133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

fátækt barna og hagur þeirra.

184. mál
[16:11]
Hlusta

Einar Oddur Kristjánsson (S):

Virðulegi forseti. Það er gott og gagnlegt að ræða þessa skýrslu og velta fyrir sér þeim hlutum sem þar er að finna.

Hæstv. forsætisráðherra gerði grein fyrir þeirri aðferðafræði sem liggur þarna á bak við og gerði grein fyrir því hvernig þetta er gert. Þetta er miðgildisreikningur, 50% og svo helmingurinn af helmingnum. Mönnum má því vera alveg ljóst að þetta er OECD-aðferðin og menn verða alltaf að muna það þegar við förum inn í tölfræði OECD, að mjög skýrt er tekið fram þar í þeim gögnum öllum, að aðaltilgangurinn er að sjá þróunina í tíma. Samanburður milli landa er alltaf miklum vandkvæðum bundinn enda kemur það alltaf fram hjá öllum þeim fræðimönnum sem um þetta fjalla.

Niðurstaðan, miðað við þessa reikninga, að 6,6% barna séu undir þessum mörkum sýnir, eins og hæstv. forsætisráðherra sagði, að við erum náttúrlega í hópi þeirra þjóða sem standa best. Við skulum ekki gleyma því að fátækt hér er ekki sama eins og fátækt í Austur-Evrópu. Við erum miklu, miklu betur sett en fátæk ríki.

Hver hefur þróunin verið á árunum 1994–2004, í tíu ár? 6,6% í enda tímabilsins, en við vorum í upphafi tímabilsins líka með 6,6%. Hefur þróunin þá verið til aukins misréttis? Nei. Það er mikil tilhneiging hjá stjórnarandstöðunni að vera alltaf að segja miklar sögur af því að á umliðnum árum hafi allt tekjukerfi Íslendinga raskast og sé nú orðið allt annað en hafi verið áður. Allar rannsóknir, herra forseti, sýna annað. Þær sýna að atvinnutekjurnar hafa verið að vaxa að raungildi nokkurn veginn alveg jafnt í öllum tekjuhópum. Umrædd skýrsla sýnir að þetta er óbreytt frá því fyrir tíu árum, alveg öfugt við það sem stjórnarandstaðan hefur svo mikinn áhuga fyrir að reyna að koma á framfæri. Þetta eru hreinlega bara ósannindi og rétt að menn undirstriki það aftur og aftur.

Skýrsla Ragnars Árnasonar prófessors um tekjuþróun á Íslandi sýnir líka það sama, alveg nákvæmlega. Það hefur engin slík röskun átt sér stað. Við skulum líka minnast þess þegar við skoðum skýrsluna, að raungildi teknanna frá 1994–2004 hefur hækkað um 50% — raungildið — þannig að það hefur nú ekki verið árangurslaust starfið í efnahagsmálum.

Hins vegar er það rétt, herra forseti, sem kom fram hjá hv. þm. Helga Hjörvar að hægt er að hafa áhrif á þessar tölur, það er alveg rétt. Hann sagði áðan, ég hef ekki þær tölur hjá mér en ég reikna með að það sé rétt hjá honum og ég treysti honum, að barnabætur séu mun hærri á Norðurlöndum en hjá okkur miðað við skýrsluna. Það kann rétt að vera og ég bara tek það sem gott og gilt. En þá vil ég benda á að á síðustu þremur árum, 2005, 2006 og núna á fjárhagsárinu 2007 hefur raungildi barnabóta á Íslandi einmitt hækkað um 50%, auk þess sem við höfum hækkað skattleysismörkin mjög mikið. (Gripið fram í: Er það nóg?) Ef þetta er svona sem hann segir þá er líka mjög trúlegt að okkur hafi tekist að ná árangri núna í ár og í fyrra og hittiðfyrra, við stöndum þá í hópi þeirra sem eru bestir, kannski albestir. Við skulum vera stolt af því hvernig staðan er á Íslandi, við skulum vera ánægð með það. Við skulum þakka fyrir það, því að það er íslenskri þjóð, dugnaði hennar að þakka að svo vel er staðið að en ekki reyna að draga þetta alltaf niður í svaðið og segja að þetta sé verra en það er.