133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

fjarskipti.

436. mál
[14:55]
Hlusta

Anna Kristín Gunnarsdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Einmitt vegna þess að tölvu- og tæknimálið er flókið þá tel ég að færa eigi það yfir á skiljanlega íslensku öllum almenningi, í því sem heitir skýringartexti með lögunum. Það tel ég ekki að hafi verið gert nægilega vel í því tilfelli sem ég tilgreindi áðan. En mér heyrðist hæstv. ráðherra ekki endilega vera á því að kveða þyrfti á um það í 6. gr. að Póst- og fjarskiptastofnun skyldi setja reglur um ráðstafanir sem fjarskiptafyrirtækin eiga að viðhafa heldur verði það sett í þeirra hendur hvernig reglurnar skuli vera, a.m.k. í fyrstu atrennu.

Hæstv. ráðherra talaði um að þetta væri harðsnúinn markaður. Einmitt þess vegna tel ég að Póst- og fjarskiptastofnun eigi að setja reglur. Ég tel ekki nóg að hafa í lögunum heimildarákvæði til að vernda neytandann. Á þessum harðsnúna markaði tíðkast mikil gylliboð sem neytandanum er ekki auðvelt að sjá í gegnum. Mér finnst að Póst- og fjarskiptastofnun eigi að sjá til þess að fyrirtækin hlíti reglum sem geri hinum almenna neytanda, sem hefur ekki sérstaka innsýn í tæknimálið, auðvelt að átta sig á hvað er verið að selja viðkomandi.