133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[15:03]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til nýrra vegalaga. Það var samið af nefnd sem skipuð var af samgönguráðherra þann 17. janúar 2006 í því skyni að endurskoða vegalögin, nr. 45/1994, og skila niðurstöðum í formi frumvarps til nýrra vegalaga.

Aðdragandi að þessari endurskoðun vegalaganna er nokkuð lengri, frá árinu 2003 þegar samgönguráðherra skipaði vinnuhóp til að fara yfir gildandi vegalög. Í áfangaskýrslu vinnuhópsins sem skilaði í nóvember 2003 er lagt til að heildarendurskoðun vegalaga fari fram frekar en breytingar á einstökum ákvæðum þeirra. Í skýrslunni eru rakin ýmis sjónarmið um þá þætti sem taka mætti til skoðunar við endurskoðun laganna. Við samningu frumvarpsins sem hér er kynnt var horft til þeirrar áfangaskýrslu.

Í nefndinni sem skipuð var til að endurskoða vegalögin áttu sæti 11 nefndarmenn víðs vegar að úr þjóðfélaginu. Má þar nefna alþingismenn, bæjarfulltrúa, fulltrúa Vegagerðarinnar, Umferðarstofu, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Samtaka atvinnulífsins. Einnig störfuðu með nefndinni starfsmenn Vegagerðarinnar og samgönguráðuneytisins.

Niðurstaða þessa nefndarstarfs var tillaga að frumvarpi til nýrra vegalaga sem nefndin skilaði með bréfi til mín þann 11. október 2006. Við samningu frumvarpsins hafði nefndin hliðsjón af áðurnefndri áfangaskýrslu og var lögð áhersla á að skoða stjórnskipulag og verkaskiptingu með hliðsjón af kröfum um aðskilnað stjórnsýslu og þjónustu.

Nefndin skoðaði einnig uppbyggingu laganna með það fyrir augum að hafa meiri aðskilnað milli ákvæða um Vegagerðina og ákvæða um veghaldið. Einnig skoðaði nefndin flokkun vega, skipulagsmál og samskipti Vegagerðar og sveitarfélaga.

Við endurskoðun frumvarpsins var sérstaklega litið til umferðaröryggismála og aukinna krafna á því sviði sem og umhverfismála, svo sem hljóðvistar í þéttbýli með hliðsjón af kostnaðar- og verkaskiptingu milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaganna.

Í frumvarpi því sem nefndin lagði til er m.a. nýr flokkur vega, sveitarfélagavegir, sem tekur yfir alla vegi sem samkvæmt gildandi lögum eru safnvegir auk hluta þeirra vega sem kallast tengivegir. Lagði nefndin til tilflutning á veghaldi þessara vega til sveitarfélaga. Samhliða var lagt til að sveitarfélögin fengju úthlutað fé af mörkuðum tekjustofnum þeirra til vegagerðar og að gerð yrði grein fyrir heildarfjárveitingu þeirra í vegáætlun. Var jafnframt gert ráð fyrir að þetta ætti sér hæfilegan aðdraganda og því kveðið á um það í bráðabirgðaákvæði samkvæmt tillögunum að þetta ákvæði taki ekki gildi fyrr en árið 2009 og að yfirfærslan gæti tekið allt að tvö ár frá þeim tíma eða allt til ársins 2011.

Ekki náðist hins vegar samstaða innan nefndarinnar um þetta atriði frumvarpsins og skiluðu þrír nefndarmenn séráliti þar sem fram kom að þeir teldu ótímabært að færa verkefni á sviði vegamála frá ríki til sveitarfélaga þar sem það mál væri enn órætt á vettvangi sveitarfélaganna. Í sérálitinu er tekið fram að ekki sé lagst gegn þessari hugmynd en til að svo megi verða þurfi að kynna málið betur fyrir sveitarstjórnarmönnum, einnig verði fjármögnun að liggja ljósari fyrir og vera betur tryggð en frumvarpið gerir ráð fyrir.

Eftir að nefndin hafði skilað áliti sínu fór fram áframhaldandi vinna við frumvarpsdrögin hjá starfsmönnum samgönguráðuneytis og Vegagerðarinnar og voru m.a. athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins unnar á þeim vettvangi.

Vegna framangreinds sérálits þriggja nefndarmanna var ákveðið að hverfa frá tillögunni um tilfærslu veghalds til sveitarfélaganna. Ég taldi ekki skynsamlegt að ganga gegn sjónarmiðum fulltrúa sveitarfélaganna og féll þess vegna frá þeim hugmyndum sem uppi voru. Í staðinn er lagt til að Vegagerðinni sé heimilt að fela sveitarstjórn veghald ákveðinna vega innan sveitarfélagsins, svokallaðra héraðsvega, sem er einn undirflokkur þjóðvega, ef þess væri óskað af hálfu sveitarstjórna á viðkomandi stað. Er jafnframt lagt til að eigi slíkur tilflutningur veghalds sér stað renni fjárveitingar sem ætlaðar eru til þessara vega óskertar til sveitarfélagsins sem tekur að sér veghaldið. Með þessu var verið að koma til móts við þau sveitarfélög sem óska eftir því að taka að sér veghald innan sveitarfélagamarkanna.

Eftir að frumvarpið var kynnt í ríkisstjórn voru gerðar tvær breytingar á því vegna athugasemda frá umhverfisráðuneytinu. Um er að ræða breytingar á 2. mgr. 7. gr., en þar er fjallað um heimild Vegagerðarinnar til að gera vegaskrá yfir aðra vegi en þjóðvegi. Breytingin á ákvæðinu felst í því að svokallaðir vegir og vegslóðar breytist í vegi í náttúru Íslands.

Einnig var gerð breyting á 41. gr., um að við lagningu og viðhald vega skuli þess gætt að valda ekki meiri áhrifum á umhverfi og samfélagi en nauðsynlegt er. Að ábendingu umhverfisráðuneytisins var tekin út tilvísun til samfélagsins þar sem tilvísun til umhverfis taki jafnframt til samfélagsins í heild en að öðru leyti er ákvæðið óbreytt.

Greinargerð með frumvarpinu var jafnframt breytt til samræmis við þær ábendingar sem komu frá umhverfisráðuneytinu.

Að auki voru gerðar tvær breytingar vegna ábendinga úr landbúnaðarráðuneyti. Snýr önnur þeirra að ákvæði um bann við lausagöngu búfjár en í frumvarpstillögunni var bannið útvíkkað til þjóðvega. Í gildandi lögum nær það til stofnvega og tengivega sem eru flokkaðir innan þjóðvega. Var þá horfið frá þeirri útvíkkun þannig að það er áfram látið ná eingöngu til þessara tveggja vegflokka.

Hin breytingin varðar eignarnámsheimildina þar sem í frumvarpsdrögunum hafði verið horfið frá því að ráðherra gæti heimilað eignarnám vegna hvers konar einkavega og stíga eins og heimilt er samkvæmt gildandi lögum. Nauðsynlegt var talið að hafa slíka heimild áfram í lögunum og var henni því bætt við vegna eignarnámsheimildar í 37. gr. frumvarpsins. Greinargerð með frumvarpinu var einnig breytt til samræmis við þessar breytingar. Ég tel ástæðu til að geta þessa vegna þess að hér er um mikilsverð atriði að ræða.

Í frumvarpinu, eins og það er hér lagt fram, er að finna ýmis nýmæli og eru þau helstu eftirfarandi:

Í fyrsta lagi er lagt til það nýmæli að kveða sérstaklega á um hlutverk Vegagerðarinnar. Í gildandi vegalögum segir að Vegagerðin sé veghaldari þjóðvega. Að öðru leyti er hlutverk stofnunarinnar ekki skilgreint sérstaklega, heldur er það að finna í einstökum ákvæðum á víð og dreif í löggjöfinni.

Hjá vegalaganefndinni kom til skoðunar hvort ástæða væri til að gera breytingar á skipan laga um Vegagerðina og hlutverk hennar. Kom þar tvennt til greina, annars vegar að sett yrðu sérstök lög um stofnunina og hlutverk hennar eða kveða á um þetta í vegalögum. Nefndin ákvað að taka síðari kostinn og er því hér í frumvarpinu lagt til það nýmæli að kveðið er á um hlutverk Vegagerðarinnar í sérstöku ákvæði 5. gr.

Það er þó ekki um tæmandi talningu að ræða, heldur eru einungis helstu verkefni stofnunarinnar tilgreind og gert ráð fyrir að nánar megi útfæra þau með reglugerð. Með þessu er ekki verið að leggja til neinar róttækar breytingar á hlutverki Vegagerðarinnar eins og það er nú. Hlutverk hennar verður áfram framkvæmd vegamála og veghald, aðstoð við mótun stefnu stjórnvalda í samgöngumálum, umsjón og eftirlit með útboðum almenningssamgangna sem njóta ríkisstyrkja og framkvæmd er varða leyfisskylda starfsemi sem Vegagerðinni er falin lögum samkvæmt.

Þær breytingar sem verða á hlutverki stofnunarinnar endurspeglast fyrst og fremst í ákvæðum frumvarpsins almennt þar sem mikil áhersla er lögð á umferðaröryggissjónarmið og er Vegagerðinni falið ákveðið hlutverk er það varðar enda heyra umhverfisöryggismál undir samgönguráðuneytið.

Þá er rétt að nefna það nýmæli að Vegagerðinni er fengin heimild til að taka þátt í stofnun félags sem tekur að sér að sinna verkefnum sem stofnuninni eru falin. Þetta er í takt við þá þróun að verkefni opinberra stofnana eru að flytjast í æ ríkara mæli í hendur þriðja aðila og því rétt að þessi heimild sé fyrir hendi alveg skýr og klár.

Í öðru lagi eru lagðar til breytingar er varða flokkun vega. Þær breytingar sem lagðar eru til miða að því að flokkun vega sé skýrari og heildstæðari en í gildandi lögum og er megináherslan lögð á samfellt vegakerfi alls landsins.

Meðal helstu breytinga er lagt til að vegakerfi landsins skiptist í fjóra meginflokka, þjóðvegi, sveitarfélagavegi, einkavegi og almenna stíga. Þjóðvegum er síðan skipt upp í fjóra undirflokka, stofnvegi, tengivegi, héraðsvegi og landsvegi. Almennir stígar skiptast í reiðstíga annars vegar og hjólreiða- og göngustíga hins vegar. Þessar breytingar eiga að gera flokkun vega skýrari og heildstæðari en er í gildandi lögum. Er megináherslan á samfellt vegakerfi landsins og verður með þessu til samfellt flokkað vegakerfi sem nær til allra þéttbýlisstaða og byggðra bóla utan þéttbýlis auk þeirra flugvalla og hafna sem eru mikilvægar fyrir flutninga- og ferðaþjónustu.

Meðal helstu nýmæla annarra er nýr vegflokkur sem kallast sveitarfélagavegir og nýr undirflokkur þjóðvega sem eru héraðsvegirnir. Sveitarfélagavegir eru vegir í þéttbýli sem eru í umsjón sveitarfélaga og kallast samkvæmt gildandi lögum almennir vegir. Auk þess munu teljast til þess vegflokks nokkrir vegir sem í dag eru stofn- eða tengivegir.

Héraðsvegir eru þjóðvegir og teljast til þeirra vegir sem samkvæmt gildandi lögum eru hluti af tengivegum en auk þess er heimilt að fella þar undir vegi að stórum sumarbústaðahverfum. Það er nýmæli.

Þá er lagt til það nýmæli varðandi einkavegi að kveðið er á um eignarhald þeirra og er gert ráð fyrir að slíkir vegir geti einnig verið í eigu opinberra aðila.

Einnig er það nýmæli að skýrar er kveðið á um stöðu almennra stíga og að þeir séu hluti af vegakerfi landsins. Til almennra stíga teljast göngu-, hjólreiða- og reiðstígar sem ætlaðir eru til almennrar umferðar en tilgangur þess er m.a. að stuðla að auknu öryggi óvarinnar umferðar.

Í þriðja lagi eru gerðar breytingar er varða veghald vega. Er þar fyrst að nefna að ákvæðum um veghald er skipað í sérstakan kafla um veghald en svo er ekki í gildandi lögum. Þykir skýrara að hafa á einum stað ákvæði þar sem skýrt er kveðið á um veghaldið sjálft, skyldur veghaldara og með hvaða hætti haft sé eftirlit með veghaldi og úrræði ef út af er brugðið.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem skýra eiga ábyrgð og forræði á veghaldi. Sú meginregla gildir áfram að veghald er í höndum þess sem telst eigandi eða umsjónaraðili vegar. Er skýrt kveðið á um hver er veghaldari viðkomandi vegflokks og þá meginskyldu hans að bera ábyrgð á veghaldinu en ekkert sambærilegt ákvæði er í gildandi lögum. Í samræmi við áherslur frumvarpsins um öryggi umferðar og að umferð eigi greiða og góða leið er lagt til að veghaldara beri að gæta umferðaröryggis- og umhverfissjónarmiða eins og mögulegt er við veghaldið. Jafnframt er áréttað að taka skuli tillit til náttúru og minjaverndar veghaldsins og er það í samræmi við kröfur tímans um verndun náttúrunnar. Gildir þetta um alla veghaldara en hver það er ræðst af flokkun vega. Þannig hefur Vegagerðin veghald þjóðvega, sveitarfélögin veghald sveitarfélagavega og eigendur einkavega veghald þeirra. Áfram er gert ráð fyrir að vegamálastjóri hafi heimild til að framselja veghald einstakra kafla þjóðvega til þriðja aðila og honum er þar með heimilt að gera samninga um einkaframkvæmd — og vil ég sérstaklega árétta það — tiltekinna vegamannvirkja eins og nánar er ákveðið í samgönguáætlun. Sérstaklega er kveðið á um heimild vegamálastjóra til að fela sveitarstjórn að taka að sér veghald allra héraðsvega innan síns sveitarfélags og er með því verið að koma til móts við þau sveitarfélög sem hafa óskað eftir að hafa forræði á slíku eins og fyrr var getið um.

Í kafla frumvarpsins um veghaldið er einnig kveðið á um eftirlit með veghaldi annarra vega en þjóðvega sem kostaðir eru af fé ríkisins og ætlaðir eru almenningi til frjálsrar umferðar. Vegagerðin hefur fengið það hlutverk enda verður að telja stofnunina best til þess fallna þar sem hún hefur með höndum veghald allra þjóðvega landsins. Hér er rétt að benda á það nýmæli að kveðið er á um að eftirlit með veghaldi Vegagerðarinnar sé á vegum sjálfstæðrar deildar innan stofnunarinnar sem heyri beint undir vegamálastjóra. Eftirlit er með því aðskilið frá öðrum þáttum í starfsemi Vegagerðarinnar og er í samræmi við kröfur um innra eftirlit í nútímastjórnsýslu.

Í fjórða lagi, virðulegi forseti, er lögð til heimild til gjaldtöku af umferð. Mikilvægt nýmæli er að finna í frumvarpinu sem snýr að gjaldtöku af umferð en ekkert slíkt er í gildandi vegalögum. Er lagt til að kveðið verði á um almenna heimild til gjaldtöku af umferð um þjóðvegi þannig að ekki sé þörf á að afla sérstakrar lagaheimildar hverju sinni til einstakra framkvæmda, eins og nú er, eins og var gert vegna Hvalfjarðarganga, samanber lög nr. 45/1990. Það skal tekið fram að hér er ekki verið að setja opna gjaldtökuheimild til handa veghaldara til að ákveða sjálfur að framkvæmd skuli fjármögnuð með gjaldi af umferð. Til að fá heimild til gjaldtöku þarf að gera tillögur um slíkt í samgönguáætlun og fá samþykki Alþingis hverju sinni. Er með þessu gert ráð fyrir að fjallað verði um alla þætti fjármögnunar þjóðvega innan ramma samgönguáætlunar.

Sú gjaldtaka sem um er að ræða er annars vegar veggjald, sem er gjald fyrir notkun tiltekins vegar í tiltekinn tíma í tiltekið skipti. Má sem dæmi um það nefna gjaldtöku í Hvalfjarðargöngum. Hins vegar er notkunargjald sem er greitt fyrir notkun, t.d. mælt eftir eknum kílómetrum, tíma dags og vegna stærðar ökutækis. Gjaldtökuheimildir þessar eru sniðnar að meginreglum tilskipunar nr. 1999/62/EB eins og henni hefur verið breytt með tilskipun 2006/38/EB og eiga sömu sjónarmið við um gjaldtökuheimildir. Má þar nefna þá meginreglu að óheimilt er að raska jafnræði þeirra sem nota vegamannvirkin og ekki er heimilt að innheimta samhliða veggjald og notkunargjald af sama vegkaflanum.

Í fimmta lagi eru lögð til ýmis nýmæli er varða kostnaðarskiptingu vegna aðgerða til að draga úr áhrifum umferðarhávaða í næsta nágrenni þjóðvega í þéttbýli. Hér er um mikilvægt nýmæli að ræða enda er umferðarhávaði vaxandi vandamál, einkum í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu, og hafa álitaefni risið um það hver beri ábyrgð á aðgerðum sem nauðsynlegar eru til að uppfylla kröfur laga og reglugerða um umferðarhávaða. Í frumvarpinu eru lögð til ýmis nýmæli sem eiga að fara bil beggja og vera nokkurs konar málamiðlun milli mismunandi sjónarmiða um skiptingu kostnaðar við mannvirkjagerð sem er nauðsynleg til að skýla byggð fyrir umferðarhávaða. Er ákvæðum þessum ætlað að stuðla að sátt um skiptingu þess kostnaðar milli Vegagerðarinnar og sveitarfélaga og má í stórum dráttum segja að skiptingin byggi á því hvort nauðsyn hávaðavarna verði rakin til aðgerða við vegi eða skipulag byggðarinnar.

Til að skýra þetta nánar má taka sem dæmi að ef nýr vegur er lagður um byggð sem fyrir er má segja að nauðsyn hávaðavarna verði rakin beinlínis til vegarins og því eðlilegt að veghaldarinn kosti þær. Þegar hins vegar er nauðsynlegt að grípa til hávaðavarna vegna byggðar sem skipulögð er að vegi sem fyrir er eða hefur verið ákveðin í skipulagi er eðlilegt að sveitarfélagið sem ber ábyrgð á skipulaginu kosti varnirnar. Má því segja að frumvarpið geri ráð yfir þeirri meginreglu að saman fari ábyrgð á kostnaði og forræði á skipulagi.

Eins og áður hefur verið rakið er frumvarp þetta mjög litað af sjónarmiðum um umferðaröryggi og greiða og góða leið umferðar. Því þykir rétt að hafa ákvæði um skiptingu kostnaðar vegna nauðsynlegra aðgerða sem grípa þarf til þegar tryggja þarf umferðaröryggi, sérstaklega vegna fyrirsjáanlegrar aukningar umferðar samhliða skipulagi byggðar og einnig ef umferð eykst umfram það sem áður hefur verið gert ráð fyrir í umferðarspám.

Í sjötta lagi er lagt til það nýmæli að heimila að veita fé til almennra stíga af fjárveitingum til vegagerðar. Samkvæmt núgildandi lögum er heimilt að veita fé til reiðstíga af vegáætlun en ekki er gert ráð fyrir fjárveitingum til annars konar stíga. Í frumvarpinu er lagt til að þessi heimild nái einnig til annarra almennra stíga, þ.e. göngu- og hjólreiðastíga sem liggja meðfram þjóðvegum og opnir eru almenningi til frjálsrar umferðar. Þetta er nýmæli og mikil endurbót því að hér er tekið tillit til umferðaröryggis þar sem umferð um stíga fer alls ekki saman við hina miklu umferð bifreiða, sérstaklega á vegunum í kringum Reykjavík.

Í sjöunda lagi eru lögð til nýmæli er varða málsmeðferð sem ber að viðhafa við eignarnám. Í frumvarpinu eru ákvæði um eignarnámsheimild Vegagerðarinnar löguð að réttarþróun en ekki eru gerðar neinar efnislegar breytingar á eignarnámsheimildinni sem slíkri. Breytingarnar eru fyrst og fremst þær að kveðið er á um ákveðna málsmeðferð sem Vegagerðinni ber að viðhafa við eignarnám en slík ákvæði skortir í gildandi vegalögum. Þetta er fyrst og fremst til þess að auka réttaröryggi borgaranna sem eignarnám beinist að og stuðla að vönduðum undirbúningi eignarnámsákvarðana og málsmeðferð allri. Eins og í gildandi lögum er Vegagerðinni falin eignarnámsheimild vegna lands undir þjóðvegi en samþykki þess ráðherra sem fer með vegamál þarf fyrir eignarnámi undir einkavegi og almenna stíga.

Í áttunda lagi eru lögð til nýmæli er varða skipulag, hönnun, lagningu og viðhald vega og öryggi umferðar. Samráð skipulagsyfirvalda við Vegagerðina og aðkoma stofnunarinnar að skipulagsgerð er mjög mikilvæg en gildandi vegalög kveða ekki sérstaklega á um þetta nema að hafa beri samráð við Vegagerðina við ákvörðun um legu veglína á skipulag. Í frumvarpinu er því lagt til að hlutverk Vegagerðarinnar hvað varðar aðkomu að skipulagi verði skýrt þannig að ekki leiki vafi á hlutverki stofnunarinnar. Er ákvæðum þessum ætlað að stuðla að enn betra samstarfi Vegagerðarinnar og skipulagsyfirvalda við að tryggja greiða og örugga umferð.

Kröfur vegna ástands þjóðvegakerfisins og flutningsgetu þess, öryggis umferðar og tillitssemi gagnvart umhverfi hafa farið sífellt vaxandi en ákvæði núgildandi laga eru fáorð um þetta efni. Undanfarna áratugi hafa hins vegar orðið stórstígar framfarir á þjóðvegakerfinu og er óhætt að tala um byltingu í því sambandi. Því er lagt til með frumvarpi þessu að kveða á um með hvaða hætti auknum kröfum til veghaldara verði fundinn lagalegur rammi og er með því stefnt að auknu öryggi vegfarenda og gæðum vegamannvirkjanna. Kveðið er á um þau meginatriði sem taka skuli mið af við lagningu og viðhald vega og gert ráð fyrir að setja megi reglur um lágmarkskröfur til vega sem almenningur á aðgang að og að veghaldari beri ábyrgð á að þær kröfur séu uppfylltar.

Einn af mikilvægustu þáttunum í endurskoðun vegalaganna er öryggi umferðar og þarfnast ákvæði gildandi laga um það endurskoðunar í samræmi við þá áherslu sem nú er lögð á mikilvægi aukins umferðaröryggis. Því eru lagðar til breytingar sem stuðla að aukinni áherslu á umferðaröryggismál við framkvæmd vegamála. Má þar sérstaklega nefna heimild til ráðherra um að setja reglur um svokallaða umferðaröryggisstjórnun en í því felst m.a. að gera umferðaröryggismat á öryggisþáttum nýrra vega, umferðaröryggisrýni sem felst í rýni hönnunargagna á mismunandi stigum hönnunar, lagfæring svokallaðra svartbletta í umferðinni og umferðaröryggisúttekt. Mikið af þessu er þegar unnið hjá Vegagerðinni en rétt þykir að þessi skylda komi skýrt fram í lögum, ekki síst vegna almennra krafna um aukið umferðaröryggi.

Að lokum er rétt að geta þess að lagt er til það nýmæli að heimila Vegagerðinni að taka þátt í kostnaði við undirgöng fyrir búfé. Það markmið að auka umferðaröryggi er einnig lagt til grundvallar því nýmæli frumvarpsins að kveðið er skýrt á um heimild fyrir Vegagerðina til að taka þátt í kostnaði við gerð undirganga fyrir búfé. Víða háttar svo til að reka þarf búfé yfir vegi þar sem umferð er mikil og umferðarhraði er einnig mikill. Verði frumvarpið að lögum verður Vegagerðinni heimilt að bregðast við með því að taka þátt í kostnaði við gerð undirganga undir viðkomandi vegi í samstarfi við landeigendur hverju sinni. Gerð ganga af þessu tagi hefur verið reynd og má ætla að ágæt reynsla sé af þeim þar sem á hefur reynt til þessa. Ekki er vafi á að auka má öryggi með gerð undirganga undir veg en allnokkur kostnaður getur verið af því og má ætla að frumvarpið geti stuðlað að fjölgun slíkra ganga undir umferðarmestu vegi.

Hér hefur stuttlega verið gerð grein fyrir helstu nýmælum frumvarpsins, virðulegur forseti, og breytingum frá gildandi vegalögum. Ég ætla ekki að hafa orð mín fleiri en legg áherslu á að um mikilvæga löggjöf er að ræða hvað allt veghald varðar þar sem tekið er mið af umferðaröryggi og að umferð eigi greiða og góða leið hvar sem því verður við komið auk þess sem gætt sé að áhrifum á samfélagið í heild. Eru þetta allt sjónarmið sem skipta okkur miklu máli og því mikilvægt að settur verði ákveðinn lagarammi um þetta sem hægt er að vinna eftir.

Virðulegur forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. samgöngunefndar.