133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

vegalög.

437. mál
[17:33]
Hlusta

samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þetta verður allt að vega saman, sérstaklega þarf auðvitað að gæta að öllu sem snýr að umferðaröryggismálum, og uppbygging vegakerfisins í samstarfi við sveitarfélögin þarf að vera á þeim nótum að við höfum öryggisþættina í fyrirrúmi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við stöndum þannig að verki og ég efast ekki um að allir aðilar eru tilbúnir til þess og vilja gera það.

Það er hins vegar alveg ljóst að það er dálítið breytt veröld í þessu öllu saman á vettvangi samgönguráðuneytisins og Vegagerðarinnar þegar umferðaröryggismálin öll eru á einni hendi. Vegagerðin þarf að huga að skipulagsmálum og uppbyggingu vegakerfisins með það svo rækilega í huga að umferðaröryggismálin séu þar ofarlega, og í rauninni efst, á blaði.

Við þurfum að huga að þessu og við meðferð nefndarinnar held ég að hv. þingmaður ætti að tefla þessu sterkt fram.