133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vátryggingarsamningar.

387. mál
[18:56]
Hlusta

Jóhanna Sigurðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ekki var þetta nú skýrt hjá hæstv. viðskiptaráðherra. Persónuvernd hefur gagnrýnt ýmis atriði í þessu frumvarpi og einnig Læknafélagið, segir hæstv. ráðherra. Hvaða atriði eru það sem Persónuvernd hefur gagnrýnt og hvaða atriði eru það sem Læknafélagið hefur gagnrýnt? Er það ekki það ákvæði sem hæstv. viðskiptaráðherra er að flytja hérna inn í þingsali aftur og reyna að fá samþykkt? Hefur þetta frumvarp í þessum búningi sem ráðherra leggur það nú fram verið lagt fyrir Persónuvernd og fyrir Læknafélagið áður en það var lagt fyrir þingið?

Það er auðvitað nauðsynlegt fyrir okkur sem eigum að fá þetta mál til umfjöllunar í efnahags- og viðskiptanefnd að okkur sé kunnugt um það hvort þá hafi orðið einhver stefnubreyting af hálfu Persónuverndar og Læknafélagsins í þessu efni þegar taka á upp efnislega sama ákvæði og Persónuvernd og Læknafélagið lögðust gegn fyrir þremur árum.

Þess vegna bið ég hæstv. ráðherra að tala skýrar í þessu máli en hann gerir. Það mun greiða mjög fyrir málinu og meðferð þess í nefnd. Ég minni á hve harkalega var tekist á um þetta mál fyrir þremur árum. Við munum auðvitað af fullum krafti fara gegn málinu ef til stendur að reyna að koma þessu ákvæði inn sem svo mikil andstaða var við, bæði af hálfu okkar í stjórnarandstöðunni og af hálfu Persónuverndar og Læknafélagsins á sínum tíma.

Það er mikilvægt að það sé litið á það þegar Persónuvernd talar gegn svona ákvæðum sem ganga þá gegn lögum um persónuvernd og að þau ákvæði séu virt. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort verið sé að ganga gegn vilja Persónuverndar enn og aftur með þessu ákvæði og hvort hæstv. ráðherrann hafi haft fyrir því áður en hann lagði þetta mál á nýjan leik fyrir þingið að leita til Persónuverndar eða Læknafélagsins.