133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

hlutafélög o.fl.

516. mál
[20:31]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þessar ágætu undirtektir og ábendingar sem komið hafa fram við umræðuna. Ég hef svarað spurningu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar hvort gengið er lengra en þarf. Eins og ég hef skilið þetta þá eru það þessar breytingar sem leiðir beint af tilskipuninni og ekki gengið lengra. Reyndar veit ég að ákvæði er um samvinnufélög og skiptingu í tengslum við félög í öðru réttarformi sem kannski mætti segja að sé sjálfstætt ákvæði, það gengur ekki lengra, en það er sjálfstætt ákvæði í þessu. Ég hygg að þetta muni hafa þau áhrif í verki að þetta greiði fyrir útrás, greiði fyrir samstarfi fyrirtækja og sameiningum milli landa, eins og kom fram í umræðunni.

Ég svara spurningu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar um frumvarp frá félagsmálaráðuneytinu þannig að eins og ég skil þetta er þetta í rauninni sjálfstætt efnisatriði vegna þess að það er um aðild starfsmanna. Í sjálfu sér mætti það þess vegna koma beint á eftir, það þarf ekki að bíða eftir því.

Báðir hv. þingmenn Ágúst Ólafur Ágústsson og Pétur H. Blöndal ræddu um störf Samkeppniseftirlitsins og samkeppnisréttinn. Ég er ekki reiðubúinn á þessari stundu óundirbúinn að fjalla nánar um það að öðru leyti en því að mér er kunnugt um það, eins og alþjóð veit, að Samkeppniseftirlitið er einmitt að skoða samkeppnishætti á mjög viðkvæmu sviði í íslensku hagkerfi, sem er smásöluverslunin, og augljóst er að þar koma þessir þröskuldar og mál þessu skyld um samruna fyrirtækja og samkeppnishætti mjög til skoðunar. Mér er það kunnugt alveg frá því að ég starfaði hjá Samtökum atvinnulífsins hversu miklar umræður eru einmitt um þessa þröskulda og samanburður um stærð fyrirtækja, bæði í veltu og á öðrum umsvifum og starfsmannahaldi í þessu sambandi. Ég legg einfaldlega áherslu á það að samkeppnisrétturinn þarf að vera í stöðugri endurskoðun og í þeim skilningi er alltaf tímabært að taka mál sem þetta til skoðunar.