133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

fátækt barna og hagur þeirra.

184. mál
[16:26]
Hlusta

Birkir Jón Jónsson (F):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að fagna þeirri umræðu sem hér fer fram um skýrslu forsætisráðherra um fátækt barna og hag þeirra og jafnframt þakka hv. þm. Helga Hjörvar fyrir frumkvæðið og hæstv. forsætisráðherra fyrir skýr og greinargóð svör.

Það er okkur nefnilega mikilvægt að taka umræðu sem þessa í þeirri viðleitni að halda áfram að skapa samfélag jafnra tækifæra og tryggja öllum börnum jöfn tækifæri.

Skýrsla sem þessi gefur okkur líka kost á því að ræða hlutina út frá ákveðnum staðreyndum sem viðurkenndar alþjóðastofnanir hafa lagt okkur í hendur.

Þegar við lesum skýrslu hæstv. forsætisráðherra kemur í ljós að vegna mikillar hækkunar tekna undanfarin ár hafa fátæktarmörk hækkað um nálega 50% að raunvirði á milli áranna 1994 og 2004. Fátæktarmörk hafa hækkað að raunvirði um 50% á tímabilinu.

Þess vegna var sérstakt að hlusta á hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur áðan, sem var ráðherra í ríkisstjórninni 1991–1995, tala um slæman árangur ríkisstjórnarinnar á þessu sviði þegar fátæktarmörk hafa hækkað um 50% á umræddu tímabili. Er, hæstv. forseti, hægt að snúa staðreyndum meira á haus en raun ber vitni?

Það var forgangsmál okkar framsóknarmanna fyrir síðustu alþingiskosningar að hækka barnabætur. Árið 2004 voru barnabætur 5,4 milljarðar eins og hæstv. forsætisráðherra benti á áðan. Í ár verða barnabætur 8,5 milljarðar og hafa hækkað um 60% síðan árið 2004. En það er akkúrat viðmiðunarár skýrslunnar.

Ástandið í dag, árið 2007, er því miklum mun betra en árið 2004 og þess vegna hvet ég hæstv. forsætisráðherra til þess að gera aðra athugun á stöðu íslenskra barna í dag. Ég tel að sú skýrsla mundi sýna að fátækt hafi minnkað til muna frá árinu 2004 sem er gleðilegt og sem við eigum að fagna.

Það er dálítið merkilegt að hlusta á ræður hv. þingmanna Vinstri grænna í umræðunni þar sem sú krafa kemur frá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að barnabætur verði ótekjutengdar. Lífskjarajöfnunarverkfæri okkar sem við höfum nýtt, að þeir sem verst hafa staðið fá hlutfallslega miklu hærri barnabætur en bankastjórinn sem er með eina og hálfa milljón á mánuði. (Gripið fram í.)

Hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir ræðst að láglaunafólki í þessari umræðu með því að segja að þessi 8,5 milljarðar eigi að skiptast jafnt á milli allra, óháð því hvort viðkomandi sé með eina og hálfa milljón á mánuði eða 100 þús. (Gripið fram í.) Hv. þingmaður vill stækka kökuna. Það er nefnilega það sem Vinstri grænir vilja gera sí og æ. Þeir halda að endalausir fjármunir séu til til allra hluta.

Það er einfaldlega þannig að hér er um takmörkuð gæði að ræða. Það er stefnumið okkar framsóknarmanna að halda þessari tekjutengingu. Síðan getum við farið í umræður um það hvort tekjutengingin sé of brött. En staðreyndin er sú að á tímabilinu 2004–2007 hafa barnabætur hækkað um 60% sem rennur hlutfallslega mest til þeirra sem hafa lægstu tekjurnar. (KolH: En tekjur ríkissjóðs?)

Hæstv. forseti. Ég tel að við séum á réttri leið. Við erum að skapa tækifæri fyrir öll börn ef við höldum áfram á þeirri leið. Við gerum það ekki með málflutningi eins og hv. þm. Kolbrún Halldórsdóttir hefur haldið fram, að allir eigi að fá jafnt úr barnabótum eða öðru slíku. Við þurfum að jafna lífskjörin í landinu og við erum á réttri leið hvað það snertir.