133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar.

415. mál
[18:31]
Hlusta

Mörður Árnason (Sf) (andsvar):

Forseti. Hæstv. forsætisráðherra færir þau rök ein fyrir þessu frumvarpi að lánardrottnum lítist ekki á það ef Landsvirkjun verður 500 millj. kr. fátækari með þeim pappírsgerningi sem hér fer fram. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Væri ekki einfaldari leið að ríkið yki þá hlutafé sitt í Landsvirkjun, annaðhvort þann hluta sem ríkið á nú beint eða hlutann sem ríkið á í gegnum einkahlutafélagið Eignarhluti ehf. sem mér hefur þótt einkennilegt fyrirbrigði, frekar en leggja í það að flytja í fyrsta sinn frumvarp um að gera þjóðlendu að séreignarlandi sem hlýtur hvað sem hæstv. forsætisráðherra segir að vera fordæmi? Því auðvitað má finna önnur svipuð tilvik eða færa önnur tilvik í þá halarófu sem af þessu myndast og að gera þetta sérstaklega án þess að farið hafi fram nokkur sú stefnumótun í forsætisráðuneytinu sem ætlast var til í framhaldi af samþykkt þjóðlendulaganna forðum daga, sem gerð var með miklum meiri hluta á þingi á þeirri forsendu að þjóðlendurnar lytu algerlega sérstökum skilyrðum sem fælust í því að þjóðin ætti þá það land sem enginn hafði átt áður og ríkið færi með forræði þess en ekki með þeim hætti að ríkið leyfði sér að meðhöndla það land eins og embættisbifreið eða ráðherrastól, þ.e. hinn efnislega ráðherrastól.

Ég vil í fullri einlægni spyrja: Er það ekki betra — hér sitja formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks — er það ekki hreinlegra og betra að við samþykkjum aukningu hlutafjár fyrst Landsvirkjun er svo illa stödd að lánardrottna munar um þá landspildu sem þarna er um að ræða?