133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[16:34]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Andsvar mitt var vegna þess að hv. þingmaður talaði eins og honum væri algerlega ókunnugt um hvers vegna Hvalfjarðargöngin voru grafin eða hvernig sú framkvæmd var grundvölluð. Það er alveg nauðsynlegt að minna hv. þingmann á það. Hins vegar blasir við núna að gjaldið mun lækka með ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lækkun á virðisaukaskatti. Virðisaukaskatturinn mun lækka úr 14% í 7% 1. mars og þar með mun gjaldið í göngin lækka sem nemur þeim virðisaukaskatti eftir þeim ákvörðunum sem stjórn Spalar tekur hvað varðar gjaldtökuna. Það er á valdi hennar.

Hins vegar er alveg ljóst að þessi samningur var grundvöllur að því að tekin voru lán til þessarar framkvæmdar, það voru gerðir lánasamningar sem stjórn Spalar getur ekki hlaupið frá og innheimta gjaldsins er til að greiða niður þessi lán. Það liggur alveg ljóst fyrir og það eiga allir að vita mjög vel. Ég veit að þeim ágætu stjórnarmönnum og forsvarsmönnum Spalar sem stóðu fyrir þessari mikilvægu og stórkostlegu framkvæmd er alveg ljóst hver ábyrgð þeirra er við að endurgreiða lánin á grundvelli þeirra lánasamninga sem gerðir voru. Það er verkefni sem verður að sjálfsögðu að vinna og gjaldið stendur undir þeirri endurgreiðslu.

Um frekari gjaldtöku liggur ekkert fyrir. Við erum að fjalla um ný vegalög sem skapa möguleika á einkaframkvæmdum, skapa möguleika á nýrri aðferð við gjaldtöku, að leggja niður þungaskattinn (Forseti hringir.) og olíugjaldið en taka upp annars konar mælingu sem hv. þm. Kristján Möller tók (Forseti hringir.) alveg sérstaklega undir að ætti viðhafa.