133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[15:28]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Andsvar mitt snýr eiginlega að því að fá frá hæstv. samgönguráðherra, áður en hér kemur til almennrar umræðu, nánari umfjöllun um e-lið 5. gr. sem fjallar um umsjón með rannsóknum og þróun á sviði vegamála annars vegar, og þá líka með tilliti til 41. gr. VIII. kafla, þar sem segir almennt:

„Við lagningu og viðhald vega skal þess gætt að ekki sé valdið meiri áhrifum á umhverfi en nauðsynlegt er til að unnt sé að ná markmiðum vegalagningarinnar á sem hagkvæmastan hátt og þannig að öryggi umferðar verði sem mest.“

Hæstv. forseti. Í nýlegu svari sem ég fékk við fyrirspurn um viðhald á vegum sem lengst af hafa gengið undir nafninu ó-vegirnir, Óshlíð, Ólafsvíkurenni og Ólafsfjarðarmúli, kom fram að viðhald á Óshlíð var náttúrlega allt að tífalt það sem var á hinum vegunum sem lagðir höfðu verið, að vísu kannski ekki alveg nákvæmlega samanburðarhæft tímabil, en þegar tekið er tillit til þess hverju menn voru að reyna að ná með lagfæringum á Óshlíð, með vegkápum, lagfæringu vegarins og öðru slíku, þá er greinilegt að viðhald á þeim vegi keyrir fram úr öllu sem menn gerðu kannski ráð fyrir. Sérstaklega er áberandi að hönnun annarra vega sem leystu þessa ó-vegi af hólmi hefur tekist þannig að viðhald þar er miklu minna.

Þess vegna spyr ég og óska eftir nánari umfjöllun frá hæstv. ráðherra hvort ekki (Forseti hringir.) sé nú þegar uppi sú staða að auka þurfi rannsóknir á vegagerð og veghaldi.