133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

tekjuskattur.

53. mál
[18:02]
Hlusta

Valdimar L. Friðriksson (Fl):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að fagna því frumvarpi sem hér hefur verið lagt fram af hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur og fleirum. Ég ætla jafnframt að taka undir hennar ræðu hér. Með frumvarpinu fylgir mjög svo góð og ítarleg greinargerð og tilgangurinn eins og um er rætt er til þess að bæta verulega barnabótakerfið og draga úr skerðingu sem er til staðar vegna tekjutengingar. Auk þess er verið að stíga hér stórt skref í að hækka aldursmörk ótekjutengdra barnabóta sem, eins og kemur hér fram, eru nú einungis greiddar að sjö ára aldri.

Ekki er hægt að ræða um þetta frumvarp öðruvísi en að minnast sérstaklega á hversu miklu þetta skiptir fyrir einstæða foreldra. Í greinargerðinni kemur fram að við þessar breytingar mundu 31,3% einstæðra foreldra fá óskertar bætur.

Hér fór fram í gær umræða, frú forseti, um fátækt barna þegar við ræddum skýrslu um fátækt barna á Íslandi. Þá sagði ég meðal annars að ein orsök þess að börn á Íslandi lifa við fátækt sé að þau búa hjá einstæðu foreldri. Það hefur komið fram hér um þetta frumvarp að ef barnabætur yrðu hækkaðar þá mundi það hafa gífurlega góð áhrif á hag einstæðra foreldra og þar af leiðandi á hag fátækra barna. En eins og kom fram í umræðunni í gær eru tæplega 4.700 börn samkvæmt skýrslu hæstv. forsætisráðherra talin búa við fátækt á Íslandi.

Jafnframt kom fram í skýrslu frá forsætisráðherra sem var skilað hér inn á 130. þingi um fátækt almennt að starfshópur sem vann að þeirri skýrslu lagði sérstaklega til endurskoðun á barnabótakerfinu sem tæki til að styðja betur við fátækar barnafjölskyldur. Jafnframt kom í þeirri skýrslu fram að barnabætur eru verulega lægri hér en almennt gengur og gerist í Evrópu.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa miklu lengri tölu en ítreka að hér er afskaplega þarft frumvarp á ferðinni sem við í Frjálslynda flokknum styðjum að sjálfsögðu og vonumst til þess að það fái þinglega meðferð og komist hér í gegn því að það getur varla verið, herra forseti, að Ísland sé velferðarþjóðfélag ef tæplega 5.000 börn lifa við fátækt.