133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

landsþing Frjálslynda flokksins og stefna í innflytjendamálum.

[15:19]
Hlusta

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Frú forseti. Ég tel að það eigi að reyna að skapa breiða samstöðu um málefni innflytjenda hér á Alþingi Íslendinga og ég lýsi því alveg óhikað yfir að ég er sammála þeim skrefum sem ríkisstjórn Íslands hefur tekið í þessum efnum, svo langt sem þau ná. Ég hefði hins vegar viljað ganga lengra í sumum efnum og sérstaklega hefði ég viljað láta fylgja meira fjármagn til þeirra ágætu aðgerða sem boðaðar voru af hálfu ríkisstjórnarinnar hér í síðustu viku. Það er svo gott svo langt sem það nær en við viljum ganga lengra.

Við áttum alveg prýðilegar umræður um málefni innflytjenda undir umræðu um veitingu ríkisborgararéttar í síðustu viku, ég, þingmenn Samfylkingarinnar og hæstv. dómsmálaráðherra. Framsóknarflokkurinn, hvar var hann? Hann skilaði auðu, það heyrðist ekkert frá honum. (Gripið fram í.)

Nú er það svo, herra forseti, að jafnvel þó að ég hafi nokkra þjálfun í því að rýna í kristalskúlu og spá í framtíðina er ekkert hægt að segja til um það með hvaða hætti ríkisstjórn verður mynduð. Ég er algjörlega á móti stefnu Framsóknarflokksins að því er Írak varðar svo og kvótastefnu flokksins. Ég er algjörlega á móti skattstefnu Sjálfstæðisflokksins, en ég gæti ekki lofað hv. þingmanni því hér að sú staða kæmi ekki upp að hugsanlega yrði til við einhverjar aðstæður ríkisstjórn þessara flokka og einhverra flokka stjórnarandstöðunnar.

Má ég rifja það upp af því að Sjálfstæðisflokkurinn er fjarverandi úr þessari umræðu að það hefur bókstaflega verið kallað eftir því af málgagni Sjálfstæðisflokksins aftur og aftur í vetur, í ritstjórnargreinum Morgunblaðsins, að Frjálslynda flokknum verði kippt upp í sæng ríkisstjórnarinnar til að bjarga því sem bjargað verður? Mogginn sér það sem er tilefni þessarar umræðu að ríkisstjórnarflokkarnir sjá auðvitað fram á tap, þeir vita (Forseti hringir.) að stjórnarandstaðan er að sigla fram úr þeim.