133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

verslunaratvinna.

414. mál
[20:01]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 28/1998, um verslunaratvinnu, með síðari breytingum. Efnið er eigendasaga myndverka o.fl.

Lagafrumvarp þetta tekur mið af tillögum starfshóps sem menntamálaráðherra skipaði í maí 2004 til að fjalla um fölsun listaverka og gera tillögur um hvernig unnt væri að bregðast við þeim vanda. Þá er höfð hliðsjón af umsögnum um frumvarpið en þær snertu meðal annars til hvaða myndverka ákvæði þess skyldu ná.

Í frumvarpinu er í stuttu máli gerð krafa til þess að seljandi leggi fram eigendasögu myndverks, enda sé myndlistarmaðurinn á skrá Listasafns Íslands. Gildir þetta ef myndverkið er í fyrsta lagi selt hjá listaverkasala sem annast viðskipti í atvinnuskyni, í öðru lagi selt á opnu listmunauppboði eða í þriðja lagi selt á lokuðu listmunauppboði. Bera annars vegar seljandi og hins vegar verslunaraðili, þ.e. listaverkasali eða uppboðsstjóri, nánar tilteknar skyldur hér að lútandi. Ákvæði frumvarpsins um ábyrgð eru hert með breytingu á 3. mgr. 23. gr. laganna, þ.e. ákvæðunum um svik sem ná ekki aðeins til seljanda heldur einnig verslunaraðila. Jafnframt er þar kveðið á um að gæta skuli sérstakrar varúðar varðandi ranga eignaraðild að og hættu á fölsun verkanna. Áskilnaður um eigendasögu við sölu myndverka hinna tilteknu myndlistarmanna hjá listaverkasala, á opnu listmunauppboði eða á lokuðu listmunauppboði getur dregið úr hættu á fölsunum myndverka með þar af leiðandi tjóni fyrir ýmsa aðila og myndlistarmarkaðinn í landinu í heild og getur þá stuðlað að betri neytendavernd. Eigendasagan kemur einkum að gagni þegar um er að ræða eldri eða mjög dýr myndverk. Ekki er þó með kröfugerðinni unnt að tryggja að seljandi leggi eigendasöguna fram, en skortur á eigendasögu eða hnökrar á henni geta hins vegar leitt til þess að viðkomandi myndverk verði ekki tekið til sölu, það seljist á lægra verði eða seljist jafnvel alls ekki. Hér er því stefnt að gegnsæi og bestu fáanlegum upplýsingum fyrir alla aðila en ekki síst fyrir þá sem hyggja á að kaupa myndverk.

Fjármálaráðuneytið telur að frumvarpið leiði ekki til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð verði það óbreytt að lögum.

Virðulegi forseti. Ég vænti þess að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til efnahags- og viðskiptanefndar.