133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

uppbygging ferðaþjónustu á Melrakkasléttu.

36. mál
[17:54]
Hlusta

Flm. (Halldór Blöndal) (S):

Herra forseti. Tillaga samhljóða þessari var flutt á 128. löggjafarþingi og er nú endurflutt. Tillagan fékkst þá ekki rædd. Ástæðan fyrir því að tillagan er flutt er hin veika staða byggðar í Norðurþingi, hinni gömlu Norður-Þingeyjarsýslu, eins og sést m.a. af því að nú eru ekki nema kannski rétt um 230 manns búsettir á Raufarhöfn, en fyrir tæpum áratug bjuggu þar yfir 400 manns, 150 manns hygg ég að búi á Kópaskeri eða eitthvað þvíumlíkt. Má raunar segja að öll byggðin frá Kópaskeri til Vopnafjarðar hafi átt undir högg að sækja, m.a. vegna þess að vegir hafa ekki verið byggðir upp á því svæði og samgöngur af þeim sökum ekki í nógu góðu horfi.

Ég geri mér vonir um að úr því verði bætt með þeirri samgönguáætlun sem vonandi verður lögð fram í næstu viku. Ég hef lagt áherslu á það við hæstv. samgönguráðherra að óhjákvæmilegt sé að horfa til norðausturhornsins. Ég var þeirrar skoðunar þegar ég var samgönguráðherra að skynsamlegt væri að reyna byggja þetta hvort tveggja upp saman, Vestfirðina og norðausturhornið, þannig að allir þéttbýlisstaðir væru í góðu vegasambandi við hringveginn. Ég var þá ekki svo bjartsýnn að ég væri að hugsa um hringveg um Vestfirði né hringveg um Vopnafjörð, Kópasker, Húsavík, og svo aftur Hólsfjöll.

Ég gerði mér nú ekki vonir um að því yrði lokið um þetta leyti, á árinu 2007 eða 2008, en ég hafði gert mér vonir um að hægt væri að tengja þá staði við hringveginn að minnsta kosti, þó ekki hefði tekist að byggja upp veginn milli Vopnafjarðar og Þórshafnar. En það kemur nú í ljós hvort þau orð mín hafa haft áhrif eða ekki, sem ég hef sagt við hæstv. samgönguráðherra af þessu tilefni.

Þessi tillögugrein hljóðar svo með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að láta gera úttekt á því hvernig unnt sé að byggja upp ferðaþjónustu á Melrakkasléttu. Einkum skal horft til náttúru svæðisins, sögustaða og hlunninda og hvernig megi vekja athygli á Melrakkasléttu sem vænlegum kosti fyrir ferðamenn.

Til að fylgja verkefninu eftir er samgönguráðherra, í samvinnu við landbúnaðarráðherra og ráðherra byggðamála, falið að skipa nefnd sérfróðra manna og heimamanna sem skili áfangaskýrslu fyrir árslok 2007 og endanlegum tillögum eigi síðar en ári síðar. Kostnaður við störf nefndarinnar skal greiddur af viðkomandi ráðuneytum.

Þá skal ráðinn starfsmaður sem vinni með nefndinni og skal hann hafa aðsetur nyrðra, við Öxarfjörð eða á Raufarhöfn. Kostnaður af störfum hans skal greiddur af Byggðastofnun.“

Á síðustu árum, herra forseti, hafa aðstæður breyst að því leyti að ég hygg að segja megi að akfært sé orðið út á Font á Langanesi þannig að ég tel eðlilegt og vil beina því til þeirrar nefndar sem fær málið til meðferðar að orðalagi þessarar tillögugreinar verði breytt á þann veg að hún taki til allrar Norður-Þingeyjarsýslu.

Ég vil einnig leggja áherslu á að gert hafði verið ráð fyrir að hægt yrði að byggja upp veg frá hringvegi niður að Dettifossi. Við höfðum gert okkur vonir um að sá vegur yrði boðinn út fyrir einu og hálfu ári. En þar sem Umhverfisstofnun gerði sérstaklega athugasemdir við það vegarstæði, sem þó var ákveðið í náinni samvinnu við Umhverfisstofnun, hefur málið tafist, þó svo að Mývatnssveit, sveitarfélagið, hafi gefið út framkvæmdarleyfi.

Það er auðvitað hörmulegt þegar opinberar stofnanir takast á með þessum hætti. Það er hörmulegt ef Vegagerðin reynir að vinna í sátt við Umhverfisstofnun og hafa hana með í ráðum, að þá skuli ekki vera unnt að komast að niðurstöðu sem Umhverfisstofnun eftir á getur sætt sig við. Þetta er auðvitað mjög til varnaðar og satt að segja ekki uppörvandi fyrir þá sem eru að reyna að vinna að því að bæta samgöngur víðs vegar um landið.

Góður vegur um öræfin er nauðsynlegur til að fólk geti kynnst þeim og líka til þess að menn séu ekki að fara ótal vegslóða og búa til vegslóða og þar fram eftir götunum, skemma þannig náttúru landsins, eins og reynslan sýnir að gert er þar sem vegleysur eru.

Þetta er nú útúrdúr en tengist þessari tillögu að því leyti að með því að góður vegur verði lagður frá hringvegi niður að Ásbyrgi opnast enn möguleiki fyrir Norður-Þingeyjarsýslu til að láta til sín taka og jafnframt eru það mjög góðar fréttir að á föstudag var stofnað félag til að reisa hótel við Ásbyrgi, sem sveitarfélög, búnaðarfélög og einstaklingar standa að. Er vonandi að sú framkvæmd verði til þess að Alþingi og samgönguyfirvöld líti sérstaklega til þess að flýta veginum frá Kelduhverfi upp að Dettifossi. Ég vil satt að segja treysta því að svo verði.

Í greinargerð með tillögunni er lýst náttúrugæðum á Melrakkasléttu. Ég skal ekki eyða tímanum, hæstv. forseti, í að rifja það upp. Ég vil aðeins leggja áherslu á að Raufarhafnarbúar hafa hafist handa við að reisa svokallað heimskautsgerði. Það er sólarklukka og hún er þannig staðsett að víðsýni er mjög mikið og t.d. má sjá miðnætursólina í þrjár vikur í gegnum þrjú hlið sem eru á sólarklukkunni. Hugmyndafræðin á bak við þetta heimskautagerði tengist Snorra-Eddu og Völuspá. Hverjum dverg eru gefnir fimm dagar á árinu. Dvergarnir tengjast árstíðum og hafa hlutverk sem aftur tengist gróðri, matseld, búskap og öðru sem fyrir ber í mannlegu samfélagi.

Ég vil að síðustu aðeins minna á að Melrakkaslétta er mikil náttúruparadís. Á góðum degi greinast þar á milli 70–80 tegundir af fuglum og hefur farið upp í 84 fugla. Um tveggja ára skeið fyrir nokkrum árum sást þar snæuglupar nokkrum sinnum suður af Arnarvötnum þótt hreiðrið hafi ekki fundist. En ævinlega á hverju ári sjá menn og verða varir við staka fugla. Við Núpskötlu og Oddsstaði eru mófuglar og hvergi í veröldinni er þéttara rjúpnavarp en þar. Við Rauðanúp eru allir bjargfuglar hér á landi, meira að segja súla sem sömuleiðis verpir á Langanesi og eru það einu staðirnir á fastalandinu þar sem súlan verpir.

Lón og vötn eru mjög fjölskrúðug, góð silungsveiði og andavarp. Það hefur vakið athygli og eru góðar fréttir að á síðustu árum er flórgoðinn snúinn til baka og fjölgar ört. Grágæsavarp er mikið og vaxandi á Sléttu. Ferðaþjónustuaðilar vilja nú beita sér fyrir því að notkun vélknúinna tækja verði bönnuð á Sléttunni, hvort sem við ræðum um vélhjól, fjórhjól, jeppa eða báta fram yfir það sem tengist venjulegum búskaparháttum þess fólks sem þar lifir af náttúru landsins.

Það er mjög til hróss fyrir landeigendur á Sléttu að þeir leyfa ekki andaveiðar í sínu landi og er það til fyrirmyndar og eftirbreytni. Ferðaþjónustuaðilar leggja áherslu á að búa sem best skilyrði fyrir fuglaskoðun. Þeir hafa gefið út bæklinga um þau efni og verið er að undirbúa byggingu skýla fyrir þá sem vilja fylgjast með fuglalífi. Sléttan er með öðrum orðum dýrmætt friðland. Ferðamönnum fer fjölgandi ár frá ári. Vegasamband er að verða gott til Norður-Þingeyjarsýslu. Vonandi verður hægt að bjóða út veginn um Hófaskarð á næstu vikum.

Ég vil svo að síðustu segja að við eigum að líta til með því fólki sem þar lifir við erfið og þröng skilyrði, koma til móts við það og létta því róðurinn. Þetta fólk er ekki að biðja um ölmusu, einungis að hafa sömu skilyrði og aðrir landsmenn til þess að byggja upp atvinnutækifæri fyrir sig og sína, og í þessu tilfelli legg ég áherslu á ferðaþjónustuna.

Ég legg til, herra forseti, að málinu verði vísað til síðari umr. og samgöngunefndar.