133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

fjarskipti.

436. mál
[14:32]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.

Megintilgangurinn með frumvarpinu er að auka öryggi í fjarskiptum, auka neytendavernd og að styrkja ákvæði laganna er fjalla um vernd persónuupplýsinga og friðhelgi einkalífs.

Frumvarpið er að hluta byggt á starfi starfshóps sem ég skipaði vorið 2005 til að fjalla um öryggi í fjarskiptum. Hópnum var falið að vinna tillögur um öryggi fjarskipta í samræmi við stefnu ríkisstjórnarinnar um upplýsingasamfélagið, Auðlindir í allra þágu, og að hafa til hliðsjónar markmið fjarskiptaáætlunar. Markmið starfsins var að einfalda stjórnsýslu og efla öryggi við notkun upplýsinga- og fjarskiptatækni, sem og þjónustu við borgarana.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á hugtakinu fjarskiptaþjónusta. Í núgildandi lögum er hugtakið skilgreint nokkuð rúmt en í framkvæmd hefur verið lögð nokkuð þrengri merking í hugtakið en orðalag þess gefur beinlínis tilefni til. Í framkvæmd hefur internetsþjónusta þannig ekki verið álitin falla undir hugtakið fjarskiptaþjónusta. Sú framkvæmd er hins vegar ekki í fullu samræmi við rammatilskipun Evrópusambandsins um fjarskipti en þar er gert ráð fyrir að tölvupóstsþjónusta og netaðgangur falli undir gildissvið tilskipunarinnar. Því eru lagðar til breytingar á skilgreiningu á hugtakinu fjarskiptaþjónusta þannig að tekinn er af allur vafi um að tölvupóstsþjónusta og netaðgangur teljist jafnframt til fjarskiptaþjónustu.

Í frumvarpinu eru jafnframt lagðar til breytingar sem eiga að stuðla að aukinni neytendavernd. Í fyrsta lagi er lagt til að Póst- og fjarskiptastofnun verði heimilað að setja reglur um vernd, virkni og gæði IP-fjarskiptaþjónustu en með slíkum reglum er stuðlað að bættri þjónustu í upplýsingasamfélaginu og neytendum m.a. gert auðveldara að meta gæði netþjónustunnar og gera verðsamanburð.

Í öðru lagi er lagt til að tekið verði upp ákvæði sem kveður á um sex mánaða hámarksbinditíma sem heimilt verður að semja um í samningi milli fjarskiptafyrirtækis og áskrifenda. Tilgangur þess er að liðka fyrir samkeppni og auka neytendavernd.

Í þriðja lagi er kveðið á um rétt áskrifenda talsímaþjónustu til að fá reikninga fyrir fjarskiptanotkun sína sundurliðaða breytt til samræmis við túlkun Evrópudómstólsins í þeim rétti. Í því felst að kveðið er á um það með skýrum hætti að áskrifendur eigi rétt á að fá sundurliðaðan lista allra símtala svo þeir geti sannprófað hvort símreikningur þeirra sé í samræmi við raunverulega notkun.

Þá er í frumvarpinu lagt til að fjarskiptafyrirtækjum verði gert skylt að miðla staðsetningarupplýsingum til félaga og stofnana sem annast neyðarþjónustu en í núgildandi lögum er þeim það einungis heimilt. Ljóst er að staðsetning á uppruna neyðarsímtala er afar brýn forsenda fyrir skilvirkni og viðbragðsfljótri neyðarþjónustu. Því hefur verið í fjarskiptalögum undanþáguheimild fyrir fjarskiptafyrirtæki til að miðla staðsetningarupplýsingum til félaga og stofnana sem annast neyðarþjónustu. Fjarskiptafyrirtæki sem veita hefðbundna símaþjónustu í fasta- og farsímanetum miðla þessum upplýsingum í dag til Neyðarlínunnar á grundvelli samkomulags við hana. Í ljósi reynslunnar af því hversu mikilvægar upplýsingarnar hafa reynst Neyðarlínunni þykir hins vegar rétt að gera þeim það skylt.

Í frumvarpinu eru einnig lagðar til breytingar á ákvæði um óumbeðin fjarskipti. Þar er lagt til að ákvæði laganna er fjalla um óumbeðin fjarskipti taki ótvírætt til farsíma og einnig til smáskilaboða við beina markaðssetningu þegar markpóstur er sendur með smáskilaboðum. Þá er lögð til breyting þess efnis að áskrifandi eigi rétt á að vita hvaðan þær upplýsingar koma sem liggja úthringingum til grundvallar.

Að undanförnu hefur borið á því að rafræn skilaboð, svo sem SMS, hafi verið notuð til að kynna vörur og þjónustu. Víða erlendis hefur þessi aðferð við markaðssetningu verið talsvert mikið notuð. Því má búast við að þessi aðferð verði í vaxandi mæli notuð til þess að koma á framfæri auglýsingum við neytendur hér á landi.

Þá eru í frumvarpinu lagðar til breytingar á ákvæði fjarskiptalaga er fjallar um öryggi og þagnarskyldu en rétt þykir að setja ítarlegar reglur um þær kröfur sem eðlilega verður að gera til öryggis fjarskipta.

Í fyrsta lagi er kveðið á um með ótvíræðum hætti að fjarskiptafyrirtæki skuli verja upplýsingar sem fara um fjarskiptanet þeirra gegn því að þær glatist, skemmist eða breytist fyrir slysni eða óviðkomandi fái aðgang að þeim.

Í öðru lagi er gerð sú krafa að fjarskiptafyrirtæki skjalfesti skipulag upplýsingaöryggis með því að setja sér öryggisstefnu, gera áhættumat og ákveða öryggisráðstafanir á grundvelli þess. Í þessu sambandi skal Póst- og fjarskiptastofnun setja reglur þar sem mælt er fyrir um þær kröfur sem gerðar eru til skipulags upplýsingaöryggis.

Í þriðja lagi er kveðið á um að fjarskiptafyrirtæki skuli gera sérstakar ráðstafanir til að tryggja samfelldan og órofinn rekstur almennra fjarskiptaneta. Hér er um að ræða mjög mikilvægan þátt í fjarskiptaþjónustu sem lýtur í senn að gæðum þjónustunnar og öryggi fjarskipta. Í þessu sambandi er einnig gert ráð fyrir að Póst- og fjarskiptastofnun setji reglur um virkni almennra fjarskiptaneta.

Í fjórða lagi er kveðið á um bann við hlustun, upptöku, geymslu eða hlerun fjarskipta með öðrum hætti. Í gildandi ákvæði 47. gr. fjarskiptalaga er ekki að finna slíka bannreglu með nægilega skýrum hætti og því þykir rétt að taka af allan vafa þar að lútandi og lögfesta bannregluna með berum orðum.

Í fimmta lagi er lagt bann við notkun búnaðar sem komið er fyrir í endabúnaði notenda til að fá aðgang að upplýsingum, safna földum upplýsingum eða fylgjast með athöfnum hans nema í lögmætum tilgangi og með vitund hlutaðeigandi notanda.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.