133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

efnahagsmál.

[13:53]
Hlusta

Sigurjón Þórðarson (Fl):

Frú forseti. Síðasta sumar voru gerð alvarleg mistök við stjórn landsins sem bitnar mjög á hag íslenskra heimila. Það var þegar ákveðið var að blása lífi í Framsóknarflokkinn þegar Halldór Ásgrímsson hraktist frá völdum. Þá var farið út í mjög kostnaðarsöm útgjöld sem birtust m.a. í fjárlögum þessa árs og ekki síður í fjáraukalögum hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann fór geyst og dældi út mörgum hundruðum milljóna í sitt eigið kjördæmi, maður sem ætti að gæta að því að hemja þensluna. Hann fór í það að auka fjárútlát, eingöngu í prófkjörsbaráttu. Það er sá vandi sem við glímum við. Það var um 7% verðbólga á síðasta ári. En hver var spáin? Hún var 75% lægri. Hér hafa allar áætlanir farið úr böndunum

Þetta bitnar mjög á hag íslenskra heimila sem skulda 1.270 milljarða íslenskra króna. Þessi gríðarlegi vaxtakostnaður sem bitnar á heimilunum er eingöngu verk stjórnarflokkanna sem birtast m.a. í yfirdráttarvöxtum sem eru á þriðja tug prósenta. Þetta er veruleiki íslenskra heimila, stjórnarstefnan birtist í vöxtunum og í verðbólgunni. Það eru hinar köldu staðreyndir þessa máls.

Til að halda öllu til haga skal þess getið að hæstv. forsætisráðherra fór í sérstakar efnahagsaðgerðir, einhverjar sálrænar efnahagsaðgerðir sem gengu út á það að stöðva aðgerðir hér í nokkrar vikur síðasta sumar. Þær báru þvílíkan árangur að hans mati að það var hætt við allt saman og nú horfumst við í augu (Forseti hringir.) við mikla verðbólgu.