133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

efnahagsmál.

[14:00]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Hæstv. forsætisráðherra sagði að nú mundi ríkisstjórnin sigla fyrir hægum vindi, en getur ríkisstjórnin siglt fyrir hægum vindi eins og ástandið er í dag? Þanþol efnahagslífsins er spennt til hins ýtrasta og hefur verið undanfarin ár og það er ekkert sem bendir til þess að það sé að slakna á þessari þenslu. Á meðan gefin eru fyrirheit um áframhaldandi stóriðju er alveg nóg að nefna það að vilji sé fyrir hendi, ábyrgðinni vísað yfir til sveitarfélaganna, búið að ganga frá samningum, þetta sé allt á leiðinni og þá heldur þessi þensla áfram. Seðlabankinn, eins og við vitum, getur ekki gert annað en að bregðast við verðbólgunni og þensluáhrifunum með því að hækka stýrivextina, bankarnir hækka sína vexti og halda þeim í samræmi við stýrivextina, vextir bankanna eru ofurvextir, gróði bankanna er ofurgróði og það ætti a.m.k. að vera hægt að létta á verðtryggðum lánum heimilanna til íbúðakaupa með því að lækka þau lán eins og ofurgróði bankanna gefur tilefni til.

Hvaða svör hafa stjórnarandstöðuflokkarnir? Svör Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs liggja fyrir. Þau eru búin að gera það frá því í upphafi þings. Við erum með þingsályktunartillögu um aðgerðir til að endurheimta efnahagslegan stöðugleika (Forseti hringir.) og ég hvet ríkisstjórnina til að lesa vel þær tillögur.