133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vátryggingarsamningar.

387. mál
[18:46]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um vátryggingarsamninga, nr. 30/2004. Frumvarpið er á þskj. 429.

Frumvarp til laga um vátryggingarsamninga var samþykkt á 130. löggjafarþingi og birt sem lög nr. 30/2004, eins og ég sagði. Var vátryggingafélögum ætlaður rúmur tími til að undirbúa sig fyrir gildistöku þeirra og komu þau til framkvæmda 1. janúar á fyrra ári. Eftir gildistöku þeirra hefur risið vafi um hvort unnt sé að svara spurningum um heilsufar náinna skyldmenna án þess að í því felist miðlun upplýsinga um erfðaeiginleika.

Frumvarpið, eins og reyndar ákvæði gildandi laga kveður á um, bannar vátryggingafélögum notkun upplýsinga úr erfðafræðilegum rannsóknum. Óbreytt er frá núgildandi lögum að vátryggingartaka, eða vátryggðum manni, ber eftir bestu vitund að svara spurningum um sjúkdóma foreldra, systkina og barna en að öðrum kosti þarf upplýst samþykki viðkomandi einstaklings. Nauðsynlegt er að leggja áherslu á að þessar reglur um svör við spurningum um sjúkdóma náinna skyldmenna eru í samræmi við það sem hingað til hefur viðgengist hér, og sama á við um reglur og tilhögun í nágrannalöndum okkar. Þrengri skilmálar hérlendis mundu vafalítið hafa alvarleg áhrif á vátryggingarmarkaðinn hér og skekkja mjög alla samkeppnisstöðu íslenskra vátryggingafélaga.

Með frumvarpi þessu er lögð til breyting á 82. gr. laganna sem fjallar um upplýsingaöflun við töku persónutrygginga. Greinin er þannig uppbyggð að fyrst er afmarkað hvaða upplýsingar það eru sem vátryggingafélagi er heimilt að óska eftir og eins um hvaða nákomna ættingja væntanlegs vátryggingartaka má spyrja. Vátryggingafélag má samkvæmt ákvæðinu spyrja um sjúkdóma sem staðfest er að vátryggingartaki hefur fengið og eins um sjúkdóma sem tilteknir ættingjar hafa fengið. Með frumvarpinu er gerð tilraun til frekari afmörkunar upplýsingaöflunarinnar frá því sem gildandi lög gera ráð fyrir en í þeim er vísað til heilsufars yfirleitt.

Í annan stað er kveðið á um að upplýst samþykki þurfi alltaf að liggja fyrir ef upplýsinga um sjúkdóma er aflað hjá öðrum en vátryggingartaka, t.d. hjá heimilislækni. Efnislega er það ákvæði óbreytt frá gildandi lögum.

Í þriðja lagi er lagt bann við því að vátryggingafélag notfæri sér upplýsingar úr erfðafræðilegum rannsóknum. Efnislega er það ákvæði einnig óbreytt frá gildandi lögum. Ljóst er að tilgangur bannákvæðisins er ekki sá að banna notkun upplýsinga um heilsufar náinna skyldmenna þess er óskar vátryggingar. Markmið ákvæðisins var og er að ákveða mörk upplýsingaskyldu og heimildar vátryggingafélaga til að nýta sér heilbrigðisupplýsingar. Mikilvægt er að skýrt liggi fyrir hvar þessi mörk liggja.

Persónutryggingar lúta að lífi og heilsu hins vátryggða. Upplýsingagjöf vátryggingartaka hefur mikla þýðingu enda er það vátryggingartaki, eða hinn vátryggði, sem að jafnaði býr yfir þeim upplýsingum sem vátryggingafélag þarf á að halda. Lögð er til breyting á 1. mgr. þannig að nýr málsliður bætist við málsgreinina. Samkvæmt honum er vátryggingafélagi heimilt að afla upplýsinga um þá sjúkdóma sem vátryggingartaki, eða vátryggður, svo og foreldrar, systkini og börn vátryggðs eru með eða hafa haft og félagið telur nauðsynlegt að fá vitneskju um til að geta lagt mat á hina væntanlegu vátryggðu áhættu.

Við töku persónutrygginga fer fram áhættumat. Liður í áhættumati vátryggingafélags við gerð vátryggingarsamninga í persónutryggingum er að afla upplýsinga um heilsufar þess sem vátryggja á og kanna hvort vátrygging skuli veitt samkvæmt almennum skilmálum og venjulegu iðgjaldi. Er upplýsingagjöf vátryggingartaka grundvöllur slíks áhættumats.

Frumvarpið leggur til breytingu á 2. mgr. sem kveður á um að vátryggingafélagi sé óheimilt að nýta sér niðurstöður erfðarannsókna. Með erfðarannsókn er í þessu samhengi einkum átt við rannsókn sem gerð er í þeim tilgangi að meta áhættu einstaklings á því að verða síðar veikur. Hafi sjúkdómur á hinn bóginn þegar áður komið fram og verið greindur með erfðarannsókn er félaginu heimilt að nýta þær upplýsingar í áhættumati sínu en ekki aðrar upplýsingar. Hvílir sú kvöð á vátryggingartaka að upplýsa um atriði sem hann veit eða má vita að hafa áhrif á matið. Með breytingu þessari er leitast við að eyða vafa um hvers konar upplýsingar það eru sem vátryggingafélagi er óheimilt að nota í áhættumati sínu.

Mikilvægt er að það komi fram að bannregla sú sem ákvæðið setur er byggð á danskri fyrirmynd sem nánar er gerð grein fyrir í athugasemdum með frumvarpinu. Þar er einnig ítarlega fjallað um tilefni breytinga þeirra sem hér eru lagðar til. Til að taka af allan vafa um megininntak frumvarpsins vil ég leggja áherslu á að frumvarpið, verði það að lögum, færir vátryggingafélögum ekki rýmri rétt til upplýsingaöflunar en þau hafa samkvæmt gildandi lögum. Frumvarpinu er fyrst og fremst ætlað að eyða túlkunarvafa.

Hæstv. forseti. Að lokinni þessari umræðu óska ég þess að frumvarpinu verði vísað til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.