133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

landsþing Frjálslynda flokksins og stefna í innflytjendamálum.

[15:11]
Hlusta

Hjálmar Árnason (F):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson bar upp mjög eðlilegar spurningar til hv. formanns Frjálslynda flokksins og komu frá honum svör við sumum þeirra, m.a. að eftir mikla leit hefði fundist kjörkassi (Gripið fram í.) og það veldur okkur meiri ró að vita að menn höfðu þó leitað að kjörkössum og fundið. Hins vegar vakti athygli mína að við spurningu hv. þm. Guðjóns Ólafs Jónssonar um það hvort formaður Frjálslynda flokksins styddi það rasistadekur sem hér hefur verið gert að umtalsefni varð fátt um svör. Hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson svaraði engu um það. Hins vegar kom hv. þm. Össur Skarphéðinsson hér upp og svaraði fyrir stefnu Samfylkingarinnar sem mér heyrist ekkert vera svo fjarri stefnu ríkisstjórnarflokkanna hvað varðar málefni innflytjenda. Eftir stendur eigi að síður sú spurning sem ég bið hv. þm. Guðjón Arnar Kristjánsson sem ég met auðvitað mikils, formann Frjálslynda flokksins, að svara: Stendur hann að baki því sem kallað hefur verið rasistadekur í röðum Frjálslynda flokksins? Við hljótum líka að kalla eftir svörum frá kaffibandalaginu sem svo hefur verið kallað, þ.e. fulltrúum annarra stjórnarandstöðuflokka um hvort þeir standi að baki þeirri stefnu sem frjálslyndir hafa boðað í málefnum innflytjenda.