133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[15:33]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, hæstv. samgönguráðherra getur örugglega treyst því að hann á dygga stuðningsmenn fyrir bættu vegakerfi á landinu í röðum okkar í Frjálslynda flokknum.

Það sem mér finnst hins vegar mjög áhugavert í svarinu sem ég vitnaði til er hversu staðreyndirnar tala því máli að lítið viðhald er í jarðgöngum. Má þar bæði horfa á viðhaldskostnaðinn í Hvalfjarðargöngum en það eru þau jarðgöng sem eru mest ekin hér á landi. Viðhaldskostnaðurinn í þeim á tímabilinu frá 1998 til 2005 er 175 milljónir en er hins vegar í Vestfjarðagöngum, á tímabilinu frá 1997 til 2005, 82 milljónir eða 10% af veghaldinu á Óshlíð, að vísu er á lengra tímabili, en þar var verið að reyna að gera þann veg öruggan.

Ég vek á þessu athygli og ég veit að hæstv. samgönguráðherra hefur örugglega skoðað þessar tölur líka. Mér finnst sú staða greinilega vera komin upp að Vegagerðin verður að fara að meta það af miklu meiri kostgæfni til framtíðar varðandi vegstæði á Íslandi hvaða leiðir eru valdar með tilliti til þess hver kostnaðurinn verður á lengra tímabili.

Ég fæ ekki annað lesið út úr þessu en það sé mjög áhugaverður kostur að nýta sér jarðgöng þar sem því verður við komið þar sem greinilegt virðist vera að sá stöðugi hiti sem er í jarðgöngum, engin úrkoma, enginn saltburður o.s.frv., gerir það að verkum að viðhald á slitlagi virðist vera miklu, miklu minna en á þjóðvegum eða akstursleiðum með sambærilegri umferð sem er ofan jarðar og þarf að mæta breytilegu veðurfari og þar að auki saltburði.