133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vátryggingarsamningar.

387. mál
[18:59]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Við ræðum afar merkilegt mál og vægast sagt umdeilt. Ég verð að segja að ég furða mig á að málið skuli komið fyrir þingið. Það er ekki langt síðan málið var rætt mjög ítarlega í þinginu. Niðurstaðan af því varð sú lagagrein sem tryggingafélögin nota í dag til að byggja á upplýsingaöflun sína um heilsufar vátryggingartaka og fjölskyldumeðlima hans. Eins og fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur lögðust Læknafélagið og Persónuvernd mjög hart gegn þessari heimild. Hér er á ferðinni ekkert annað en að menn vilja skerpa á þessari heimild. Það er, eins og hæstv. ráðherra sagði, verið að eyða óvissu.

Hverjir hafa kallað eftir því að óvissunni verði eytt? Það eru tryggingafélögin sjálf. Í þessu frumvarpi er skýrt að ríkisvaldið er að lúffa undan kröfum tryggingafélaganna. Við skulum hafa það á hreinu sem tryggingafélögin sögðu í umsögn sinni þegar málið var til umfjöllunar fyrir þremur árum. Þar sagði, með leyfi forseta, í umsögn þeirra:

„Efni athugasemda frumvarpsins er með þeim hætti að íslenskum vátryggingafélögum verður óheimilt að taka tillit til, í áhættumati sínu, upplýsinga um áhættuþætti sem snúa að fjölskyldusögu og aflað hefur verið á hefðbundinn hátt. Við það verður ekki unað enda yrði með slíku banni vegið að grundvallarsjónarmiðum um vátryggingar og vátryggingastarfsemi.“

Virðulegi forseti. Það er skýrt hver krafa tryggingafélaganna hefur verið. Hér er það sagt svart á hvítu. Frumvarpið sem núna er lagt fram virðist til þess að svara þeirri kröfu, ég veit ekki hvort hægt er að kalla það hótun að við fyrirkomulagið verði ekki unað. Kröfu tryggingafélaganna er þannig svarað með beinum hætti. Menn ganga erinda tryggingafélaganna og fara að kröfum þeirra í þingsölum þvert gegn vilja Persónuverndar og Læknafélagsins, svo dæmi séu tekin.

Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þessar heimildir eru algerlega galnar. Þegar sótt er um líf- eða sjúkdómatryggingu hjá íslenskum tryggingafélögum þá þurfa umsækjendur að fylla út margar síður af upplýsingum um sjálfa sig. Þar af er stór hluti upplýsinganna um heilsufar umsækjendanna sjálfra. Það er í sjálfu sér í lagi. Það snýr að viðkomandi umsækjanda sjálfum. En auk þess að svara upplýsingum um eigið heilsufar er umsækjenda gert að greina frá heilsufarssögu fjölskyldumeðlima, nánar tiltekið foreldra og systkina. Þannig er það í dag á umsóknareyðublöðum tryggingafélaganna. Þar eru foreldrar og systkini, hafi þau, þ.e. foreldrar og systkini fengið ákveðna sjúkdóma fyrir 60 ára aldur.

Virðulegi forseti. Þetta finnst mér galið, að þess sé krafist frá tryggingafélögunum að umsækjandi um ákveðna gerð tryggingar gefi upplýsingar um þriðja aðila sem er ekki sjálfur aðili málsins að öðru leyti en því að vera blóðtengdur umsækjandanum.

Það verður að segjast eins og er, að það kom skýrt fram í umsögnum Persónuverndar að þeirra skoðun væri sú að þetta færi mjög nálægt því að vera persónugreinanlegar upplýsingar, þegar svo nákomnir ættingjar eiga í hlut.

Þarna er bætt við það sem tryggingafélögin gera í dag og tekið fram að þeim sé heimilt að krefjast heilsufarssögu foreldra, systkina og nú er búið að bæta við heilsufarssögu barna. Það er sérstaklega skilgreint af hinu opinbera. Það er ekki það sem tryggingafélögin hafa gert hingað til. Ég verð að spyrja hæstv. ráðherra hvers vegna börnin hafi komið inn í sem viðbót?

Það er skýrt hvað vakir fyrir tryggingafélögunum með því að spyrja um heilsufar nánustu fjölskyldumeðlima. Persónuvernd gaf út álit þann 1. júní ári 2006, álit nr. 103/2005. Þar kemur fram að um þetta atriði hafi Persónuvernd spurt tryggingafélag sem ekki er þó nafngreint í álitinu. En í álitinu er vitnað í bréf frá tryggingafélaginu. Í því svari kemur skýrt fram hvers vegna þessara upplýsinga um heilsufar foreldra og systkina er krafist. Vitna ég þar beint í svarið með leyfi forseta.

„Tilgangurinn með þeirri upplýsingaöflun er sem fyrr að leggja mat á áhættu félagsins af því að taka einstaklinga í tryggingu en sjúkdómar í nánustu fjölskyldu geta haft áhrif við það mat.“

Maður verður að spyrja hæstv. ráðherra, í tengslum við að því er haldið fram að skerpt sé á því banni sem er í 2. mgr. 82. gr. í dag, við að niðurstöður á erfðarannsóknum á einstaklingi og þarna sé verið að sundurgreina á milli erfðarannsókna annars vegar og síðan sjúkdóma sem nákomnir ættingjar hafa fengið. Ég verð að spyrja hvort þarna sé verið að gera grín að okkur. Það er ljóst að ef tryggingafélögin hafa heimild til að fá upplýsingar um hvort nánir fjölskyldumeðlimir hafi fengið tiltekna sjúkdóma og nota það við mat á áhættu af því að tryggja viðkomandi umsækjanda, þá eru tryggingafélögin komin í þá stöðu að gefa sér erfðafræðileg áhrif. Til hvers munu menn annars notast við þessar upplýsingar? Þarna er verið að heimila tryggingafélögunum að setjast í dómarasæti yfir vísindunum og gefa sér að það að náinn fjölskyldumeðlimur hafi fengið ákveðinn sjúkdóm feli sér aukna áhættu. Þetta er tvískinnungur sem hlýtur að hafa verið settur þarna inn í einhverri gamansemi.

Læknafélagið hefur m.a. gagnrýnt þetta harðlega, hæstv. ráðherra ætti að þekkja það. Hið sama gildir um Persónuvernd. Það getur verið mjög vafasamt að greina þarna á milli. Það er erfitt að greina þarna á milli. Samkvæmt frumvarpinu á að breyta þessu á þann hátt að 2. mgr. muni hljóða svo, með leyfi forseta.

„Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er félaginu óheimilt, fyrir eða eftir gerð samnings um persónutryggingu, að óska eftir, afla með einhverjum öðrum hætti, taka við eða hagnýta sér upplýsingar sem fengnar eru úr niðurstöðu erfðarannsóknar á einstaklingi og geta gefið til kynna hættu á að hann þrói með sér eða fái tiltekinn sjúkdóm.“

Virðulegi forseti. Fyrir mér er þetta eins og hver annar lélegur brandari. Heimildin felur ekkert annað í sér en að tryggingafélögunum er veitt heimild til að gefa sér að tryggingartaki þrói með sér sjúkdóm út frá upplýsingum um heilsufar náinna ættingja. Það er ekki hægt annað en að brosa út í annað þegar maður sér svona dellu.

Fleiri atriði eru hérna sem mig langar að koma inn á og þau eru þessu tengd. Þá vil ég kannski ekki síst koma inn á þátt Persónuverndar þegar fjallað var um málið fyrir þremur árum. Þar var ljóst að Persónuvernd lagðist gegn því að tryggingafélögin fengju slíka heimild. Í umsögn Persónuverndar leggja þeir til að það verði eingöngu heimilt að afla upplýsinga um heilsufar umsækjanda sjálfs en ekki um heilsufar náinna ættingja. Persónuvernd hefur síðan gefið út álit varðandi þessa heimild tryggingafélaganna, þ.e. um lögmæti þess að afla heilsufarsupplýsinga um foreldri og systkini umsækjanda. Í því áliti segir að tryggingafélagið biðji umsækjendur um upplýsingar er varða heilsufarssögu náinna ættingja þeirra. Þar er vitnað í bréfið sem ég nefndi áðan. Síðan segir í þessu áliti að Persónuvernd líti svo á að að því virtu að samkvæmt lögunum sé vátryggjendum beinlínis bannað að afla eða hagnýta sér með nokkrum hætti erfðafræðilegar upplýsingar um umsækjandann eða óska eftir rannsóknum sem geti leitt slíkar upplýsingar í ljós þá sé það niðurstaða Persónuverndar að félaginu sé óheimilt að afla upplýsinga um heilsufar sem í geta falist upplýsingar um arfgerð umsækjanda.

Þar er vísað til þess að margir algengir sjúkdómar orsakast af samspili erfða og umhverfisþátta. Því verði að líta svo á að öflun upplýsinga um arfgenga sjúkdóma foreldra og systkina jafngildi öflun upplýsinga um erfðaeiginleika umsækjandans sjálfs. Verður vart komið auga á það í hvað tilgangi öðrum vátryggingafélög ættu að sækjast eftir upplýsingum um slíka sjúkdóma hjá einstaklingum. Þetta kemur skýrt fram í áliti Persónuverndar. Þarna er sett mjög stórt spurningarmerki við þetta atriði. Mér heyrist á öllu að miðað við svör hæstv. ráðherra áðan þá standi þessi gagnrýni enn.

Persónuvernd lagði til að orðin „annarra einstaklinga“ í núgildandi lögum verði felld brott og beinlínis óheimilt verði að afla þessara upplýsinga. Í kjölfarið hafa komið upp deilur út af þessu. Eins og Persónuvernd túlkaði ákvæðið var tryggingafélögum ekki heimilt að afla þessara upplýsinga. Það kom líka skýrt fram. Tryggingafélögin og Persónuvernd hafa deilt um þetta hingað til. Þetta frumvarp á að eyða óvissu, þ.e. það tekur afstöðu með tryggingafélögunum, með túlkun tryggingafélaganna og gegn áliti Persónuverndar.

Virðulegi forseti, þetta hryggir mig af mörgum ástæðum. Ég kom inn á það áðan að mér finnst vafasamt að umsækjandi um tryggingu verði krafinn um svo viðkvæmar upplýsingar um nána ættingja sína sé hann að sækja um tryggingar. Mér finnst það galið. Auðvitað er þetta persónugreinanlegt vegna þess að það eru ekki margir foreldrar sem koma til greina sé umsækjandi einkabarn. Þetta geta sannarlega verið persónugreinanlegar upplýsingar og þarf ekki stóran hóp til að ráða í hver hafi fengið hvaða sjúkdóm. Þetta er líka ákveðið prinsippmál. Mér finnst undarlegt að hæstv. ráðherra taki undir sjónarmið tryggingafélaganna, að ef þeir missi þessar heimildir þá muni tryggingarnar fara af markaði. Ég ætla að leyfa mér að efast um það. Ég held að það verði alltaf markaður fyrir þessar tryggingar.

Það er rétt sem fram kemur í auglýsingum frá tryggingafélögunum, að þetta er mikilvægt. Ef ég vitna í vefsíðu eins tryggingafélagsins, þá segir að líftrygging sé brýn á flestum aldursskeiðum þótt rétt sé að hafa í huga að foreldrar með börn á framfæri sínu og fólk sem ber skuldir vegna náms- og húsnæðiskaupa þurfi að huga sérstaklega vel að líftryggingarmálum sínum. Síðan er líka talað um sjúkdómatryggingar, að alvarlegum veikindum geti fylgt áhyggjur vegna fjárhagslegrar afkomu. Tekjur heimilisins minnka en skuldirnar standa í stað. Veikindin geti jafnvel leitt til aukinna útgjalda.

Ég er alveg sammála því sem þarna kemur fram. Þetta eru mikilvægar tryggingar. Samkvæmt núgildandi lögum og frumvarpinu sem hér liggur fyrir er skerpt á heimildum til tryggingafélaga til að mismuna tryggingatökum. Þetta undirstrikar hvernig málið er vaxið og kröfur tryggingafélaganna um bæði belti og axlabönd, að mega vinsa úr umsækjendum sínum með þessum hætti. Þetta undirstrikar fyrir mér mikilvægi almannatryggingakerfisins. Mér óar við því hvað mundi gerast ef frekari tryggingar færu út á þennan markað.

Það er dálítið súrt í brotið ef við erum farin að horfa til þess að stór hluti landsmanna sitji ekki við sama borð, t.d. ef foreldri fellur frá, að barn sem foreldri fellur frá, sitji ekki við sama borð vegna þess að foreldrið hafi ekki getað líftryggt sig eða ekki getað ráðið við hækkun á iðgjöldum. Þetta verðum við að hafa í huga þegar við veitum svona heimildir. Ég verð að segja að ég veit ekki hvaða skilning hæstv. ráðherra, ríkisstjórnin og tryggingafélögin leggja í hugtakið tryggingu eða áhættutryggingu eins og þarna er á ferðinni. Það felur í sér að menn taka einhverja áhættu. Það hlýtur að fela það í sér. Þarna er tryggingafélögunum veitt heimild til að losa sig við alla áhættu. Þetta er eins og tryggingafélögin og ríkisstjórnin haldi að reka eigi tryggingarnar sem söfnunarsjóði og hreinsa eigi alla áhættu burtu. Auðvitað verða tryggingafélögin að bera einhverja áhættu. Mér finnst allt of langt gengið í því að leyfa tryggingafélögunum að losa sig hana.

Virðulegi forseti. Þetta mál mun fara í nefnd. Eins og fram kom í máli hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur munum við standa föst gegn þessu máli. Þarna er allt of langt gengið. Ég vonast til að menn standi við stóru orðin, þingmenn eins og hv. þm. Dagný Jónsdóttir sem hefur lýst yfir verulegum efasemdum við þessar heimildir tryggingafélaganna í ræðu þegar ég var með fyrirspurn til hæstv. ráðherra um þetta efni. Hún lýsti því að henni misbyði hve langt væri seilst af hálfu tryggingafélaganna. Ég vona að á þessi sjónarmið verði hlustað. Það er ekki bara andstaða stjórnarandstöðunnar við þetta mál af því það kemur frá ríkisstjórninni heldur er um að ræða verulega umdeilt mál, þverpólitískt. Það á að veita allsvakalegar heimildir til tryggingafélaganna til að afla upplýsinga um heilsufar fólks, sem er með því viðkvæmasta sem við eigum.

Ég lagði 19. október fram fyrirspurn til hæstv. viðskiptaráðherra um þessi mál, þ.e. um líf- og sjúkdómatryggingar, þar sem ég óskaði eftir upplýsingum um hversu mörgum hefði verið synjað um líf- og eða sjúkdómatryggingar hjá íslenskum tryggingafélögum á árunum 2000–2005, sundurliðað eftir árum og tegund trygginga.

Ég spurði jafnframt hversu mörgum, sundurliðað á sama hátt, hefði verið gert að greiða álag á iðgjöld, líf- og eða sjúkdómatryggingar hjá íslenskum tryggingafélögum vegna, annars vegar heilsufarssögu tryggingartaka og hins vegar metinnar áhættu vegna heilsufarsupplýsinga um nána fjölskyldumeðlimi tryggingartaka. Það er skemmst frá því að segja að þetta svar barst mér í dag, 29. janúar og svarið er vægast sagt mjög rýrt. Tryggingafélögin leyfa sér að fela sig á bak við að þeir geymi ekki slíkar upplýsingar, sundurgreini þetta ekki, o.s.frv. Ég ætla ekki að fara út í það í smáatriðum. En eftir allan þennan tíma kemur svar sem inniheldur lítið sem ekki neitt.

Ég verð að segja að ef þingið veitir tryggingafélögunum heimildir til að afla slíkra upplýsinga, til að meta áhættu og hvort annars vegar tryggingartaki eigi að fá yfir höfuð trygginguna eða greiða álag á það, og hann byggir þessa upplýsingaöflun á heimildum frá þinginu, þá finnst mér við eiga kröfu á að þeir svari svona spurningum frá okkar. Tryggingafélögin óska eftir að fá heimildir héðan og ættu að geta svarað þessum spurningum. Við þurfum að hafa svona upplýsingar til grundvallar þegar við metum og förum yfir þetta mál og tökum afstöðu til þess hvort þetta skuli heimila eða ekki.

Mér finnst til skammar að menn skuli ekki geta svarað spurningum frá þinginu þegar farið er fram með jafnfrekjulegum hætti og gert er í þessari umsögn frá árinu 2004 og farið fram á breytingar héðan frá þinginu. Mér finnst það algjört lágmark.