133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

fátækt barna og hagur þeirra.

184. mál
[16:20]
Hlusta

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Við ræðum skýrslu forsætisráðherra um fátækt barna og hag þeirra og ég vil þakka þeim hv. þingmönnum sem óskuðu eftir skýrslunni fyrir þetta þarfa framtak og hæstv. forsætisráðherra fyrir skýrsluna.

Fátæk börn eru smánarblettur á þjóðfélagi sem tilheyrir ríkustu þjóðum heims og skiptir þá ekki öllu máli hver samanburður innan ríkja OECD er, en 6,6% barna á Íslandi teljast hafa búið við fátækt árið 2004 og er það með öllu óásættanlegt.

Hlutfall þeirra heimila sem eru með börn á framfærslu og njóta fjárhagsaðstoðar hefur hækkað. Þar hefur einstæðum foreldrum með börn fjölgað mest. Þar er stærsti hópurinn ungar einstæðar mæður. Langflestir þeirra sem þiggja fjárhagsaðstoð og eiga börn eru atvinnulausir. En árið 2004 voru 2.800 fátæk börn einstæðra foreldra og 1.800 börn hjóna.

Er ekki eitthvað mikið að hjá þjóð sem telur sig búa í velferðarþjóðfélagi en lætur slíkt viðgangast? Því börn eru sá hópur sem getur ekki borið hönd fyrir höfuð sér og verður að sætta sig við þær aðstæður sem þeim eru skapaðar hverju sinni. Þau líða fyrir fátækt á heimili sínu, hverjar svo sem orsakir fátæktarinnar eru. Sum börn bíða þess aldrei bætur og félagslega geta þau orðið utan garðs og ekki þátttakendur í því samfélagi sem þorri barna á Íslandi hefur aðgang að.

Það er dapurlegt að vita til þess að fjöldi barna fer á mis við ótal hluti sem teljast sjálfsagðir í nútímasamfélagi. Þar má nefna íþróttir, listnám, og annað uppbyggilegt frístundastarf sem öll börn, óháð efnahag foreldra, ættu að hafa aðgang að. Mikil hætta er á að í neysluþjóðfélagi okkar beri fátæk börn það með sér með einhverjum hætti, t.d. í klæðaburði og öðru, hvernig ástatt er og að þau verði fyrir aðkasti og einelti skólafélaga sinna og eru þar með komin í félagslegan áhættuhóp. Allt þetta dregur úr möguleikum þeirra í framtíðinni til sömu lífsgæða og tækifæra sem önnur betur sett börn hafa.

Oftar en ekki lenda foreldrar fátækra barna í tímabundnum áföllum sem þarf að vera hægt að bregðast við strax svo þeir geti náð sér aftur á strik sem fyrst og lendi ekki í vítahring fjárhagserfiðleika sem ekki er hægt að komast út úr.

Stór hluti vandans eru lág laun ófaglærðra umönnunarstétta og verkafólks. Það er ólíðandi að laun fyrir 100% starf standi ekki undir lágmarksframfærslu. Skattgreiðslur láglaunahópa hafa aukist mikið á síðustu árum þar sem skattleysismörk hafa ekki fylgt launaþróun í landinu. Ríkisvaldið hefur tekið meira og meira af lágum tekjum fólks og komið fólki í fátæktargildru.

Í upplýsingum Þjóðhagsstofnunar kemur fram að árið 2001 greiddu lífeyrisþegar og láglaunafólk með laun og bætur undir 90 þús. kr. á mánuði, um 1 milljarð í tekjuskatt og útsvar það árið. Er þetta eðlilegt? Ég segi nei. Þessi milljarður hefði verið betur kominn hjá þeim mörgu, fátæku barnafjölskyldum sem greiddu þann skatt.

Skattteknanna hefði átt að afla hjá hinum tekjuháu í þjóðfélaginu sem ekki hefði munað mikið um slíkt. Þeir sem eru 75% öryrkjar eða á atvinnuleysisbótum eiga alla jafna ekki rétt á fjárhagsaðstoð sveitarfélaganna sem eru í dag innan við 100 þús. kr. á mánuði. Lágmarksframfærslukostnaður sem viðmið hjá Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna fyrir einstætt foreldri með eitt barn á framfæri er áætlaður um 193 þús. kr. á mánuði. Þarna munar miklu.

Tannheilsa barna er líka áhyggjuefni þar sem rannsóknir hafa sýnt fram á að margir foreldrar hafa ekki efni á að senda börn sín til tannlæknis og þar verður ríkið að auka kostnaðarhlutdeild sína nú þegar.

Í velferðarríki gegnir ríkisvaldið mikilvægu hlutverki til að jafna aðkomu fólks og möguleika og getur með tekjujöfnunaraðgerðum bætt hag fátækra barna á Íslandi nú þegar og fjárfest þar með í framtíð þeirra.

Ég vil í því sambandi nefna hærri barnabætur til þeirra tekjulægri, hækkun skattleysismarka, og að öll grunnsamfélagsþjónustan verði án gjaldtöku og þar með taldir skólar, heilbrigðisþjónusta, frístundaiðkun barna og unglinga og mikilvægt er einnig að skólamáltíðir fyrir öll börn verði sem hluti af skóladeginum.

Einnig er nauðsynlegt að vinna að áframhaldandi lækkun á virðisaukaskatti á matvælum. En nú þarf að grípa til aðgerða strax til að bæta hag þeirra barna sem verst eru sett.