133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar.

415. mál
[17:35]
Hlusta

Kolbrún Halldórsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég er þeirrar skoðunar, eins og ég sagði í andsvari mínu við hæstv. ráðherra rétt áðan, að þetta sé ansi erfitt mál og eigi eftir að verða erfitt mál fyrir ríkisstjórnina að koma því í gegn þessum vetri í ljósi ýmissa hluta, t.d. þess hvernig umræðan er nú um stundir um þjóðlendur og þau ágreiningsmál sem uppi eru varðandi meðferð kröfugerðar ríkisins í þeim efnum.

Ég vil líka taka undir orð hv. þm. Jóhanns Ársælssonar sem talaði hér á undan. Það er ekki vansalaust að ríkisstjórnin skuli hafa látið undir höfuð leggjast að birta einhvers konar framtíðarsýn eða stefnumörkun um þjóðlendumálin. Ég hef oft átt orðastað við hæstv. ráðherra um það áður í þessum þingsal nú í vetur þegar við ræddum um brottnám hrafntinnu úr Hrafntinnuskeri og stjórnsýslu á miðhálendinu á þeim svæðum sem nú þegar hafa verið dæmd þjóðlenda. Í þeim orðaskiptum kom í ljós ákveðinn vilji hæstv. ráðherra gagnvart því að koma skikki á þessi mál og ég held að hæstv. ráðherra mundi eyða tíma sínum í þarfari hluti ef hann héldi áfram að vinna að stefnumörkun á þjóðlendunum innan ráðuneytis síns frekar en að eyða orku sinni í að koma þessu máli hér í gegn, sem ég held að geti átt eftir að kosta talsverðar deilur. Í sjálfu sér er ég sammála því sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði, að best væri að málið dagaði uppi eins og það gerði hér síðasta vetur því ég held að langbest sé að þessu máli verði ekki hreyft.

Mér finnst hæstv. ráðherra skulda okkur einhvern rökstuðning við því svari sem hann gaf mér áðan í andsvari þar sem ég spurði hann hvort ekki væri hægt að tryggja áframhaldandi rekstur Búrfellsvirkjunar á viðurhlutaminni hátt en hér er lagt til. Hæstv. ráðherra sagði að talið væri heppilegt að gera þetta á þessum nótum og notaði orðið eðlilegt, það væri eðlilegt að hans mati. En hér er um lagatæknilega mjög flókið mál að ræða, ég held því að hæstv. ráðherra verði að skýra það betur hvers vegna hann telur ekki hægt að fara einhverja viðurhlutaminni leið í þessum efnum.

Það er enginn að tala um að Landsvirkjun eigi ekki að hafa fullan nýtingarrétt á því svæði sem um ræðir. En þegar skoðað er allt það landsvæði sem lagt er til að fari úr eign hins opinbera, þ.e. eign þjóðarinnar, sem hefur verið dæmt þjóðlenda og ekki er ágreiningur um að sé þjóðlenda, þá finnst mér að um sé að ræða svo mikið land, miklu meira en Landsvirkjun þarf á að halda í krafti nýtingarréttar síns og þeirra vatnsréttinda sem eðlilegt er að Landsvirkjun hafi á því svæði.

Hér er um að ræða kannski einhverja stærstu þjóðlendu sem hefur verið úrskurðuð hingað til í þeim dómum sem fallið hafa hjá óbyggðanefnd. Hún nær yfir hluta Þjórsárdals, Gnúpverjaafrétt og hluta vatnasviðs Þjórsár. Þetta er það stórt landflæmi sem dregið er upp með hnitum á kortinu sem fylgir frumvarpinu. Ég sé ekki annað en verið sé að seilast fulllangt í þessum efnum og tel líka að verið sé að gefa gríðarlega hættulegt fordæmi inn í það umhverfi sem er til staðar núna. Á meðan verið er að reyna að marka skil eignarlanda og þjóðlendna skiptir það okkur verulegu máli að halda frið um þá framkvæmd, hefði ég haldið, eða er hæstv. forsætisráðherra ekki sammála mér í því? Hæstv. fjármálaráðherra talaði fyrir því fyrir nokkrum dögum úr þessum ræðustóli að þörf væri á að við héldum ótrauð áfram að marka skil eignarlanda og afrétta, það væri ekki sársaukalaust, það hefði aldrei verið sársaukalaust þegar menn deila um landamerki. Það er það ekki heldur í þessu tilfelli. Ég hefði því talið að mál af þessu tagi í það umhverfi sem hér um ræðir sé nánast til þess að skvetta olíu á eld. Ég teldi affarasælast að málinu yrði ekki hreyft meira á þessu þingi vegna þess m.a. að það gefur fordæmi um að hægt sé að breyta dýrmætum þjóðlendum í eignarlönd ef ríkisstjórnin svo ákveður. Það er ekki eðlilegt, virðulegi forseti. Þessi leiðangur finnst mér vera hinn versti og ég á hæstv. forsætisráðherra þær óskir til handa að hann gangi auðveldari stigu á þessu kosningavori en hann ætlar að velja sér.

Óbyggðanefnd hefur komist að þeirri niðurstöðu og komst að þeirri niðurstöðu í úrskurði sínum í mars 2002 að Gnúpverjahreppur hefði ekki átt þennan afrétt sem um ræðir og því hafi hann ekki verið til þess bær að gefa afsal fyrir því landi og reyndar ekki fyrir vatnsréttindunum heldur. Gnúpverjahreppur ætti samt, eftir því sem ég skil þetta mál, að hafa rétt til þess að veita afnot af því landi, Gnúpverjahreppur hefur ákveðinn rétt á þessum afrétti samkvæmt úrskurði óbyggðanefndar og mér sýnist að Gnúpverjahreppur ætti að geta krafið ríkið um ákveðið afgjald af landinu en ekki er um slíkt að ræða. Það er enginn að krefja um afgjald, það eru engir slíkir hagsmunir í þessu máli. Hagsmunirnir virðast vera þeir einir að hafa þennan hálfa milljarð í bókum Landsvirkjunar tilgreindan sem eign Landsvirkjunar og það eru einu hagsmunirnir. Ef það er rétt sem ég tel vera þá sýnist mér málið liggja þannig að Landsvirkjun verði hlutafélagvædd, eins og ég sagði áðan í andsvari, ef þessi ríkisstjórn færi að halda áfram stefnumiðum sínum. Einkaaðilar og stórfyrirtæki hér á landi hafa gefið um það yfirlýsingar að þau hafi fullan hug á að gerast virkir aðilar á raforkumarkaði sem núverandi ríkisstjórn hefur innleitt samkeppnisrekstur á. Samkvæmt samningnum sem gerður var þegar eignarhlutur ríkisins var innleystur og ríkið keypti hlut Reykjavíkurborgar og Akureyrarbæjar í Landsvirkjun kemur skýrt fram að heimilt sé án nokkurs fyrirvara í sjálfu sér að hleypa stórfyrirtækjum eða öðrum eignaraðilum að fjárfestingum í Landsvirkjun án þess þó að rekstrarformi fyrirtækisins sé breytt úr því formi sem það er í nú. Það kann því að vera að þess sé skemmra að bíða en menn grunar að stórfyrirtæki eða einkaaðilar á markaði eignist hlut í Landsvirkjun og þar með tilkall til þeirrar þjóðlendu sem um ræðir í frumvarpinu. Sér hæstv. ráðherra ekki þessa hættu eða er honum alveg sama þó að mögulega stefni í það að einkaaðilar eignist ítök í Landsvirkjun og seinna meir jafnvel fyrirtækið allt? Sér hæstv. ráðherra ekki þá hættu sem fólgin er í því að afsala umræddu landi með þeim hætti sem hér er gerð tillaga um? Í mínum huga er þetta feigðarflan og stenst ekki skoðun að fara í þennan leiðangur nú.

Hægt er að skoða þær umsagnir sem bárust til allsherjarnefndar í fyrra þegar við vorum að vinna þetta mál í nefndinni og talsverð vinna var lögð í það. Hún tók reyndar ekki marga daga en við fengum þó nokkrar umsagnir og þær efnismiklar. Við spurðum starfsmenn forsætisráðuneytisins áleitinna spurninga. Ég er með minnisblað frá þeim ágætu embættismönnum sem svöruðu fyrirspurnum nefndarmanna og rétt er að rifja upp þær spurningar og þau álitaefni sem nefndarmenn, hv. þingmenn á Alþingi Íslendinga, töldu í fyrra vera varðandi málið. Ég tel að þau álitaefni séu enn til staðar og full ástæða til að rifja upp svörin þó ég ætli ekki að gera það í ræðu minni en hreyfi engu að síður spurningunum.

Spurt var í hverju skýrara eignarhald verði fólgið samkvæmt frumvarpinu en er til staðar nú og hvaða óvissu verði eytt með þessari fyrirhuguðu lagasetningu af því að hvort tveggja, skýrara eignarhald og óvissa, eru nefnd í greinargerð með frumvarpinu. Spurt var í ljósi þeirrar niðurstöðu óbyggðanefndar sem liggur fyrir, hvaða munur sé á því að afsala, eins og stendur í 1. gr. frumvarpsins, og að leggja fram, eins og stendur í a-lið 2. gr. sameignarsamnings Landsvirkjunar. Það er sem sagt spurningin um þessi hugtök, skilgreiningu hugtakanna að afsala annars vegar og leggja fram hins vegar því að landið var á sínum tíma lagt fram og lagt fram á ákveðinn skilgreindan hátt, eins og getið er um í sameignarsamningnum, en því var ekki afsalað, eins og sagt er í 1. gr. frv.

Nefndarmenn óskuðu eftir rökstuðningi fyrir því að þau hnit sem vísað væri til í 1. gr. frumvarpsins væru í samræmi við 3. tölulið sameignarsamningsins. Menn spurðu líka í höndum hvers eða hverra eignarhaldið á því landi sem hnitsett er samkvæmt 1. gr. yrði ef frumvarpið næði fram að ganga. Einnig spurðu menn á grundvelli þess að fyrir liggur vilji eignaraðila til að ríkið kaupi eignarhlut Reykjavíkur og Akureyrar í Landsvirkjun, að þær viðræður liggi nú tímabundið niðri. Þessi spurning er í rauninni óþörf vegna þess að nú er búið að breyta þeim eignarhlut, eins og hér hefur komið fram. Menn fýsti að vita hvers virði þau réttindi væru sem frumvarpið tekur til. Fram hefur komið að það er um hálfur milljarður. Hvernig má skýra mismunandi umfjöllun óbyggðanefndar annars vegar í umfjöllun um réttindi Landsvirkjunar og hins vegar í niðurstöðum óbyggðanefndar í samandregnu máli sem sérstaklega var vikið að í IV. kafla greinargerðar með frumvarpinu? Menn spurðu um réttindi Landsvirkjunar, hvort þau mundu aukast eða breytast verði frumvarpið að lögum og þá að hvaða leyti. Síðan spurðu menn hvort frumvarpið gæti haft fordæmisgildi gagnvart öðrum svæðum þar sem Landsvirkjun hefur nýtingarrétt á og að lokum hvort verið væri að skerða þjóðlendur með frumvarpinu.

Eins og ég sagði áðan sé ég ekki ástæðu til að fara í smáatriðum í þessi svör. Þau liggja fyrir og koma til með að verða skoðuð sérstaklega í nefndarstarfinu. En mig langar þó að geta þess að ljóst er að hér er um álitamál að ræða, þó nokkur alvarleg álitamál, að mínu mati, sem gera það að verkum að málið þarfnast ítarlegrar skoðunar í nefndinni og ef mér skjöplast ekki held ég að nefndarmenn komi til með að vilja kíkja á þetta og bregða þessu undir smásjá sína á nýjan leik þó svo málið hafi verið afgreitt úr nefndinni í fyrra og hér liggi fyrir nefndarálit þar sem menn voru með fyrirvara í bak og fyrir um málið. Rétt er að taka fram að sú sem hér stendur og tók þátt í starfi nefndarinnar er þar einungis með áheyrnaraðild. Ég var því ekki aðili að nefndarálitinu sem liggur fyrir frá í fyrra. Til að afstaða mín og okkar þingmanna Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs sé algerlega skýr þá er hún sú að málið hafi ekkert að gera í gegnum þingið. Réttindi Landsvirkjunar hvað varðar Búrfellsvirkjun séu algerlega nægilega tryggð. Ekki þurfi að skerpa á þeim á þeim nótum sem hér er verið að leggja til og að eignarhald Landsvirkjunar á öllu því landi sem um ræðir í 1. gr. frumvarpsins þurfi sannarlega ekki að koma til. Það land er í okkar hugum þjóðlenda og á að fá að vera þjóðlenda áfram. Það á ekki að hafa neitt um nýtingarrétt Landsvirkjunar að segja varðandi vatnsréttindin í Búrfellsvirkjun og ef þarf að leiðrétta eignarreikning eða eignarstöðu Landsvirkjunar þá bara gerum við það. Það er í huga mínum einfalt mál.