133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

lokafjárlög 2005.

440. mál
[14:15]
Hlusta

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir framlagt frumvarp og greinargerð hans fyrir því hér við upphaf 1. umr. Við munum síðan í framhaldinu fá frumvarp til lokafjárlaga til umfjöllunar í fjárlaganefndinni og fara þar efnislega yfir einstaka liði, en hér við 1. umr. gefst fyrst og fremst tækifæri til að fara lauslega yfir helstu atriði sem að frumvarpinu snúa.

Þá er fyrst til að taka að það er full ástæða til að hrósa hæstv. fjármálaráðherra fyrir það á hvaða degi við erum að ræða um lokafjárlög að þessu sinni. Ég hygg að það sé um tveimur mánuðum fyrr en jafnan hefur verið hin síðustu ár, og full ástæða til að þakka það að frumvarpinu sé skilað fyrr um leið og það er auðvitað sannarlega rétt að eftir 45. gr. ber því að koma fram með ríkisreikningi og ætti að réttu lagi að liggja fyrir í upphafi þings, þ.e. í október á fyrra ári þannig að niðurstöður þess liggi fyrir við fjárlagaumræðuna sjálfa, umræðuna um ríkisfjármálin og afgreiðslu þeirra á haustþingi en komi ekki fyrst til umræðu á vorþinginu. Okkur miðar þó í rétta átt og er ástæða til að þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að standa betur að verki að þessu leyti en verið hefur um leið og við hvetjum hann auðvitað til að standa skil á þessu fyrr en verið hefur.

Meðal annarra atriða sem vert er að fjalla nokkuð um er kannski fyrst og fremst sá þáttur sem Ríkisendurskoðun hefur ár eftir ár gagnrýnt harðlega og við í stjórnarandstöðunni ítrekað vakið athygli á, þær miklu heimildir sem fluttar eru á milli ára en koma ekki til afgreiðslu í fjárlögunum sjálfum. Við sjáum í þessum fjárlögum að liðlega 27,9 milljarðar eru fluttir í ónýttum fjárheimildum á milli ára og 8,7 milljarðar af útgjöldum umfram heimildir. Það þýðir auðvitað að verulega stór hluti af fjárreiðum ríkisins er ákveðinn með millifærslum þessum en ekki í fjárlagagerðinni sjálfri og þeim ákvörðunum sem þar eru teknar. Eins og Ríkisendurskoðun hefur margítrekað bent á ýtir þetta verklag undir lausatök í ríkisfjármálunum, það skortir aðhald og aga í þeim og þær kröfur til áætlanagerðarinnar að hún og fjárheimildirnar haldi. Það er því miður allt of algengt og hefur verið hin síðustu ár að fjárlagaliðir séu langt utan heimilda. Hæstv. fjármálaráðherra bendir sjálfur á að 82 fjárlagaliðir af, að ég hygg, liðlega 400 liðum eru meira en 4% út fyrir heimildir. 65 liðir eru í meira en 10% fráviki og því miður eru margir tugir þessara liða þannig ár eftir ár. Það er engum blöðum um það að fletta að slíkt verklag liðist ekki á hinum almenna markaði. Úr því að hann ber á góma væri auðvitað heldur ekki upp á það boðið að menn væru að ræða fjármál þarsíðasta árs, þ.e. ársins 2005, á fundum sínum árið 2007. Ég held að í hvoru tveggja þessu, þ.e. aðhaldinu með framkvæmd fjárlaganna í flutningi fjárheimilda á milli ára og því hversu hratt hingað koma inn bæði frumvörp til fjáraukalaga og eins lokafjárlögin, þurfi ríkið enn að taka sig verulega á til þess að það megi heita að hér sé styrk og góð fjármálastjórn í fjárreiðum ríkisins. Einmitt það er okkur öllum svo geipilega mikilvægt því að við vitum að hagur landsins og efnahagur bæði atvinnulífsins og heimilanna hvílir í ríkum mæli á því hvernig hér er á haldið. Þess er skemmst að minnast að nýverið var lánshæfi okkar lækkað af alþjóðlegum matsfyrirtækjum með sérstakri tilvísun til ríkisfjármálanna og þess hvernig á þeim hefur verið haldið. Því miður eru þau þannig farin að bitna á atvinnulífinu í landinu. Það á að vera mönnum hvatning til að auka aðhald og aga á allri framkvæmd fjárlaga enda algerlega óviðunandi að 65 liðir fari meira en 10% út fyrir heimildir sínar.

Hæstv. fjármálaráðherra vísar til þess sem vel getur verið tilefni til að skoða, þ.e. hvort setja eigi reglur sem lúta að forstöðumönnum sem fari fram úr tvö ár í röð en ég er hræddur um, virðulegi forseti, að hér sé ekki við forstöðumennina eina að sakast. Það vill þannig til að þeim eru ekki aðeins lagðar fjárheimildir á herðar, þeim eru líka lögð á herðar lögbundin verkefni af hinu háa Alþingi. Það er jafnmikilvægt að þeir fari eftir þeim fjárheimildum sem þeim eru fengnar og eins hitt að ráðuneyti þeirra geri viðunandi og eðlilegar áætlanir um það hver kostnaður verði við framkvæmd þeirra lögbundnu verkefna sem stofnanirnar eiga að framfylgja. Þetta á kannski ekki síst við um stofnanir í heilbrigðiskerfinu sem eiga ekki alltaf hægt um vik með að stýra eftirspurn eftir þjónustu sinni, ef eftirspurn er rétta orðið til að nota um heilbrigðisþjónustu, virðulegur forseti.

Það er líka ástæða til að spyrja sig hvort heimilt sé í 1. gr. í frumvarpi til lokafjárlaga að ráðstafa mörkuðum tekjustofnum í lokafjárlögum einum 935 millj. kr. svo sem þar er gert. Fjárreiðulögin gera ráð fyrir því að fjárheimildirnar sjálfar séu veittar í fjárlögum og fjáraukalögum en ekki lokafjárlögunum. Þau eru fyrst og fremst staðfesting á ríkisreikningi en það eru atriði sem vert er að fjárlaganefndin fari betur yfir í umfjöllun sinni.

Ég ítreka bara þakkir mínar til hæstv. fjármálaráðherra og við munum síðan að lokinni umfjöllun í fjárlaganefnd taka efnisumræðu um lokafjárlögin við 2. umr.