133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

fátækt barna og hagur þeirra.

184. mál
[16:44]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á að þakka skýrslubeiðendum fyrir framtak þeirra að gefast ekki upp og halda áfram að biðja um skýrslu um fátækt á Íslandi. Eins vil ég þakka forsætisráðherra fyrir þá skýrslu sem við ræðum.

Mér finnst mjög mikilvægt að við hættum aðeins að karpa um tölur, hversu margir eru skilgreindir sem fátækir samkvæmt þeirri aðferð sem hér er notuð, því ljóst er að hægt er að skilgreina fátækt á mismunandi hátt. Sú aðferð sem hér er notuð er hlutfallsleg fátækt og hún mælir það sem hér kemur fram. Það er líka hægt að mæla fátækt samkvæmt aðferð sem heitir altæk fátækt, en þá er það metið hver framfærslukostnaður hvers einstaklings og fjölskyldna er eftir því hvernig þær eru samansettar. Einnig er hægt að meta huglæga fátækt, hvort fólk upplifir sig fátækt eða ekki og hægt er að vinna að alþjóðlegum samanburði.

Ég tel, hæstv. forseti, mjög mikilvægt að við stundum rannsóknir og kortleggjum efnahagsástand fjölskyldnanna í landinu út frá öllum þessum aðferðum, hvort fólk upplifir sig fátækt eða ekki, hvort börn upplifa sig fátæk og telji að fjölskyldan sé fátæk og hafi ekki efni á því að kosta frístundir, klæðnað og ýmisleg tæki sem jafnaldrar þeirra hafa milli handanna og þykja sjálfsögð í dag.

Samkvæmt niðurstöðunum hefur fátækt helst varanleg áhrif ef hún stendur í langan tíma. En það er ekki sama á hvaða aldri. Unglingar eru t.d. mjög viðkvæmir fyrir því að geta ekki verið eins og jafnaldrar þeirra (Forseti hringir.) og þau áhrif geta varað ævilangt.