133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

efnahagsmál.

[14:06]
Hlusta

forsætisráðherra (Geir H. Haarde) (S):

Virðulegi forseti. Stjórnarandstaðan hefur hér uppi mikinn hræðsluáróður um stöðu efnahagsmálanna. Sú mynd sem dregin var upp í ræðu hv. þm. Ágústs Ólafs Ágústssonar er kannski besta birtingarmyndin á því. Hann lýsir ástandinu eins og að hér sé allt í kaldakoli. En Samfylkingin hefur svör við öllu kom jafnframt fram í ræðu þingmannsins. Samfylkingin er með svör við þessu öllu saman. Ja, heyr á endemi, virðulegi forseti.

Staðan er auðvitað sú að á undanförnum árum hefur tekist samfellt að bæta lífskjörin í þessu landi. Þetta vita allir menn. Þetta vita allir sem eru að hlusta á þingmenn Samfylkingarinnar. Allir sem fylgjast með þjóðmálunum gera sér grein fyrir því að hagur landsmanna allra hefur batnað verulega undanfarin ár. Við höfum að undanförnu gengið í gegnum þensluástand. Því mun linna með minnkandi framkvæmdum í sambandi við stóriðju. Þá mun hagkerfið kasta mæðinni, ef svo mætti segja, og síðan fara útflutningsafurðirnar vegna þessara framkvæmda að segja til sín í framleiðslunni og í útflutningnum. Allt það sem Samfylkingin heldur hérna fram er á misskilningi byggt og svo er talað um að Íslendingar haldi dauðahaldi í ónýtan gjaldmiðil, að ríkisstjórnin haldi dauðahaldi í ónýtan gjaldmiðil. Hvað segir fólkið úti í Evrópu sem býr við evruna? Ég bendi hv. þingmönnum Samfylkingarinnar á að lesa sér til um það í Morgunblaðinu. Mikill meiri hluti segir evru hafa slæm áhrif á efnahaginn.

Hv. þm. Ágúst Ólafur Ágústsson sagði að ríkissjóður hefði 73% meiri tekjur, hann væri 73% dýrari núna en 1995 og fólkið fengi ekki þjónustu sem væri betri sem því næmi. Hefur þingmaðurinn ekki gert sér grein fyrir því að laun ríkisstarfsmanna hafa hækkað? Er hann á móti því að við höfum bætt kjör ríkisstarfsmanna eins og annarra? Gerir hann sér ekki grein fyrir því að það hafa orðið stórkostlegar umbætur í ýmsum (Forseti hringir.) þáttum trygginga og fleiri atriða?

Virðulegi forseti. (Forseti hringir.) Fólk sem svona talar býr í Undralandi. (Gripið fram í.)