133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

efnahagsmál.

[13:57]
Hlusta

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hv. síðasti ræðumaður, Ágúst Ólafur Ágústsson, sagði frá því að Samfylkingin hefði lausnir á þeim mikla vanda sem hann taldi sig vera að lýsa. Það var leitt að hv. þingmaður hafði ekki tíma til að koma fram með þær lausnir. Þær komu ekki fram í máli hans og raunar ekki í máli hv. málshefjanda Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur heldur.

Eins og gerist jafnan í umræðum af þessu tagi tínir stjórnarandstaðan það til sem hún telur úrskeiðis hafa farið en kemur ekki með neinar lausnir. Hins vegar hafa þeir ræðumenn stjórnarandstöðunnar sem eiga eftir að taka til máls tækifæri til að koma með þessar lausnir.

Þegar maður hlustar á ræður eins og þá sem hv. þm. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir flutti hér áðan — hún hafði þau atriði eftir öðrum mönnum, hæstv. fyrrverandi forsætisráðherra Davíð Oddssyni og Jónasi Haralz hagfræðingi. Hún vitnaði raunar ekki í hæstv. fyrrverandi fjármálaráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, sem líka er hagfræðingur — það sem hún tíndi til voru þrjú atriði, skulum við segja. Það sem úrskeiðis hefði farið væru Kárahnjúkavirkjun, hækkun íbúðalána og skattalækkanir.

Ég velti fyrir mér, þegar ég hlustaði á þá hana, hvernig Samfylkingin hefði brugðist við í þessum atriðum. Var Samfylkingin á móti skattalækkununum? Liggur það fyrir? Eða er það ný stefna? Var Samfylkingin á móti breytingunum á húsnæðislánakerfinu? Hefur það komið fram? Var Samfylkingin á móti Kárahnjúkavirkjun? Hefur það komið fram?

Ég velti fyrir mér þegar stjórnmálamenn flytja mál sitt með þessum hætti hvort þeir séu trúverðugir. Eru þeir trúverðugir þegar þeir tala um stöðugleika í þessu sambandi? Þegar þeir tala um pólitískan stöðugleika þegar allt er í uppnámi (Forseti hringir.) á heimavígstöðvum þeirra sjálfra?