133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

verslunaratvinna.

414. mál
[20:04]
Hlusta

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Hér erum við að ræða frumvarp um breytingu á lögum um verslunaratvinnu. Í frumvarpinu er gerð krafa um að seljandi myndverka leggi fram eigendasögu myndverks. Þetta á við um sölu í atvinnuskyni hjá listaverkasala, opnu listmunauppboði og sölu á lokuðu listmunauppboði.

Í sjálfu sér get ég á þessari stundu tekið undir að markmið þessa frumvarps sé gott. Við höfum séð ákveðin mál sem lúta að meintum fölsunum og í rauninni sönnuðum fölsunum á listaverkum hér á landi. Það hefur verið umræða um það hvort ekki sé nauðsynlegt að kalla á einhvers konar viðbrögð af hálfu löggjafans þegar kemur að því að efla traust og trúverðugleika við sölu listaverka.

Í þessum viðskiptaheimi, sölu á listaverkum, get ég ímyndað mér að erfitt geti verið að meta uppruna og hver hafi í raun staðið á bak við viðkomandi listaverk. Það getur án efa verið heilmikið matsatriði þegar kemur að því að finna uppruna viðkomandi listaverks. Stundum er sagt að mannkynið sé í grófum dráttum að tapa fimm styrjöldum. Þær styrjaldir eru styrjöldin um höfundarréttinn sem þetta frumvarp kemur inn á. Svo má nefna sömuleiðis að maðurinn virðist ekki ná nægjanlegum árangri í baráttu sinni gegn peningaþvætti og mansali, vopnasölu og sölu fíkniefna. Þetta eru þau fimm atriði sem mannskepnan á í mestum vandræðum með að ná tökum á svona alþjóðlega.

Mig langaði á þessu stigi að velta því fyrir mér í samvinnu við hæstv. viðskiptaráðherra hvað gerist í rauninni ef seljandi er ekki með eigendasögu. Verða þá einhverjar afleiðingar eða takmarkanir á sölu viðkomandi?

Í öðru lagi velti ég því fyrir mér hvort eigendasaga myndverksins eða hvort form þeirrar staðfestingar eða sögu þurfi að vera með einhverjum hætti. Hver vinnur slíkt þegar kemur að sölu?

Í þriðja lagi spyr ég hvort það hafi einhver áhrif á hugsanlega skaðabótaskyldu ef eigendasagan á annað borð fylgir með eða fylgir ekki með. Veit hæstv. viðskiptaráðherra hvort þetta muni hafa einhver praktísk áhrif hvað það varðar, sem ég reyndar stórlega efa?

Á þessu sviði viðskiptalífsins, þegar kemur að sölu listaverka og myndverka, skiptir traust og trúverðugleiki ótrúlega miklu máli. Því betri gögn sem við höfum um viðkomandi verk, þ.e. hvernig að uppruna þeirra var staðið er afskaplega mikilvægt. Þess vegna held ég að þetta skref sem hér er tekið sé jákvætt í sjálfu sér og gæti aukið traust og trúverðugleika almennings á þeim mikilvæga markaði sem lýtur að sölu listaverka hér á landi.