133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

fátækt barna og hagur þeirra.

184. mál
[16:58]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Ég bið þingmanninn að velta því fyrir sér í alvöru hvort hv. þingmanni sem hér talaði síðast geti verið sjálfrátt ef hann telur að það sé betra að vera fátækt barn í Tékklandi eða í Austur-Evrópu en á Íslandi. Heyr á endemi.

Það hefur verið gefið í skyn í þessari umræðu, virðulegi forseti, að reynt hafi verið að leyna upplýsingum, reynt að draga framlagningu þessarar skýrslu úr hófi o.s.frv. Það er best að segja það alveg eins og það er að öllum spurningum er svarað í þessari skýrslu sem um var beðið sem unnt er að svara með þeim gögnum sem tiltæk eru. Hér er unnið verk sem ekki hefur áður verið unnið á Íslandi og þeir sem það hafa unnið hafa gert það eftir bestu samvisku og unnið úr þeim gögnum sem hægt hefur verið að nota til að greina þennan vanda sem hér er vissulega verið að tala um.

Ég stóð frammi fyrir vali um að draga framlagningu skýrslunnar enn meðan verið væri að afla gagna sem gæti tekið verulegan tíma eða birta hana eins og hún er í þeim búningi sem hún liggur fyrir í og þá með þeim annmörkum að hugsanlega væri ekki öllu svarað. Öllu er hins vegar svarað sem hægt er að svara á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Ég vildi frekar gera það þannig en að draga framlagningu hennar fram eftir öllum vetri eða hugsanlega hefði það getað orðið til þess að skýrslan hefði alls ekki verið birt.

Auðvitað er búið að benda á ákveðið vandamál með þessari skýrslu. Á þessu vandamáli, fátækt barna, eru margvíslegar skýringar sem eiga við um þjóðfélag okkar sem er vissulega að mörgu leyti frábrugðið því sem annars staðar þekkist. Ekki geta unglingar í öllum löndum sem eignast börn gengið að því vísu að þau geti verið með börn sín á heimili foreldranna og búið þar kannski við gott atlæti þó að skattframtöl segi annað. Við vitum alveg hvernig þetta er í okkar góða samfélagi. Því miður á það ekki við um alla og því miður hafa enn þá ákveðnir hópar hér minna úr að spila en við teljum æskilegt.

Ég vil geta þess í sambandi við aðferðafræðina í þessu máli að það er miðað við miðgildið sem OECD notar. Það eru til aðrar aðferðir eins og ég gat um í upphafi. Það er rétt að bæta því við að í flestum OECD-löndunum er miðgildið og þeir útreikningar sem á því byggjast fengið með úrtakskönnun. Við notum ekki þá könnun á Íslandi í þessu máli heldur byggjum við á skattframtölum. Það þýðir að við náum til hópa í gegnum skattframtöl sem við mundum áreiðanlega ekki ná til í gegnum úrtak. Til dæmis er ungt fólk með börn sem býr á heimilum foreldra sinna ekki í slíkum hópi sem næst í gegnum úrtak. Það heldur ekki sjálfstæð heimili með þeim hætti. Það má leiða að því líkur að ef við værum hér með úrtakskönnun eins og annars staðar væri þetta hlutfall lægra sem við erum hér að tala um. Ég ætla ekki að gera of mikið úr því, ég ætla ekki að reyna að draga úr vandanum með þessu en ég bendi á að þessi aðferðafræði er miklum annmörkum háð.

Sömuleiðis er líka einfalt skilgreiningaratriði að segja: Við skulum bara lýsa því yfir að allir sem eru 50% undir miðgildinu séu fátækir. Ef við mundum segja að allir sem hafa 40% af miðgildinu séu fátækir mundi talan 6,6% barna lækka í 3,3%. En hver segir að þessi mörk séu endilega 50% af miðgildinu? Hver getur fullyrt að það sé þannig? Það er bara mælikvarði sem menn búa sér til en (Gripið fram í.) hann er líka þessum annmörkum háður. Ég bendi á að miðað við íslenskar tölur væru þetta 3,3% ef stuðst væri við 40% af miðgildinu.

Auðvitað eru gallar á þessari aðferðafræði. Það þýðir ekki að vandamálið sé ekki til, auðvitað er það til, við höfum rætt það með ágætum í þessari umræðu (Forseti hringir.) að ég tel.