr miðstýringu sem þörf er á í skólakerfinu en má ekki vera of mikil. Við þurfum að varðveita sjálfstæðið í skólunum og ekki taka það frá þeim í einhverjar stjórnir sem skipaðar eru þó þar veljist sjálfsagt góðir menn til.

Því má svo ekki gleyma í þessu sambandi að grunnskólinn er ekki á vegum ríkisins Hann er á vegum sveitarstjórnanna. Það vakna spurningar um þátt þeirra í námsgagnasjóðnum og reyndar líka í þróunarsjóðnum, hvort þetta þarf að vera á ríkisvegum og hvort þetta fé allt á ekki að vera til ráðstöfunar á vegum sveitarfélaganna frekar en að hafa þetta svona.

Gæðamatið kemur líka við sögu í 8. gr., eins og ég nefndi áðan, og þar er ekki alveg skýrt hvernig því er háttað. Í fyrsta lagi hverjir geti kært. Það er skilningur þeirra sem ég ræddi við að allir geti kært. Orðalagið heimili það. Ég vil gjarnan fá staðfestingu á því. Ég tel að þarft sé að allir geti kært, að það séu ekki bara einhverjir lögvarðir hagsmunir, þannig að maður taki orðaleppa af öðrum sviðum, sem standa á bak við það að menn geti sett fram slíka kæru. Það geti allir áhugamenn. Þá er náttúrulega kannski hættan sú að of margir kæri og af sérkennilegum ástæðum þannig að það þurfi þá að búa til einhvern formlegri farveg fyrir kærurnar og athugun þessara mála og um það hvernig úrskurðir eru kveðnir upp. Það vekur aftur athygli á því að innan ráðuneytisins er ekki til neitt ferli þar sem hægt er að meta gæði námsgagna. Það er spurning hvort því ferli þyrfti þá að koma upp. Hvort Námsgagnastofnun ætti kannski að skipta upp í tvennt strax, segi ég, því ég geri ráð fyrir að það verði seinna ef þróunin gengur í þá átt sem frumvarpið miðar í raun og veru að, þannig að gæðamat innan Námsgagnastofnunar verði óháð útgáfu Námsgagnastofnunar, hvort skipta þurfi henni með einhverjum hætti í tvennt, og þá verður hvor hlutinn að vera sjálfstæður gagnvart hinum.

Ég ætla ekki að lengja þessu ræðu um of en segja það líka í þessu sambandi vegna þess að það var til umræðu í síðustu ræðum, að sjálfsagt er að þessu fylgi einhvers konar gæðamat eða úrskurður á námsefni sem skólarnir ákveða ekki bara að kaupa, heldur taka við frá utanaðkomandi aðilum sem ekki eru algerlega hafnir yfir allan grun um að hafa hagsmuna að gæta gagnvart æskulýðnum og foreldrum, svo sem Landsvirkjun. Því það þurfa auðvitað að vera til varnir gegn pólitískum áróðri af ýmsu tagi í skólastarfinu.

Ég hef farið yfir helstu atriði sem mér fundust athyglisverð. Eitt og annað þarf að athuga og íhuga í nefndinni og fylgjast svo með í reyndinni næstu árin. En ég vil segja það að lokum að viðbrögð mín og míns flokks eru með þessum fyrirvörum jákvæð gagnvart frumvarpinu.