133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

friðlýsing Jökulsár á Fjöllum.

65. mál
[17:36]
Hlusta

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Herra forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum. Þetta er 65. mál þessa þings á þskj. 65. Flutningsmenn ásamt mér að tillögunni eru hv. þm. Halldór Blöndal, Dagný Jónsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Guðjón A. Kristjánsson og Kolbrún Halldórsdóttir. Eins og heyra má af upptalningunni eru flutningsmenn úr öllum þingflokkum.

Tillögugreinin er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa og leggja fyrir Alþingi frumvarp til laga um friðlýsingu Jökulsár á Fjöllum. Friðlýsingin taki til alls vatnasviðs Jökulsár á Fjöllum, að Kreppu og öðrum þverám meðtöldum með náttúrulegum rennslisháttum, þar sem hvers kyns röskun og mannvirkjagerð er bönnuð. Sérstaklega verði hugað að því við undirbúning málsins hvernig friðlýsing Jökulsár á Fjöllum skuli tengjast núverandi þjóðgarði í Jökulsárgljúfrum og fyrirhuguðum Vatnajökulsþjóðgarði og stofnun frekari þjóðgarða eða verndarsvæða norðan jökla.“

Þessi tillaga er endurflutt, í aðalatriðum óbreytt frá upphafi og er nú flutt hér í fimmta sinn. Hún var fyrst flutt á stuttu vorþingi eftir alþingiskosningar vorið 2003, þ.e. á 129. þingi. Ég leyfi mér að byrja á því, virðulegur forseti, að lýsa þeim eindregnu vonum mínum og óskum að tillagan hljóti loksins afgreiðslu. Hún hefur gengið til umhverfisnefndar undanfarin ár og verið þar skoðuð og rædd, hún hefur farið til umsagnar oftar en einu sinni og fyrir liggur afstaða allra helstu málsaðila, að segja má, eða þeirra sem eðlilegt er að fái aðstöðu til að tjá sig um efni tillögunnar, heimaaðila á viðkomandi svæði, sveitarstjórna, hagsmunaaðila, ferðaþjónustuaðila sem og náttúruverndaryfirvalda og fagstofnana á þessu sviði. Ég held að það megi draga allt saman í eina setningu, almennt hefur tillagan fengið mjög góðar undirtektir. Hún hefur fengið að ég best veit einróma stuðning í umræðum á Alþingi og margir ræðumanna haft um það nokkuð sterk orð að í raun væri ekki vansalaust að ekki væri búið að taka um þetta grundvallarákvörðun þar sem, í orði kveðnu a.m.k., málið stendur þannig að allir þeir sem hafa tjáð sig um þetta hafa lýst sig jákvæða. Ætla verður því að þverpólitískur vilji sé á bak við það að fara í þessa gjörð.

Nú háttar svo til að inn á Alþingi er komið frumvarp til laga um Vatnajökulsþjóðgarð en afdrif þess eru að sjálfsögðu ekki ljós sem og er rétt að hafa í huga að þar er ekki með jafnafdráttarlausum og -skýrum hætti mælt fyrir um — þó að lögum verði — friðlýsingu Jökulsár allrar og í heild sinni og vatnasviðsins með náttúrulegum rennslisháttum o.s.frv. Til að mynda eru ekki sérstaklega nefndar í afmörkun fyrirhugaðs Vatnajökulsþjóðgarðs meginþverár Jökulsár eins og Kreppa og Kverká og hlýtur það að teljast nokkur veikleiki á framsetningunni hvað það varðar. Þar af leiðandi er það ekki síður brýnt nú og jafngilt að Alþingi fyrir sitt leyti taki stefnumarkandi ákvörðun í þessu máli. Að sjálfsögðu má skoða orðalag tillögunnar að öðru leyti og vísa kannski með öðrum hætti til áformanna um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs, en það er enginn vafi á því að það mun styrkja málið mjög og festa það í sessi, sem og eru það nauðsynleg og þörf skilaboð út í þjóðfélagið og til allra sem málið getur varðað að á Alþingi sé eindreginn vilji á bak við það að fara í þessa friðlýsingu. Friðlýsing af þessu tagi mundi marka tímamót í náttúruverndarmálum í landinu því að það hefur aldrei áður verið með þessum hætti lagt til að friðlýsa vatnasvið og náttúrulega rennslishætti fallvatns. Hér á í hlut eitt mesta vatnsfall landsins og langstærsta korguga jökulsáin sem enn hefur ekki verið hróflað við með virkjunum eða neinni mannvirkjagerð. Það þarf ekki að fara mörgum orðum um náttúruverðmætin sem í húfi eru og hinar einstöku gersemar sem Jökulsá á Fjöllum geymir, fossaröðina, gljúfrin, ummerkin um hamfarahlaup og annað í þeim dúr sem nánar er tilgreint í tillögugreininni. Ég vísa í því sambandi fyrst og fremst í ítarlegan rökstuðning í greinargerð með tillögunni.

Ég vil svo bara bæta því við að það er ákaflega mikilvægt vegna þeirrar miklu umræðu sem um þessa hluti alla standa, um náttúruverndarmál, átök um virkjanir og stóriðjustefnu, að menn sameinist þó um það sem þeir geta sameinast um. Ég leyni ekki því að mér þætti það ákaflega gott innlegg í stöðu þessara mála nú um stundir ef það þó sýndi sig að vegna augljóss vilja sem víða er til staðar, a.m.k. í orði kveðnu, yrðu tekin einhver skref í rétta átt hvað varðar friðlýsingu og náttúruvernd, ekki síður en í hina sem snýr að nýtingu og virkjun og mannvirkjagerð, og framfaramál af þessu tagi næði fram að ganga.

Ég mun því leggja mikla áherslu á það hér, virðulegur forseti, áður en þing lýkur störfum í vor að þetta mál fái nú afgreiðslu, einnig af þingræðislegum ástæðum. Mér finnst eiginlega ekki boðlegt að tillaga sem í heilt kjörtímabil hefur verið endurflutt af þingmönnum úr öllum flokkum og ástæða er til að ætla að yfirgnæfandi stuðningur sé við nái einfaldlega ekki afgreiðslu, annaðhvort af því að það er ekki áhugi á því í viðkomandi nefnd eða að formaður viðkomandi nefndar hefur ekki stjórnað verkum þar þannig að tími sé gefinn fyrir eðlilega umfjöllun og afgreiðslu slíks máls. Það er orðið manni nokkurt umhugsunarefni ef mál af þessu dagar þing eftir þing og vetur eftir vetur uppi af ástæðum sem eru manni huldar og óútskýranlegar. Því verður seint trúað að það sé af einhverri meinbægni við okkur flutningsmenn eða við málið sem slíkt sem það tefst með þessum hætti.

Ég held að ég hafi þessa ræðu mína ekkert lengri. Mér er það kappsmál að tillagan gangi nú til nefndar, verði þar tekin strax fyrir og hugað að því með hvaða hætti megi afgreiða hana. Að mínu mati ætti að vera hægt að gera það innan fárra vikna vegna þess að allt liggur fyrir sem liggja þarf fyrir í málinu og umsagnir liggja þegar fyrir frá fyrri þingum og þar fram eftir götunum.

Ég legg svo til að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. umhverfisnefndar.