133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

fjarskipti.

436. mál
[14:57]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Eins og fram kom í ræðu minni þá fer ekki á milli mála að samkvæmt frumvarpinu segir í 6. gr.:

„Fjarskiptafyrirtæki skulu viðhafa ráðstafanir til að stuðla að bættri vernd, virkni og gæðum IP-fjarskiptaþjónustu.“

Fjarskiptafyrirtækjum er enginn afsláttur gefinn af því í lagatextanum. Síðan er Póst- og fjarskiptastofnun heimilt að setja reglur um slíkar ráðstafanir þar sem nánar yrði mælt fyrir um það sem greint er frá í stafliðum a–g, sem ég ætla ekki að lesa upp. En áherslan er alveg skýr hvað varðar breytingarnar sem við gerum núna, að fjarskiptafyrirtækin skulu gera ráðstafanir. Það er aðalatriði málsins. Það er síðan sett í vald Póst- og fjarskiptastofnunar sem hefur eftirlit með þessum markaði hvernig og hvort skerpa skuli þær reglur sem hér um ræðir. En af minni hálfu fer ekki á milli mála að við ætlumst til þess að fjarskiptafyrirtækin standi sig.