133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar.

415. mál
[18:29]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er algerlega ósammála hæstv. forsætisráðherra í þessu efni. Álit óbyggðanefndar gengur út á það að landið hafi aldrei verið afhent Landsvirkjun til eignar. Það hafi ekki falist í þeim gerningum sem gerðir voru og ekki í lagasetningunni heldur. Það er þess vegna sem verið er að ganga lengra. Það væri lítið athugavert við það þó að menn vildu fara þá leið sem upphaflega var farin með tilliti til þeirrar skilgreiningar sem liggur fyrir á því hvað verið var að gera með henni.

Hæstv. forsætisráðherra er greinilega að lýsa því yfir að hann sé algerlega ósammála óbyggðanefnd hvað þetta varðar. Mér þykja það nokkur tíðindi en auðvitað hlýtur svo að vera því að hæstv. forsætisráðherra hefði annars ekki flutt þetta mál.

Enn koma engin svör við því hvað hæstv. forsætisráðherra ætlast fyrir í framtíðinni með þjóðlendur, eða hver stefna Sjálfstæðisflokksins er hvað slíkt varðar. Þögnin er orðin ærandi hvað þetta varðar. Sjálfstæðisflokkurinn heldur málunum föstum, bæði því máli sem kom frá auðlindanefndinni í sumar, það er fast í þingflokki Sjálfstæðisflokksins, og fyrrverandi ráðherra, Þorsteinn Pálsson, heldur hinu málinu, sem er þó í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar um að setja auðlindir sjávar í þjóðareign, föstu í nefndinni sem er að endurskoða stjórnarskrána. Hæstv. forsætisráðherra hlýtur að hafa skoðun á málunum.