133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

fátækt barna og hagur þeirra.

184. mál
[16:55]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem þátt tóku í umræðunni fyrir framlag þeirra. Við höfum hreyft hér við feimnismáli og ég held að í sannleika sagt fyrirverðum við okkur öll fyrir það að á Íslandi allsnægtanna hafi nærri 5 þús. börn verið undir fátæktarmörkum fyrir skemmstu. Þess vegna er hæstv. forsætisráðherra í feluleik og afneitun. Þess vegna segir hæstv. forsætisráðherra að við séum næstum því best í heimi en ekki það að hér séu hlutfallslega flest fátæk börn alls staðar á Norðurlöndunum. Þess vegna neitar hann að birta samanburð á framlögum okkar til barnafjölskyldna og framlögum manna á Norðurlöndunum.

Afneitunin birtist síðan í alls kyns annmörkum á alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði í samanburði á þeirri ótrúlegu hagfræðikenningu að fátækt sé yfirleitt tímabundin. Sú fjarstæðukennda kenning hæstv. forsætisráðherra er ekki byggð á neinum vísindalegum grunni og mundi trúlega færa honum nóbelsverðlaun í hagfræði ef rétt reyndist. Afneitunin birtist í þriðja lagi í því að segja að það sé kannski allt í lagi að fátæk börn séu hlutfallslega svona mörg hérna vegna þess að við höfum það öll svo miklu betra en fyrir 10 árum.

En, virðulegur forseti, þannig er það líka í Tékklandi. Í Tékklandi hefur kaup líka hækkað og hækkað síðustu 10 árin en samt nær ríkisstjórn jafnaðarmanna þar tveimur af hverjum þremur fátækum börnum upp fyrir fátæktarmörkin með skatta- og bótakerfinu. Þeir leggja meiri áherslu á það suður í Tékklandi að bjarga börnum upp fyrir fátæktarmörkin en við gerum hér. Mig undrar metnaðarleysi (Forseti hringir.) hæstv. forsætisráðherra. Þegar kemur að hag barna (Forseti hringir.) og fjölda fátækra barna á Íslandi eigum við ekki að (Forseti hringir.) sætta okkur við það að vera lélegust af Norðurlöndunum. Við (Forseti hringir.) eigum að gera kröfu til þess að vera best í heimi.