133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

efnahagsmál.

[13:36]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Í dag höfum við heyrt fréttir af því að gríðarlegur hagnaður hafi verið á rekstri bankanna undanfarið ár. Útrásin hefur skilað þeim miklum tekjum af starfsemi þeirra erlendis og vaxtastefna Seðlabankans hefur gert þeim kleift að hækka verulega útlánsvexti án þess að hækka innlánsvexti. Vaxtamunur bankanna hefur aldrei verið meiri. Rekstur annarra stórfyrirtækja gengur vel og afkoma þeirra er góð sem er auðvitað fagnaðarefni og skilar umtalsverðum tekjum í ríkissjóð. Mikil velta í samfélaginu hefur líka skilað ríkissjóði miklu og það ásamt sölu ríkisfyrirtækja hefur gert ríkissjóði kleift að greiða umtalsvert niður skuldir sínar. Staðan ætti þó að vera umtalsvert betri ef þess er gætt hversu gríðarleg þenslan hefur verið hér og að hið opinbera tekur nú til sín um 42% af landsframleiðslunni.

En það er ekki allt sem sýnist í þessum efnum. Þegar horft er til heimilanna í landinu blasir önnur mynd við. Frá því að þessi ríkisstjórn tók við hafa skuldir þeirra aukist um þúsund milljarða kr. Þau skulduðu 299 milljarða kr. á öðrum ársfjórðungi 1995 en skulda nú 1.300 millj. kr. 86% af þessum skuldum, 1.100 milljarðar kr., eru verðtryggðar skuldir og 100 milljarðar kr. eru yfirdráttarlán á himinháum vöxtum. Kannski kæmi þetta ekki að sök ef heimilin byggju við stöðugleika og lága verðbólgu og gætu treyst því að höfuðstóllinn lækkaði eftir því sem greitt væri af lánunum og greiðsluáætlanir stæðust sem gerðar eru þegar lán eru tekin. En er það svo? Horfum aðeins á það sem gerðist á síðasta ári.

Í árslok skulduðu heimilin 44 milljörðum kr. meira en í ársbyrjun, 44 milljörðum kr. meira í árslok en í ársbyrjun vegna þeirrar verðbólgu sem hér hefur verið umfram verðbólgumarkmið Seðlabankans, þ.e. umfram 2,5%. Þessir 44 milljarðar leggjast á höfuðstól lánanna og hverfa ekki þótt verðbólgan lækki heldur sitja þar áfram allan lánstímann. Ef við gefum okkur að meðallánstími sé 20 ár þýðir þetta að greiðslubyrði heimilanna á ári hverju hækkar um 2,2 milljarða kr. í heil 20 ár.

En það er ekki bara verðtryggingin sem hefur áhrif á greiðslubyrði heimilanna. Vegna þenslunnar hafa vextir hækkað eins og öllum er kunnugt. Seðlabankinn krefst þess að lánastofnanir hækki vexti sína til að reyna að hamla gegn útlánaþenslu. Varlega áætlað má gera ráð fyrir að heimilin borgi um 1% hærri vexti af verðtryggðum lánum en þau ella hefðu gert. Þetta er varlega áætlað, 1%, en þýðir að greiðslubyrði þeirra er 11 milljörðum kr. hærri en hún ella hefði verið. Þá borga heimilin um 4 milljörðum kr. meira en áður af yfirdráttarlánum vegna hinna himinháu vaxta og um 4,5 milljörðum kr. meira vegna almennrar raunvaxtahækkunar Seðlabankans. Samantekið, virðulegur forseti, þýðir þetta að greiðslubyrði og vaxtabyrði heimilanna hækkar á árinu 2007 um 21,7 milljarða kr. vegna þess að ríkisstjórninni hefur ekki tekist að halda aftur af þenslu. Fyrir meðalfjölskylduna þýðir þetta um 250 þús. kr. á ári, 21 þús. kr. á mánuði, ekki vegna aðgerða fólksins sjálfs á árinu heldur vegna aðgerða og aðgerðaleysis ríkisstjórnarinnar. Þetta er herkostnaðurinn, reikningurinn sem ríkisstjórnin sendir heimilunum vegna óábyrgrar efnahagsstefnu á þessu kjörtímabili. Fyrir fólkið er þetta ekki augnabliksástand eins og formaður Framsóknarflokksins virðist telja, heldur veruleiki, að stærstum hluta til næstu 20 árin.

Ég hitti konu í gær, kúabónda með meðalbú, sem sagðist skulda 70 millj. kr. Hún skuldbreytti á síðasta ári 36 millj. kr. og sagði mér að besta lán sem henni hefði boðist hefði verið verðtryggt lán með 5% breytilegum vöxtum. Nú væru vextirnir orðnir 7% og hún greiddi 100 þús. kr. meira á mánuði í afborganir og vexti en fyrir ári síðan vegna verðtryggingar og vaxtahækkunar. Hún sagði: Hvað á ég að gera? Þetta er veruleiki fólksins í landinu, þetta er afkoma fólksins á sama tíma og afkoma fjármálastofnana og stórfyrirtækja hefur aldrei verið betri.

Í viðtali við seðlabankastjóra í Speglinum nýverið kom fram sú skoðun hans að teflt hefði verið á tæpasta vað í hagstjórninni. Ýmsum efnahagslögmálum hefði verið storkað og efnahagslífið þanið út í ystu endapunkta, eins og hann orðaði það. Orðrétt sagði svo seðlabankastjóri að hér hefði verið látið reyna á „efnahagsforsendur sem aðrir hafa ekki þorað að láta reyna á“. Ekki útskýrði hann það frekar en ekki er ólíklegt að hann hafi þar verið að vísa til þeirrar miklu þenslu sem hér hefur verið ríkjandi missirum og árum saman þar sem saman hafa farið stórframkvæmdir í stóriðjuvirkjunum, kapphlaup á lánamarkaði og lækkanir á tekjuskattshlutfalli. Hann útilokaði þó ekki mjúka lendingu, en forsendur hennar sagði hann að útgjaldaáform væru ekki þanin um of. Hann sagði að þá væri hætta á að gjaldmiðillinn gæfi eftir með umtalsverðum áhrifum á þá sem hafa bundið sér þyngsta bagga og mest skulduðu. Í svipaðan streng tók Jónas Haralz, hagfræðingur og fyrrverandi bankastjóri, á sama vettvangi. Hann minntist á stórframkvæmdirnar og sagði: Síðan bættist ofan á mjög sterkur þensluþáttur og það má jafnvel kalla það bara hreint slys í stjórn efnahagsmála. Það er það sem gerðist á íbúðalánamarkaðnum. Þarna áttu sér stað hrapalleg mistök sem eru einn sterkasti þátturinn í því sem hefur gerst.

Slys og hrapalleg mistök, efnahagslögmálum storkað, látið reyna á efnahagsforsendur sem aðrir hafa ekki þorað að láta reyna á. Virðulegur forseti. Þetta eru ekki orð stjórnarandstöðunnar á þingi, heldur núverandi seðlabankastjóra og svo eins virtasta hagfræðings þjóðarinnar. Almenningur borgar brúsann. Hann býr við hæstu verðtryggingu, hæstu vexti sem þekkjast á Vesturlöndum, hæsta matarverð á byggðu bóli, hátt verð á fasteignamarkaði, hærra lyfjaverð en víðast hvar annars staðar, bensínverð, hátt verð á öllum aðföngum til heimilis og svona mætti áfram telja.

Markmið hagstjórnar getur ekki bara verið að halda aftur af verðbólgu. Markmiðið er að búa fólki gott og öruggt líf, búa því stöðugleika þannig að það sé ekki í stöðugri óvissu um kjör sín og aðstæður. (Forseti hringir.) Og nú spyr ég forsætisráðherra hvernig ríkisstjórnin ætli að takast á við þetta verkefni. Hefur hún mótað einhverja stefnu um hvernig eigi að koma í veg fyrir harða lendingu í hagkerfinu sem hefði miklar búsifjar (Forseti hringir.) í för með sér fyrir skuldsett heimilin? Hvernig hyggst hún koma til móts við aukna greiðslubyrði heimilanna?