133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

efnahagsmál.

[14:03]
Hlusta

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég beindi þeirri spurningu til forsætisráðherra hvernig ríkisstjórnin hygðist takast á við aukna greiðslubyrði heimilanna vegna verðbólgu og hárra vaxta. Það varð ansi fátt um svör hjá hæstv. forsætisráðherra. Hann vísaði til þess að ég væri seinheppin að hefja þessa umræðu í dag þegar verið væri að birta þessar góðu afkomutölur fyrir bankana, það segði okkur hversu sterk staða þjóðarbúsins væri. En það virðist vera sem forsætisráðherra hafi meiri skilning á því þjóðarbúi sem birtist okkur í reikningum bankanna en í reikningum heimilanna því að ég var að tala um hvernig staða mála kemur við fjölskyldurnar og heimilin í landinu. Það er út af fyrir sig rétt að það á ekki bara að horfa á skuldsetninguna heldur líka á eignahliðina en það sem öllu máli skiptir er það að fjölskyldurnar í landinu borga 250 þúsundum kr. meira á ári á árinu 2007 í afborganir og vexti en á síðasta ári, bara vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar, ekki vegna þess að þær hafi bætt við skuldir sínar, heldur bara vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Það kemur við budduna hjá fólki og dregur úr góðri afkomu heimilanna þannig að þetta er það sem forsætisráðherra á auðvitað að hafa áhyggjur af.

Aðeins um hin vanhugsuðu orð stjórnarandstöðunnar sem hæstv. iðnaðarráðherra vísaði til. Þetta voru ekki vanhugsuð orð stjórnarandstöðunnar sem ég var að vísa til. Þetta voru orð seðlabankastjóra, orð eins helsta hagfræðings þjóðarinnar sem talaði um slysið í efnahagsmálum. Það voru fyrrverandi kollegar formanns Framsóknarflokksins og það þýðir ekki að heimfæra þau bara upp á stjórnarandstöðuna. Það vill bara svo til að við erum sammála um þetta efni.

Virðulegur forseti. Eitt sem við verðum að minnast á hér og tengist þessum 250 þús. kr. reikningi sem heimilin fá er vinnutíminn sem þau þurfa að leggja á sig til að vinna fyrir þessu. Íslenskar verkakonur, lægst launaða fólkið í landinu, vinna núna fimm stundum fleiri vinnustundir á viku (Forseti hringir.) en danskar. Það voru tvær stundir árið 1995. Þetta segir auðvitað sína sögu (Forseti hringir.) um það hvernig búið er að heimilunum í landinu.