133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

fátækt barna og hagur þeirra.

184. mál
[16:40]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það hefur margt ævintýralega sérkennilegt verið sagt í umræðunni í dag. Eitt af því sem ég verð að nefna í upphafi er ræða hv. þm. Birkis J. Jónssonar sem hann flutti áðan þar sem hann fullyrti að við værum á réttri leið hvað jöfnun lífskjara varðar. Ég hef aldrei heyrt aðra eins dellu á þeim tíma sem ég hef setið á þingi vegna þess að staðreyndin er sú að núverandi ríkisstjórn hefur markvisst verið að skera niður framlög til barnabóta og vaxtabóta. Skattalækkanir hafa verið framkvæmdar með þeim hætti að þær hafa stækkað bilið milli ríkra og fátækra. Þetta hefur komið fram í svörum frá hæstv. fjármálaráðherra til hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur og stendur þar svart á hvítu: Eini hópurinn sem hefur eitthvað fengið út úr skattalækkunum ríkisstjórnarinnar eru þau 10% sem hæstar hafa tekjurnar. Að standa hér og halda því fram að við séum á réttri leið hvað jöfnun lífskjara varðar er auðvitað ekkert annað en sýndarmennska af versta tagi.

Virðulegi forseti. Staðreyndin er nefnilega sú að ríkisstjórnin hefur verið að þrengja verulega að barnafólki og þá ekki síst þeim fjölskyldum sem hafa lægstar tekjurnar sem og millitekjufjölskyldum.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir fór vel yfir þann hluta sem snýr að barnabótum og niðurskurðinum á þeim. Það sem hv. þm. Birkir J. Jónsson hélt fram áðan er einfaldlega rangt um hækkun barnabóta og var enn ein aumleg tilraun til þess að slá ryki í augu manna. Staðreyndin er sú að barnabæturnar hafa lækkað, verið lækkaðar markvisst ár frá ári frá árinu 1995. Eitt árið voru þær hækkaðar um 50%, það er rétt. Það var á milli 2005–2006, að mig minnir, vegna þrýstings frá ASÍ í tengslum við gerð kjarasamninga. Annað var það ekki.

Annað sem hefur verið skert verulega á kjörtímabilinu eru vaxtabæturnar. Þær hafa verið skornar niður með ævintýralegum hætti með markvissum aðferðum allt kjörtímabilið. Þegar núverandi ríkisstjórn stendur frammi fyrir kjósendum í vor verður hún milljarð í mínus gagnvart barnafólki og því fólki sem er að koma sér upp þaki yfir höfuðið. Milljarð í mínus í vaxtabótum.

Allt þetta er gert á sama tíma og húsnæðisverð hefur aldrei verið hærra, vextir þeir hæstu í heimi auk hárrar verðbólgu sem leggst ofan á húsnæðislánin með verðtryggingunni. Menn geta ekki hlaupið frá slíkum staðreyndum og frá þeirri staðreynd að sá veruleiki sem núverandi ríkisstjórn hefur skapað leggst þungt á íslensk heimili og barnafjölskyldur. Á síðasta ári voru íslensk heimili með verðtryggð lán að greiða að minnsta kosti 13% nafnvexti af húsnæðislánum sínum vegna þeirrar óstjórnar sem ríkt hefur í efnahagsmálum og leiddi af sér þessa háu verðbólgu.

Margt þrengir að fjárhag barnafjölskyldna. Þar má nefna t.d. hátt matarverð, há dagvistunargjöld, háa gjaldheimtu í heilbrigðiskerfinu, hátt verð á lyfjum auk ofangreinds kostnaðar vegna húsnæðis. Þess vegna þótti mér merkilegt að standa hér áðan og hlusta á hv. þm. Dagnýju Jónsdóttur lýsa því yfir að eitt af þeim tækjum sem við gætum notað til að mæta barnafjölskyldum í landinu væri gjaldfrjáls leikskóli, þegar á sama tíma flokkur hennar á aðild að meiri hluta í borgarstjórn sem núna er nýbúinn að hækka leikskólagjöldin í Reykjavíkurborg. Samfylkingin lagði af stað með það að lækka leikskólagjöldin en núna eru Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur að hækka þau. Það er því ekkert að marka þau orð.

Virðulegi forseti. Við jafnaðarmenn höfum sýnt það og sannað með orðum okkar og athöfnum að við ætlum að vinna fyrir fólkið í landinu fáum við til þess brautargengi í kosningunum í vor. Það er alveg kristaltært að í samfélagi sem er stýrt af jafnaðarmönnum verður fátækt meðal barna (Forseti hringir.) aldrei liðin. Hún verður aldrei liðin.