133. löggjafarþing — 61. fundur,  29. jan. 2007.

samkeppnislög.

522. mál
[20:51]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl) (andsvar):

Herra forseti. Samkeppnismál hafa verið nokkuð í umræðunni síðustu vikur. Þar hefur farið fyrir m.a. hæstv. fjármálaráðherra sem hefur boðað að samkeppnislögum verði jafnvel breytt til að taka á því að hægt verði að lækka matarverð í landinu en nú virðist raunin vera sú að lækkunin á virðisaukaskattinum sé að gufa upp í verðhækkunum. Þess vegna hefur ríkisstjórnin sagt frá því að hún sé að hugsa um að taka á þessum málum með lagabreytingu.

Það væri fróðlegt að fá að vita hvort hæstv. viðskiptaráðherra hafi frétt eitthvað af þessu eða hvort þetta hafi bara verið eitthvert hjal í hæstv. fjármálaráðherra þegar hann rak í vörn í þessu máli þar sem lækkunin á virðisaukaskattinum virðist ekki vera að skila sér til neytenda eins og boðað hefur verið.