133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vatnsréttindi vegna Búrfellsvirkjunar.

415. mál
[18:35]
Hlusta

Lúðvík Bergvinsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert mál sem hér er til umfjöllunar og fluttar eru ágætar ræður um þetta tiltekna mál en í sjálfu sér og í eðli sínu er það afar einfalt. Verið er að leggja til að Alþingi samþykki að hluti af þjóðlendu verði tekinn og afhentur tilteknu fyrirtæki, sem er Landsvirkjun. Í máli eins og þessu sem lýtur að þjóðlendum eða einhvers konar auðlindum þjóðarinnar er eðlilegt að menn byrji á að nálgast málið út frá þeirri spurningu hver sé stefna ríkisstjórnarinnar þegar kemur að auðlindum. Því hér er verið að tala um að afhenda auðlind sem er í eigu þjóðarinnar, þ.e. þjóðlendu, sem er í beinni andstöðu við þá hugsun fer í gegnum öll þjóðlendulögin, þ.e. að þjóðlendur verði ekki afhentar til eignar heldur einungis til nýtingar.

Hæstv. forsætisráðherra kom hér upp áðan og gerði einhvers konar tilraun til að reyna að útskýra það og taldi að hér væri ekki um fordæmi að ræða heldur sértæka aðgerð sem yrði að grípa til í þessu tiltekna máli og aðgerðin lyti að því að menn hafi gert ráð fyrir því á sínum tíma, eða 1965 þegar til Landsvirkjunar var stofnað með sameignarsamningi, að tiltekin réttindi fylgdu með. Og vegna þess að menn hafi gert ráð fyrir því sé það þá tiltekin krafa og þá væntanlega af hálfu lánardrottna sem voru svona grunn- eða undirstaðan í ræðu hæstv. forsætisráðherra, um hvenær þyrfti að grípa til þessara aðgerða, þeir hefðu mátt gera ráð fyrir því að þessi réttindi fylgdu með. Þá vísaði hæstv. forsætisráðherra einnig til þess að viðskipti hafi átt sér stað með þessi verðmæti alla 20. öldina, eins og hæstv. ráðherra nefndi, og því beri nokkur skylda til þess að yfirfæra þau eignarréttindi. Um þessi rök er margt að segja.

Í fyrsta lagi held ég að þær aðgerðir sem ráðist hefur verið í og það starf sem óbyggðanefnd hefur unnið allt í kringum landið þar sem hún hefur verið að meta hvað tilheyri einkaeignarrétti bænda og hvað ekki, þá eigi nánast sömu rök við þar. Þar hafa bændur oft og tíðum verið að skuldsetja lönd sín og lánardrottnar gerðu væntanlega ráð fyrir því að þeir hafi átt í einhverjum tilvikum stærri og meiri lönd heldur en niðurstaðan hefur síðan orðið eftir að óbyggðanefnd fór í gegnum málin og þau afgreidd fyrir dómstólum. Þau rök að lánardrottnar hafi mátt gefa sér að þetta væri til staðar eiga þá líka við um önnur lönd, alveg nákvæmlega sömu rök. Því finnst mér röksemdir hæstv. forsætisráðherra um að hér sé um sértækar aðgerðir að ræða ekki standast meðan þau byggja ekki á öðru en í fyrsta lagi þessari athyglisverðu stöðu lánardrottna, að þeir hafi mátt gera ráð fyrir að þetta væri inni í þeim verðmætum vegna þess að það á einnig við í öðrum tilvikum. Í þeim skilningi er klárlega verið að skapa fordæmi.

Í annan stað má einnig vísa til þess að í frumvarpinu er vísað til tiltekins lands sem merkt er inn í viðauka með frumvarpinu, að þetta tiltekna land eigi að falla til Landsvirkjunar. En þegar sameignarsamningurinn er skoðaður, þ.e. 3. töluliður, er þetta land ekki tilgreint neitt sérstaklega en þar segir, með leyfi forseta:

„Vatnsréttindi vegna 210 megavatta virkjunar í Þjórsá við Búrfell, ásamt landi, sem til þarf vegna virkjunarinnar …“ Þ.e. „ásamt landi, sem til þarf“. Það er í rauninni ekki skilgreint betur í samningnum en á þann veg. Það er líka alveg nýtt að þetta sé merkt inn á þann hátt sem hér er.

Eftir stendur þessi grundvallarspurning: Er að birtast okkur einhver stefna ríkisstjórnarinnar um að hún sé ekki í takt við þá grundvallarhugsun sem var á Alþingi, sem ég held að flestir þingmenn sem samþykktu þjóðlendulögin geti tekið undir, að þjóðlendur yrðu ekki afhentar, þ.e. eignarréttur á þjóðlendum yrði ekki afhentur? Einungis yrði afhentur einhvers konar nýtingarréttur. Mér sýnist einnig að auðveldlega mætti fara þá leið í málinu ef staða Landsvirkjunar er svo veik að lánshæfismat hennar stendur og fellur að einhverju leyti með umræddu landi, sem mér þykir afar ólíklegt. Á sama hátt þykir mér líklegt að fá mætti hærra verð fyrir þetta land en þá fjárhæð sem hér hefur verið nefnd og tilgreind er í bókhaldi Landsvirkjunar.

Mér finnst einhvern veginn að allur undirbúningur að málinu sé ekki sem skyldi og eðlilegt að sá aðili sem afhendir land láti fara fram sjálfstætt verðmat á því landi sem verið er að afhenda. Þess vegna þykir mér sú röksemdafærsla sem hæstv. forsætisráðherra hefur beitt í máli og fram kemur í frumvarpinu ekki halda. Mér finnst það ekki vera nægileg rök að hér sé um sértæka aðgerð að ræða vegna þess að rökin eiga þá við um svo miklu miklu fleira.

Í máli hæstv. forsætisráðherra kom fram að hér væri uppi álitamál og hugsanlega mætti fara aðrar leiðir, ég skildi hæstv. ráðherra þannig þegar hann kom upp í sína seinni ræðu. Ég held að afar mikilvægt sé að sú nefnd sem tekur málið til meðferðar, þ.e. allsherjarnefnd, fari mjög vandlega yfir það, fari vandlega yfir hvaða fordæmi er verið að skapa og fari vandlega yfir hvort þetta sé á nokkurn hátt í takt við það sem Alþingi hefur áður samþykkt, þ.e. þá grundvallarhugsun sem er í þjóðlendulögunum, því ég tel það alvarlegan hlut ef farið er gegn þeirri hugsun sem þar er. Í raun er mjög auðvelt að túlka það á þann veg að sú hugsun eða sú hugmynd, sem m.a. kemur fram í stjórnarsáttmála núverandi hæstv. ríkisstjórnar, um að auðlindir skulu settar í þjóðareign og ákvæði um það verði sett í stjórnarskrá — mér þykir frumvarp þetta benda til þess að stjórnarflokkarnir séu ekki alveg í takt í þessu máli ef marka má ræðu hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra eða þær setningar sem hann lét falla um daginn aðspurður af hv. þm. Jóhanni Ársælssyni um hver væri stefna Framsóknarflokksins í málinu og hvort stjórnarskrárnefndin væri komin að enda og ljóst væri að ekki yrði gerð nein tillaga um að stjórnarskránni yrði breytt í takt og í anda þess sem kveðið er á um í stjórnarsáttmálanum. Þá mátti skilja orð formanns Framsóknarflokksins á þann veg að Framsóknarflokkurinn hygðist standa í lappirnar í þessu máli og halda fast við fyrri stefnu nema — mér finnst mikilvægt að það komi fram í þessu máli — hér sé á ferðinni einhvers konar stefnubreyting frá þeirri fyrri. Vegna þess að rökin sem hér hafa verið sett fram að um einhvers konar sértæka aðgerð sé að ræða, hafi ekki fordæmisgildi, halda ekki. Mér finnst þetta vera lykilatriði því eins og ég nefndi áðan geta bændur víðs vegar um allt land hæglega komið fram og sagt: Þessar jarðir hafa gengið kaupum og sölum alla öldina. Maður reiknaði alltaf með að þeir ættu þau lönd þar til annað kom í ljós, og í ljósi þess að lánardrottnar reiknuðu með að þær jarðir væru veðandlag hljótum við að geta fengið þetta líka. Hvers vegna ekki? Hvers vegna eiga þessi rök einungis að eiga við Landsvirkjun sem er þó í eigu ríkisins? Gilda einhverjar sérreglur um það eða erum við að tala um almennar reglur sem allir eiga að gangast undir?

Mér finnst þetta vera grundvallarspurningar. Þó að málið láti kannski ekki mikið yfir sér í fyrstu sýn finnst mér vera á ferðinni grundvallarspurningar sem allsherjarnefnd verður að fara mjög vandlega í gegnum. Ég vil segja fyrir mitt leyti að ég samþykkti þjóðlendulögin. Ég var mjög sáttur við þann anda sem í þeim birtist og þá grundvallarhugsun að þau lönd sem teljast til þjóðlendna verði ekki afhent til einkaeignarréttar. Mér þykir miður ef hér er á ferðinni einhver stefnubreyting og ég get, virðulegi forseti, ekki tekið undir hana.