133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

fátækt barna og hagur þeirra.

184. mál
[16:16]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf):

Herra forseti. Skýrslan um barnafátækt staðfestir það sem við í Samfylkingunni höfum haldið fram að öryggisnet velferðarkerfisins er brostið og misskipting og ójöfnuður fer vaxandi í þjóðfélaginu. (EOK: Nei, Jóhanna.) Það er nöturlegt að tæplega 15.000 manns, börn í 3.000 fjölskyldum eða á bilinu 10–15.000 manns eigi ekki fyrir brýnustu nauðþurftum.

Þegar með eru teknir fátækir án barna eins og lífeyrisþegar er áætlað að ekki séu færri en 18–20.000 manns sem gert er að lifa undir fátæktarmörkum. Fátæk börn njóta ekki jafnræðis á við önnur börn í samfélaginu. Þau hafa minni möguleika til tómstunda- og íþróttastarfa og einangra sig oft frá jafnöldrum sínum.

Skuggi fátæktar hvílir því yfir nálægt 20.000 landsmönnum og þetta fólk er oft í sárri neyð. Því er skammtað úr hnefa. Laun þeirra, lífeyrir og atvinnuleysisbætur er svo smátt skammtað að það dugir ekki fyrir brýnustu nauðþurftum. Sama hve mikið er sparað. Sama þótt unninn sé fullur vinnudagur.

Auk lágra launa er fátæktin fyrst og fremst til komin vegna þess að jöfnunarmarkmið velferðar- og skattkerfisins hafa vikið en hálaunafólk og fjármagnseigendur hafa verið settir í forgang hjá ríkisstjórninni.

Með tilfærslum ríkisvaldsins gegnum skattkerfið frá fátækum til nýríkra fjármagnseigenda hafa skattleysismörkin verið skert um nálægt 50 þús. kr. á mánuði og ættu í dag að vera nálægt 140 þús. kr. á mánuði í stað rúmlega 90 þús. kr. Fyrir þetta hafa fátækar barnafjölskyldur liðið sárlega.

Ríkisstjórnin ber ábyrgð á því að velferðarkerfið er orðið fullt af fátæktargildrum og því hefur nánast verið breytt í ölmusukerfi. Ríkisstjórnin hefur sjálf staðfest þetta en í skýrslu um stefnumótun í málefnum barna og unglinga er lýst mjög alvarlegum agnúum á bóta- og velferðarkerfinu varðandi hag barna og sérstaklega ítrekað að úrbóta sé þörf í málefnum fátækra barna og nýbúabarna.

En þeirri skýrslu var stungið undir stól og vilji Alþingis um gerð framkvæmdaáætlunar og heildarstefnumótunar í málefnum barna og unglinga hunsaður. Sama mun vafalaust gerast með þessa skýrslu um barnafátækt eins og tvær aðrar skýrslur um fátækt í samfélaginu sem gerðar hafa verið frá árinu 1996.

Í öllum skýrslunum þremur um fátækt sem lagðar hafa verið fram á Alþingi allar götur frá 1996 kemur fram að auknar barnabætur er ein veigamesta aðgerðin gegn fátækt.

Það er því kaldhæðnislegt að 10 árum eftir að skýrslan var lögð fram, eða árunum 1996–2006, hafa barnabætur rýrnað að raungildi um rúmlega 10 milljarða kr. eða meira en einn milljarð á hverju ári frá því núverandi ríkisstjórn tók við.

Það er auðvitað til skammar að ein af orsökum þess að fátækt barnafólk á ekki fyrir brýnustu framfærslu er að barnabætur byrja að skerðast við 92 þús. kr. hjá einstæðu foreldri og 185 þús. kr. samanlagðar tekjur hjóna. Barnabætur eru því orðnar að láglaunabótum í höndum ríkisstjórnarinnar.

Auk þess greiðast ótekjutengdar barnabætur ekki eftir að barn byrjar í grunnskóla en kostnaður við barn á grunnskólaaldri er ekki síður mikill en vegna barns á leikskólaaldri.

Áætla má að íþróttir, frístundaheimili, matur í skóla og ef barnið er í tónlistarnámi, geti verið um 240 þús. yfir skólaárið og því fráleitt að hætta greiðslu ótekjutengdra barnabóta við sjö ára aldur barns eins og núverandi ríkisstjórn stendur að.

Staðreyndin er sú að hækkun skatta á 90% þjóðarinnar, 10 milljarða skerðing barnabóta, mikil skerðing vaxtabóta, aukin kostnaðarþátttaka í heilbrigðiskerfinu, þreföldun á húsnæðiskostnaði og rofin tengsl lífeyris við launavísitölu hafa stækkað hóp fátækra verulega og hafa dregið niður lífskjörin hjá fátækasta fólkinu í þjóðfélaginu.

Brýnasta viðfangsefnið í dag er að koma á aðgerðaráætlun um úrlausnir gegn fátækt í samráði við heildarsamtök launafólks. Slík aðgerðaráætlun á að miða að því að enginn hafi sér til framfærslu tekjur undir skilgreindum framfærslumörkum.

Það vantar aðgerðir en ekki að forsætisráðherra reyni að tala sig frá því að hér sé til fátækt þegar ætla má að 20.000 manns lifi undir fátæktarmörkum.