133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

tekjuskattur.

53. mál
[17:40]
Hlusta

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingar á lögum um tekjuskatt, með síðari breytingum. Þetta er mál á þskj. 53 og flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Össur Skarphéðinsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Jón Gunnarsson, Katrín Júlíusdóttir og Þórunn Sveinbjarnardóttir.

Efni þessa frumvarps er tvíþætt, tvö efnisatriði. Tilgangur frumvarpsins er að bæta barnabótakerfið með það að markmiði að draga verulega úr þeirri gífurlegu skerðingu sem er til staðar en tekjutengdar barnabætur skertust á síðasta ári, eða byrjuðu að skerðast, við um 77 þús. kr. tekjur hjá einstæðu foreldri og um 155 þús. kr. samanlagðar tekjur hjóna eða sambúðaraðila.

Þetta tekjuviðmið hækkaði eitthvað um síðustu áramót sem ég mun koma inn á síðar og það var fyrir tilstilli og kröfu verkalýðshreyfingarinnar í tengslum við kjarasamninga.

Í síðara efnisatriði þessa frumvarps er stigið veigamikið skref í þá átt að hækka aldursmörk ótekjutengdra barnabóta sem eru nú einungis greiddar að 7 ára aldri barns.

Í þessu frumvarpi er lagt til að skerðingarmörkin verði miðuð við lágmarkstekjutryggingu í dagvinnu. Óskertar barnabætur yrðu þá greiddar einstæðum foreldrum með tekjur að 125 þús. kr. á mánuði, þ.e. 1,5 millj. kr. í árstekjur, og hjón með tekjur að 250 þús. kr. á mánuði, þ.e. 3 millj. kr. í árstekjur, fengju einnig óskertar barnabætur.

Hér er verulega verið að rýmka tekjumörkin en það er auðvitað til skammar hvað þau hafa verið lág á umliðnum árum, ekki nema 77 þús. kr. á síðasta ári eins og ég nefndi og er verið að hækka hér upp í 125 þús. kr., en síðan voru það 155 þús. hjá hjónum en hér er verið að hækka þau upp í 250 þús. þannig að hjón með tekjur að 250 þús. fá óskertar barnabætur, þ.e. við 3 millj. kr. árstekjur byrja þær að skerðast.

Með þessari breytingu mundu um 31,3% einstæðra foreldra og 10,5% hjóna fá óskertar bætur af heildarfjölda þeirra sem fá barnabætur. Til samanburðar má geta þess að á árinu 2003 fengu 11,3% einstæðra foreldra óskertar barnabætur en yrðu með þessari breytingu 31,3%. Sá fjöldi einstæðra foreldra sem fengi óskertar barnabætur mundi því þrefaldast. Á árinu 2003 fengu 3% hjóna óskertar barnabætur en með þessari breytingu mundi fjöldinn ríflega þrefaldast og fara í 10,5%.

Það yrði til þess að einstæðum foreldrum og hjónum sem fá óskertar barnabætur fjölgaði um 2 þús. í hvorum hópi og að fjöldi barna sem óskertar barnabætur næðu til yrði um 4.700.

Eins og heyra má af þessu er hér um að ræða verulegar breytingar. Það er þó vert að geta þess að á árinu 2007, eins og ég nefndi, ákvað ríkisstjórnin í tengslum við kjarasamninga á síðasta ári að draga nokkuð úr tekjutengingu bóta. Engu að síður er miðað áfram við mjög lágar tekjur, 92 þús. um síðustu áramót og þá byrja barnabætur að skerðast hjá einstæðu foreldri, voru 77 þús. og eftir breytinguna núna um áramótin byrjar skerðingin hjá hjónum við 185 þús. í stað 155 þús.

Hér er verið að gera verulegar breytingar og rýmkun á þessi tekjuviðmiði sem mun breyta mjög stöðu barnafjölskyldna ef á þetta verður fallist. Hér er ekki um háar fjárhæðir að ræða, miðað við 125 þús. hjá einstæðum foreldrum og 250 þús. hjá hjónum, en samt er breytingin veruleg frá því sem verið hefur eins og ég gat um.

Af því að við ræddum í gær um barnafátækt segir það sig sjálft að ef ríkisstjórnin meinar eitthvað með því að vilja fara í aðgerðir til að bæta stöðu barnafjölskyldna er þetta auðvitað leiðin, að breyta verulega tekjuviðmiði, virðulegi forseti, á skerðingarmörkunum og einnig að hækka aldurinn hjá þeim sem fá greiddar ótekjutengdar barnabætur.

Hlutur ótekjutengdra barnabóta af heildargreiðslu sem allir foreldrar barna fá, óháð tekjum, var um 56% á árinu 1995 þegar núverandi ríkisstjórn tók við en var komið niður í um 20% árið 2005. Hluti ótekjutengdra barnabóta sem allir fá hefur sem sagt minnkað verulega í tíð þessarar ríkisstjórnar, þ.e. úr 56% í 20%.

Árið 1995 voru greiddar ótekjutengdar barnabætur til allra barna að 16 ára aldri en nú eru þær einungis greiddar til barna að 7 ára aldri. Þetta er veruleg breyting sem kom raunverulega í valdatíð þessarar ríkisstjórnar í upphafi, að hætta að greiða ótekjutengdar barnabætur til allra barna að 16 ára aldri.

Ég býst við að ekkert land sé hægt að finna sem greiðir eins lágar barnabætur og hér er gert og skerðingin er örugglega hvergi eins mikil og hérna. Þær eru raunverulega alls staðar ótekjutengdar og greiddar í flestum tilvikum börnum að 16 eða 18 ára aldri. Þar er um raunverulegar barnabætur að ræða, virðulegi forseti, en í höndum þessarar ríkisstjórnar hafa barnabæturnar orðið að láglaunabótum.

Með þessu frumvarpi er annað efnisatriði þar sem stigið er fyrsta skrefið í að hækka aldursviðmið sem er lagt til grundvallar greiðslu ótekjutengdra barnabóta. Ótekjutengdar barnabætur eru greiddar með börnum frá 0 til 6 ára aldurs en þær falla niður við 7 ára aldur barns. Í þessu frumvarpi er lagt til að ótekjutengdar barnabætur greiðist einnig með börnum 7 til 9 ára eða að 10 ára aldri barns sem er áfangi á þeirri leið að hækka enn frekar ótekjutengdar barnabætur. En við hljótum að stefna að því að greiða ótekjutengdar barnabætur með öllum börnum að 18 ára aldri.

Þegar miðað var við að ótekjutengdar barnabætur næðu til allra barna að 7 ára aldri var miðað við leikskólaaldurinn og til að mæta kostnaði af leikskóladvöl eða dagvistun. Það var undirliggjandi markmið með því að greiða ótekjutengdar barnabætur til allra að 7 ára aldri barns.

Hæstv. ráðherrum ætti þó að vera kunnugt um að af dvöl barna í grunnskólum hlýst ekkert minni kostnaður fyrir fjölskylduna en af leikskóladvöl. Hefur það verið reiknað út að áætla má að það sé ekki undir 240 þús. á skólaönninni ef með eru teknar íþróttir, tónlistarnám, heitar máltíðir o.s.frv. Þess vegna eru engin rök fyrir því, virðulegi forseti, að hætta greiðslum ótekjutengdra barnabóta við 7 ára aldur.

Nú eru greiddar ótekjutengdar barnabætur með 29.575 börnum að 7 ára aldri en með þeirri breytingu að hækka aldursviðmiðið og bæta við börnum frá 7 til 9 ára aldri, þ.e. að 10 ára aldri, yrði greitt með 42.567 börnum, þ.e. um 13 þús. fleiri en nú er. Það munar sannarlega um þetta, virðulegi forseti, til viðbótar við rýmkun á skerðingum. Ég hef látið reikna út hver heildarkostnaður er við þessar tvær breytingar og hann er um 1,6 milljarðar kr.

Virðulegi forseti. Mig undrar stundum hvernig stjórnarliðar hafa kjark til að koma hér upp í ræðustól, berja sér á brjóst og tala um að barnabætur hafi aukist, eins og var gert hér í ræðustól í gær í umræðunni um fátækt barna. Þá var kallað úr ræðustóli af stjórnarliðum sem komu upp, fleiri en einum og fleiri en tveimur, að barnabætur hefðu hækkað um 50%, virðulegi forseti.

Hver er staðreyndin í þessu máli? Ég hef látið reikna þetta allt saman út. Staðreyndin er sú að barnabætur skertust frá 1995 til 2005 um 10.450 millj., um liðlega einn milljarð á hverju einasta ári frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Barnabætur hafa hækkað frá 1995 um 14% meðan vísitala neysluverðs hefur hækkað um 41%. Þetta eru staðreyndir málsins og liggja fyrir reiknaðar út af hagfræðingi, barnabæturnar hafi verið skertar um liðlega einn milljarð á hverju ári frá því að þessi ríkisstjórn tók við. Þær hafa hækkað um 14% frá 1995 og vísitala neysluverðs um 41%.

Hvaðan fá þeir núna þessa 50% hækkun sem þeir tala um? Það er mjög mikilvægt að fólk átti sig á því og láti ekki glepjast af þessum tölum sem stjórnarliðar setja fram.

Hækkunin sem er komin núna milli áranna 2006 og 2007 er veruleg en hún er það bara á milli þessara tveggja ára. Það var verkalýðshreyfingin sem knúði fram þessa hækkun í tengslum við kjarasamninga. Þannig hækkuðu framlög til barnabóta úr ríkissjóði úr 6,8 milljörðum í 8,5 milljarða. Þetta er bara hækkun á milli áranna um 50%. Stjórnarliðar kjósa að gleyma öllum árunum frá 1995 til 2005 þar sem þeir skertu barnabætur um 10 milljarða og núna á kosningaári, örfáum mánuðum fyrir kosningar, eru þeir knúnir til þess af verkalýðshreyfingunni að hækka lítillega barnabætur og skila til baka kannski 1,5–2 milljörðum af þessum 10,5 sem þeir hafa skert barnabætur um á þessum tveim kjörtímabilum. Þetta eru staðreyndir málsins.

Ef við bara tökum barnabætur, hvernig þær voru sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, voru þær alveg til ársins 1996 yfir 1% af landsframleiðslu en fóru niður í 0,5%, þ.e. lækkuðu um helming af landsframleiðslu eftir að þessi ríkisstjórn tók við. Jafnvel núna, þó að verulega sé búið að hækka barnabæturnar milli þessara ára eins og ég nefndi, eru barnabæturnar einungis 0,72% af vergri landsframleiðslu.

Þetta eru staðreyndir málsins og væri auðvitað freistandi að taka hér fyrir vaxtabæturnar af því að ég er með útreikning um það líka hvað þær hafa verið skertar í tíð þessarar ríkisstjórnar.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um það, virðulegi forseti, að bæði barnabætur og vaxtabætur skipta gífurlega miklu máli fyrir fjölskyldurnar í landinu, ekki síst fyrir ungbarnafjölskyldur sem eru að koma sér þaki yfir höfuðið. Þessi ríkisstjórn hefur hvað eftir annað leyft sér að koma aftan að fólki, skerða vaxtabæturnar og kippa grundvellinum undan öllum greiðsluáætlunum fólks. Fólk gerir auðvitað greiðsluáætlanir þegar það fer út í að kaupa sér íbúð og reiknar með vaxtabótunum og síðan sker þessi ríkisstjórn þær niður ár eftir ár. Hið sama gerist með barnabæturnar sem fólk treystir á. Þær hafa verið skornar svo harkalega niður sem raun ber vitni.

Árið 1995 var miklu meira varið af fjármagni til barnabóta. Það var greitt með öllum börnum að 16 ára aldri en þá var miklu minna úr að spila hjá ríkissjóði en er í dag. Voru ekki nefndir 160 milljarðar sem ríkissjóður hefur meira núna en hann hafði fyrir nokkrum árum, áður en þessi ríkisstjórn komst til valda? 160 milljörðum meira hafa þeir úr að spila. Samt hafa þeir farið þannig með barna- og vaxtabæturnar.

Staðreyndin er sú, virðulegi forseti, að hvert sem litið er sjáum við þessa miklu gliðnun sem er í öryggisneti velferðarkerfisins sem er raunverulega við það að bresta víða vegna þess að ríkisstjórnin hefur séð til þess á þessum árum að velferðarkerfið drabbast niður og er orðið hreint ölmusukerfi að mínu viti. Það er svo þræltekjutengt, fátæktargildrurnar svo miklar að það er með ólíkindum.

Þannig skilur ríkisstjórnin við. Við skulum vona að þjóðin beri gæfu til að kjósa ekki þessa sömu ríkisstjórn yfir sig aftur til þess að hægt verði að fara að vinda sér í það þarfa verk að bæta fyrir misgjörðir ríkisstjórnarinnar og hvernig hún hefur lamað allt velferðarkerfið. Barnabæturnar eru kannski gleggsta dæmið um það.

Ég nefndi að í flestum löndum miðast greiðslur barnabóta við 18 ára aldurinn. Í tengslum við síðustu kjarasamninga hækkaði ríkisstjórnin aldurinn hjá þeim sem hafa tekjutengdar barnabætur, rétt að undirstrika það, úr 16 í 18 ára aldur. En ríkisstjórnin hefur ekki fallist á að hreyfa við aldursviðmiði varðandi ótekjutengdar barnabætur þótt full rök séu fyrir því eins og ég fór inn á í máli mínu vegna ýmiss kostnaðar sem fellur á heimilin vegna grunnskóla barna eins og ég hef hér lýst.

Í stuttu máli eru barnabætur í Danmörku hvorki tekjutengdar né skattskyldar og greiðast með öllum börnum 18 og yngri. Í Noregi eru barnabætur skattfrjálsar og án tekjutengingar og greiðast með öllum börnum 16 ára og yngri. Í Svíþjóð greiðast barnabætur vegna allra barna 16 ára og yngri. Barnabætur til barnmargra fjölskyldna eru hærri þegar börnin verða þrjú eða fleiri. Þær eru skattfrjálsar og án tekjutengingar. Þetta er alls staðar svona, virðulegi forseti, án tekjutengingar nema hér er þetta þræltekjutengt.

Það er ekki einu sinni að ríkisstjórnin skammist til þess að láta þó ekki skerðinguna byrja t.d. fyrr en við lágmarkslaun. Nei, hún fer neðar en það og hefur gert allar götur síðan stjórnin tók við. Að þetta skuli hafa verið 77 þús. kr. hjá einstæðu foreldri, sem er töluvert langt undir lágmarkslaunum, er hrein svívirða, virðulegi forseti.

Í Finnlandi greiðast barnabætur til 17 ára aldurs og fer fjárhæð bótanna eftir fjölda barna í hverri fjölskyldu. Bæturnar eru skattfrjálsar og án tekjutengingar. Eins og alls staðar.

Í aðildarríkjum OECD eru barnabætur án tekjutengingar í öllum löndum nema í Ástralíu, á Grikklandi, Ítalíu, Kanada, Portúgal og Spáni, auk Íslands. Þannig er þetta, virðulegi forseti. Aldursmörkin eru 16 eða 18 ár og skiptingin nokkuð jöfn.

Ég held að allir sjái að með því að bæta barnabótakerfið eru bætt verulega kjör barnafjölskyldunnar sem er veigamikill þáttur í því velferðarkerfi sem við jafnaðarmenn viljum búa landsmönnum. Við viljum ekki, eins og þessi ríkisstjórn hefur gert, færa þjóðina frá þessu norræna velferðarsamfélagi sem við höfum búið við lengst af.

Ríkisstjórnin er á góðri leið, alveg sama hvert litið er, með að færa okkur nær hinu bandaríska módeli. Það er hægt að taka fleira. Það er mjög freistandi, virðulegi forseti, þegar við erum að ræða velferðarkerfið að fara yfir það hvernig búið er að fara með skattkerfið, að hjá níu af hverjum 10 heimilum í landinu hefur skattbyrðin verið aukin en ekki hjá þeim sem mest hafa, hjá fjármagnseigendunum sem hafa milljarða og tugi milljarða á milli handanna, hundruð milljarða. Samt er þetta fólkið sem er hlíft við að borga nefskatt til Ríkisútvarpsins, hlíft við því að borga 6 þús. kr. í Framkvæmdasjóð aldraðra. Það er eitthvað að, virðulegi forseti, í samfélagi okkar þegar málin geta gengið svona fyrir sig.

Innst inni held ég að ríkisstjórnin skammist sín svolítið fyrir þetta, sérstaklega þegar við fórum hér yfir nefskattinn hjá RÚV, hvernig fjármagnseigendurnir sleppa þúsundum saman við að borga þennan nefskatt meðan honum er klínt á barnmargar fjölskyldur, kannski skatt upp á 60–65%. Á meðan sleppa þeir sem eru með tugmilljarðana.

Það er eitthvað að í samfélaginu, virðulegi forseti, þegar við komum að þessum skattamálum. Skattleysismörkin sem verkalýðshreyfingunni tókst að hífa upp úr 79 þús. í 90 þús. kr. í tengslum við síðustu kjarasamninga ættu að vera 137 þús. kr. í dag, og væru það ef ríkisstjórnin hefði ekki skert þau eins og raun ber vitni. Hún byrjaði á því, það var hennar fyrsta verk þegar hún komst til valda að skerða skattleysismörkin. Með því að skerða skattleysismörkin svona gífurlega hefur hún fengið inn í ríkissjóð einhvers staðar á milli 35 og 40 milljarða kr., virðulegi forseti, með því að hafa þetta af láglaunafólki, halda skattleysismörkunum í 79 þús. kr. eða hvað það nú var. Með því fékk ríkisstjórnin inn í kassann 35–40 milljarða — og hvernig hefur hún notað þá, virðulegi forseti? Hún hefur notað þá til að hygla fjármagnseigendunum sérstaklega, vera með tilfærslur úr skattkerfinu frá þeim tekjulægstu, frá fátæka fólkinu, til þess að geta hyglað aftur meira fjármagnseigendum og þeim sem vita ekki aura sinna tal. Ég spyr nú: Er ekki kominn tími til að skipta um ríkisstjórn?

Ég hef lokið við að mæla fyrir þessu máli, virðulegi forseti. Ég hafði vonast til þess að geta mælt fyrir því fyrr. Þetta er eitt þeirra mála sem Samfylkingin setti í forgang í upphafi þessa þings, mál sem Samfylkingin mun setja á oddinn í komandi kosningum. Ég er alveg viss um að velferðarkerfið verður ein af þungamiðjunum í þessari kosningabaráttu, þá ekki síst barnabótakerfið og hvað það hefur verið leikið grátt í höndum þessarar ríkisstjórnar.

Ég vona sannarlega að þetta mál fari til umsagnar en ég geri mér ekki miklar vonir um það, virðulegi forseti, að ríkisstjórnin sem markvisst hefur grafið undan velferðarkerfinu á umliðnum árum fallist á að þetta mál komi til eðlilegrar meðferðar aftur inn í þingið og að þingmenn fái að greiða atkvæði um það.

Ég ítreka að þetta er eitt af brýnustu málunum til þess að koma okkur upp úr fátæktargildrunum, til þess að minnka þann fjölda fólks sem býr við fátækt hér á landi sem við fórum í gegnum í gær, kannski 18–20 þús. manns og þar af um 5 þús. börn sem búa við mikla fátækt. Hér hef ég mælt fyrir leið til þess að rétta hlut þessa fólks og ég veit með vissu að komist Samfylkingin í ríkisstjórn verður eitt af forgangsmálunum sem við munum setja á oddinn til að bæta stöðu barnafólks.