133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

vátryggingarsamningar.

387. mál
[19:52]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Spurningu hv. þingmanns sem síðast talaði um hvort hægt sé að nota upplýsingar sem áður hafa verð veittar félagi tel ég að sé best svarað með því að vísa í frumvarpið. Þar er tekið fram að ef leitað er upplýsinga hjá öðrum en þeim sem vátryggður er eða sækir um vátryggingu þá þarf upplýst samþykki viðkomandi einstaklings fyrir því. Ég skil það þannig að ekki sé hægt að nota upplýsingar öðruvísi en á þann hátt.

Það kemur mér ekki á óvart að ágreiningur er um þetta mál. Það var vitað í fyrri vinnslu málsins. Í umræðunni hefur hins vegar komið fram nokkur misskilningur og er ég þá ekki að tala um alls konar vítt fljúgandi samsæriskenningar sem hér hafa verið orðaðar líka, mönnum til gamans á þessari kvöldstund. Misskilningurinn er þessi: Í lagafrumvarpinu er farin nokkurs konar millileið. Ég tel að málefnaleg rök séu fyrir því að fara þessa millileið um leið og ég viðurkenni að það eru líka til málefnaleg rök fyrir því að ganga lengra en gert er í frumvarpinu. Í frumvarpinu er ekki víkkun heimilda fyrir vátryggingafélögin heldur þvert á móti mikil þrenging. Í gildandi lögum er talað um upplýsingar annars vegar og hins vegar heilsufar. Í frumvarpi þessu er talað um sjúkdóma sem orðið hafa. Þetta er mjög mikil þrenging. Vátryggingafélag í gildandi lögum má spyrja upplýsinga um heilsufar. Í þessu frumvarpi má aðeins spyrja um sjúkdóma sem orðið hafa og greindir hafa verið.

Í öðru lagi segir í gildandi lögum að spyrja megi um heilsufar hins vátryggða eða þess sem leitar vátryggingar og um aðra einstaklinga. Í þessu frumvarpi er það alveg skýrt tiltekið að það eru aðeins, auk hans sjálfs, sjúkdómar, sem orðið hafa og greindir hafa verið, foreldra, systkina og barna. Ég met og virði þá gagnrýni sem hefur komið fram á þeirri skilgreiningu og ég er þess fullviss að hv. þingnefnd muni fara yfir þau sjónarmið. En ég tek skýrt fram að ekki er verið að víkka út heimildir heldur er mjög verið að þrengja þær, skilgreina þær miklu skýrar en er núna einmitt í sömu átt og hv. þingmenn sem gagnrýnt hafa frumvarpið hafa viljað ganga. Það er þá spurningin hversu langt er gengið. Vilja menn ganga lengra í þrengingarátt eða ekki?

Millileiðin er hins vegar fólgin í hinu að ekki er farið lengra en svo í þessari þrengingu að segja megi að samkeppnisstaða, rekstraraðstæður og rekstrarforsendur í persónutryggingum hér á landi séu í samræmi við og samkvæmt því sem tíðkast í nágrannalöndunum, á Norðurlöndunum og í Evrópu. Afleiðingarnar ef gengið er lengra gætu þá orðið þær annars vegar að ekki reyndust rekstrarforsendur fyrir þessari tegund trygginga hér á landi eða á hinn bóginn að þær yrðu miklu dýrari fyrir alla. Þetta eru valkostirnir, eins og réttilega kom fram áðan í ræðu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar. Það eru alltaf valkostir í þessu sem þarf að skoða og taka til greina. Ég er þess fullviss að að lokinni þessari vönduðu umræðu, þó að ég telji að komið hafi fram misskilningur á þeirri þrengingu sem ég er að tala um og þessari millileið, verður fjallað nákvæmlega um þetta í hv. þingnefnd.