133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

fátækt barna og hagur þeirra.

184. mál
[15:40]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir hönd okkar skýrslubeiðenda, nokkurra þingmanna Samfylkingarinnar, fyrir skýrsluna og framsögu fyrir henni. Ég verð þó að leiðrétta hana þegar í byrjun um það að skýrslubeiðnin hafi verið lögð fram í október árið 2005 því að hið rétta er að hún kemur fyrst fram 4. apríl 2005 og er í þrígang lögð fyrir Alþingi, þrjú þing í röð. Þrátt fyrir að skýrt kveði á um það 46. gr. laga nr. 55/1991, betur þekkt sem þingskapalög, að skila skuli skýrslum innan 10 vikna eru trúlega liðnar yfir 80 vikur frá því að skýrslubeiðnin kom fyrst fram þar til að við getum loks rætt einhverja niðurstöðu í henni.

Það er auðvitað algerlega óviðunandi að skýrslubeiðnin hafi legið óafgreidd allan síðasta vetur í forsætisráðuneytinu og umhugsunarefni hvers vegna þáverandi hæstv. forsætisráðherra, Halldór Ásgrímsson, vildi ekki leggja hana fram í þinginu ef hún er svona lofsverður dómur á stjórnarstörf. En það ber að virða hæstv. forsætisráðherra fyrir það sem hann hefur fram að færa, að frá því að hann varð forsætisráðherra hefur hann staðið við tímamörkin fyrir sitt leyti en þar sem hann er í fyrirsvari fyrir ríkisstjórnina og fyrir ráðuneytið þykir mér tilhlýðilegt að hann biðjist velvirðingar í þingsal á drættinum og hafi einhverjar skýringar á því hvers vegna hann varð.

Hin aðfinnslan er verri. Hún er sú að hér leggi þingmenn á löggjafarþingi íslensku þjóðarinnar fram skýrslubeiðni til hæstv. forsætisráðherra um mikilvægt málefni eins og fátækt barna og hag þeirra með skýrum, einföldum og afdráttarlausum spurningum og að þeim skýru og einföldu spurningum sé ekki svarað og að í skýrslubeiðninni séu hunsaðar fleiri, fleiri fyrirspurnir til hæstv. forsætisráðherra um atriði sem fyrir liggur tölfræði um, eftir því sem ég best veit, vegna þess að forsætisráðherra telur ekki henta að svara spurningunum. Eða hvers vegna er því ekki svarað hversu mörg börn eru hér undir fátæktarmörkum samkvæmt skilgreiningu Evrópusambandsins, sem þó er spurt eftir í skýrslunni? Þykir það ekki nógu mikilvæg spurning frá þingmönnum til forsætisráðherra? Hvers vegna er því ekki svarað hversu mörg börn eru með innan við 40% af ráðstöfunartekjum? Við getum kannski kallað það skelfingarmörk hversu mörg börn eru skelfilega illa sett á Íslandi. Hvers vegna er þeirri spurningu ekki svarað, hvers vegna víkst forsætisráðherra undan því að svara henni?

Hvers vegna er ekki svarað skýrum spurningum um samanburð á okkur og hinum Norðurlöndunum um fátæk börn? Hvers vegna er það bara birt á óljósri mynd nr. 10 með línuritum sem erfitt er að ráða úr og með fjölda annarra ríkja inni á milli? Hvers vegna er ekki svarað skýrum spurningum um það hversu mikið fé við leggjum til barnafjölskyldna annars vegar og hvað hin Norðurlöndin leggja til barnafjölskyldna hins vegar, hvað barnabætur eru hér og hvað barnabætur eru þar? Ástæðan er ósköp einföld. Hæstv. forsætisráðherra hefur nokkuð að fela í þessum efnum, vegna þess að sá samanburður og þær upplýsingar eru hæstv. forsætisráðherra óþægilegar upplýsingar.

Hæstv. forsætisráðherra gat um það að hér er skýrsla af þessu tagi gerð í fyrsta sinn og ég held að það sé vel og ég tek undir orð hans um það að hún á að geta, þrátt fyrir þessa annmarka sína, orðið grundvöllur að upplýstri umræðu um efnið. Það á að vera okkur öllum umhugsunarefni að verið sé að kalla eftir þessum upplýsingum í fyrsta sinn. Við eigum samanburð við OECD um verðbólgu, um vexti, um lífslíkur, um hvað eina sem okkur finnst skipta máli, en við höfum ekki mælt hversu mörg börn á Íslandi búa undir fátæktarmörkum. Það er einfaldlega þannig að við mælum það sem okkur finnst skipta máli og ég held að það sé þess vegna fagnaðarefni að við séum farin að mæla þetta og ég skora á hæstv. forsætisráðherra að beita sér fyrir því að það verði héðan í frá gert með reglubundnum hætti þannig að við getum fylgst með því hver hagur fátækra barna á Íslandi er frá einum tíma til annars.

Virðulegur forseti. Niðurstaðan í skýrslu hæstv. forsætisráðherra er giska einföld, kjarni málsins er skýr. Norrænu jafnaðarsamfélögunum hinum tekst að bjarga þremur af hverjum fjórum, jafnvel fjórum af hverjum fimm fátækum börnum upp fyrir fátæktarmörk með aðgerðum hins opinbera í skatta- og bótakerfinu. Ójafnaðarstjórn Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks nær varla öðru hverju barni upp fyrir þau mörk. Væri hér norrænt velferðarríki í samræmi við það sem gerist annars staðar á Norðurlöndunum með jafnaðarstefnu að leiðarljósi má því ætla að yfir tvö þúsund börnum færra væri undir fátæktarmörkum Efnahags- og framfarastofnunar á Íslandi. Ástæðan er auðvitað sú að á þeim árum sem við skoðum, stjórnarárum Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks, 1999 og 2003 t.d., eru framlög hinna Norðurlandanna til barnabóta helmingi meiri en hjá okkur, fjárhagslegur stuðningur við barnafjölskyldur. Meðan framlög til þjónustu og bóta til barnafjölskyldna hlaupa hjá okkur á bilinu 2–3 þús. evrur verja Danir á bilinu 4–5 þús. evra til sama málefnis. Það skilar sé auðvitað í niðurstöðunni.

Hin óskýra mynd, mynd nr. 10 sem ég vek sérstaka athygli á, sýnir hina köldu pólitík í málinu. Hún sýnir hvernig jafnaðarsamfélög ná því að ná úr gildru fátæktar flestum börnum og barnafjölskyldum sem þar lenda meðan samfélög eins og Bretland, sem er vel innan við að ná helmingi fátækra barna upp fyrir þau mörk, og Bandaríkin sem varla ná tíunda hverju barni upp fyrir fátæktarmörkin með opinberum aðgerðum, hún sýnir einfaldlega muninn á stjórnarstefnunni í þessum löndum. Þegar hæstv. forsætisráðherra segir að við séum í fremstu röð í OECD-ríkjunum er það út af fyrir sig rétt í samanburði við Mexíkó, Tyrkland o.s.frv. En í samanburði við þau lönd sem við erum vön að bera okkur saman við, hin Norðurlöndin, erum við aftast. Hér er staða fátækra barna verst. Hér í okkar litla samfélagi sem á ríka sögu um jöfnuð stöndum við verst. Við hljótum að kalla eftir því að hæstv. forsætisráðherra hætti að reyna að segja okkur að þetta sé allt í lagi og að fátækt sé bara tímabundin heldur segi okkur hvaða aðgerða ríkisstjórnin hyggst grípa til til að vinna á þessu.

Þær skýringar sem hann gaf okkur á stöðu mála eru kunnar frá fyrri umræðu um málefnið — er ég búinn með tímann, virðulegur forseti?

(Forseti (BÁ): Já.)

Ég get vikið að þeim í seinni ræðu minni en ítreka þakkir til hæstv. forsætisráðherra fyrir framlagninguna.