133. löggjafarþing — 62. fundur,  30. jan. 2007.

almenn hegningarlög o.fl.

39. mál
[18:10]
Hlusta

Flm. (Kolbrún Halldórsdóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á þrennum lögum. Þetta er frumvarp til laga um breytingu á almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, breytingu á lögum um útlendinga, nr. 96/2002, og lögum um atvinnuréttindi útlendinga, nr. 97/2002.

Hér er um að ræða mál sem ég hef lagt fram áður ásamt hv. þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs. Það var á 130. löggjafarþingi og svo aftur á 131. löggjafarþingi sem ég lagði fram mál af svipuðum toga. Ég endurflyt það nokkuð breytt vegna athugasemda sem komu fram í umsögnum sem bárust um málið, sem ég vil taka fram að voru allar afar jákvæðar í garð þeirra prinsippa sem mælt er fyrir og sett eru fram.

Breytingarnar sem ég gerði á frumvarpinu á milli þinga eru annars vegar lagatæknilegar en hins vegar efnislegar. Að þessu sinni legg ég til að þrennum lögum verði breytt en áður var frumvarpið lagt fram sem frumvarp til sérlaga um fórnarlambavernd og raunar einnig um vitnavernd. En í þetta sinn hef ég horfið frá því að fjalla um vitnavernd í frumvarpinu. Það fjallar einungis um fórnarlambavernd. Ákvæði um vitnavernd eru í lögum um meðferð opinberra mála og þeir sem kæmu til með að njóta fórnarlambaverndar samkvæmt lagafrumvarpinu, ef að lögum verður, kæmu einnig til með að njóta vitnaverndar samkvæmt lögum um meðferð opinberra mála. Það er því óþarfi að hafa það í þessu frumvarpi líka.

Þessu frumvarpi er ætlað að festa í lög vernd til handa fórnarlömbum mansals. Það er í samræmi við skuldbindingar aðildarríkjasamnings Sameinuðu þjóðanna um aðgerðir til að sporna við skipulagðri fjölþjóðlegri glæpastarfsemi. Sá samningur var undirritaður fyrir Íslands hönd þann 13. desember árið 2000 og það er skammarlegt að þurfa að segja frá því að hann bíður enn fullgildingar. Þó hefur dómsmálaráðherra verið spurður um þennan samning í þingsal. Í gögnum dómsmálaráðuneytisins, m.a. í skýrslu starfshóps dómsmálaráðuneytisins sem fjallaði um vændi og mansal fyrir einu og hálfu ári, eru viljayfirlýsingar um að samningurinn verði fullgiltur. Hann hefur enn ekki verið fullgiltur og það væri ekki úr vegi að fá rök hæstv. dómsmálaráðherra fyrir því. Hvað dvelur orminn langa í þessum efnum?

Við þennan samning voru gerðir tveir viðaukar. Öðrum þeirra var ætlað að taka sérstaklega á mansali, ekki síst sölu kvenna og barna, og sporna við slíkri glæpastarfsemi auk þess sem honum var ætlað að tryggja þolendum slíkra glæpa vernd og aðstoð. Það er mikilvægt ákvæði í þessum samningi. Það ákvæði er kveikjan að þessu frumvarpi. Það er skylda okkar samkvæmt samningnum að tryggja ekki einasta að gera allt sem í okkar valdi stendur til að reyna að koma í veg fyrir sölu barna og kvenna á milli landa heldur líka að tryggja vernd þeirra ef þau uppgötvast og eru ólöglega í viðkomandi löndum.

Í samningum eru líka afgerandi ákvæði um skyldur stjórnvalda og um á hvern hátt þessi aðstoð skuli veitt. Aðstoðin er í samræmi við meginreglur samningsins og viðaukinn, raunar samningurinn allur, er kenndur við Palermó á Sikiley en þar var hann undirritaður og hann er kallaður Palermó-samningurinn.

Virðulegi forseti. Samkvæmt upplýsingum úr skýrslum Sameinuðu þjóðanna um mansal má gera ráð fyrir að hundruð þúsunda karla og kvenna og barna séu árlega seld á milli landa vítt og breitt um heiminn. Til skamms tíma töldu menn að þetta fólk væri viljugir þátttakendur í hinu ólöglega athæfi, fólk sem sjálfviljugt flýði fátækt og eymd í heimalöndum sínum í von um að eitthvað skárra væri í boði á hinum ríku Vesturlöndum. En hin síðari ár hafa nýjar hliðar á þessari ólöglegu og óhugnanlegu starfsemi orðið meira áberandi, þ.e. sú starfsemi sem tengist hinum svokallaða kynlífsmarkaði og klámiðnaði á Vesturlöndum. Í slíkum tilfellum er oft um nauðung að ræða. Ofbeldi og hótunum er beitt til að beygja fórnarlömbin undir vilja þeirra sem stunda mansal. Oft hefst för fórnarlambanna með samþykki og skipuleggjendur lofa þeim gulli og grænum skógum á áfangastað. Fólk greiðir jafnvel háar upphæðir fyrir flutninginn sem oft á sér stað við óviðunandi aðstæður. Fólkið endar svo oftar en ekki í nauðungarvinnu, í vændi eða sem þátttakendur í ólöglegu athæfi í móttökulandinu.

Talið er að í Bandaríkjunum einum saman stundi 100.000 ólöglegir innflytjendur vændi og í skýrslu Sameinuðu þjóðanna, Global Report on Crime and Justice, er talið að 40.000–50.000 tælenskar konur, ólöglegir innflytjendur, stundi vændi í Japan. Það ríkir mikil óvissa um hversu margir ólöglegir innflytjendur starfa við vændi í Evrópulöndunum, en í skýrslum Sameinuðu þjóðanna er þó talað um að þeir skipti hundruðum þúsunda. Tveir þriðju hlutar munu koma frá Austur-Evrópu og einn þriðji frá þróunarlöndum í Afríku, Asíu og Suður-Ameríku. Af þessu sést að vandamálið er alþjóðlegt og, virðulegi forseti, það vex hratt.

Konur sem seldar eru til kynlífsþrælkunar lenda oft í grófu ofbeldi og er jafnvel nauðgað hvað eftir annað áður en sala frá einum aðila til annars á sér stað. Ótal dæmi eru til um hroðalega meðferð þeirra og ekki er óalgengt að þær séu látnar þjóna vændiskúnnum upp í 18 klukkustundir á dag, alla daga vikunnar. Þær eru í flestum tilfellum algerlega háðar kúgurum sínum, oft eigendum vændishúsa. Þær eru oftast án vegabréfs í landi sem þær vita ef til vill ekki hvað heitir og eru neyddar til að láta af hendi stærstan hluta þeirra peninga sem kúnnarnir greiða fyrir vændið, enda eru þær sagðar þurfa að endurgreiða háar fúlgur fyrir fargjald, húsaleigu og fæði. Konunum er haldið innilokuðum á vændishúsum eða þeim er ekið milli kúnna af hinum svokölluðu „eigendum“ sínum.

Venjulega eru þær fluttar ört á milli landa og staða til að tryggja að þær geti ekki myndað tengsl við vændiskúnna, því að slíkt gæti orðið til þess að einhverjir tækju það upp hjá sér að vilja bjarga þeim. Þær eru varaðar við að leita til lögreglu, heilbrigðisyfirvalda eða samtaka sem aðstoða fólk sem orðið hefur fyrir ofbeldi. Reyni þær slíkt kallar það á grófar líkamsmeiðingar, líkamlegar refsingar, barsmíðar og nauðganir eða hótanir um að eitthvað komi fyrir fjölskyldur þeirra í heimalöndunum. Allt gerir þetta yfirvöldum erfitt fyrir að ná til fórnarlamba mansals.

Skilgreining mansals, samkvæmt 3. gr. Palermó-viðaukans, er sú skilgreining sem ég legg til grundvallar í frumvarpi mínu. Hún er svohljóðandi, virðulegi forseti, eins og kemur fram í 5. gr. frumvarpsins:

„„Mansal“ merkir að fólk sé fengið, flutt, framselt, hýst eða við því tekið, með valdi eða hótun um valdbeitingu eða með annars konar nauðung, með mannráni, svikum, blekkingu, valdníðslu eða misnotkun á varnarleysi þess, eða ef látið er af hendi eða tekið við fé eða öðrum gæðum til þess að fá fram samþykki við því að einstaklingur öðlist vald yfir öðrum einstaklingi í hagnýtingarskyni. Hagnýting tekur, í það minnsta, til hagnýtingar á vændi annarra eða annarrar kynferðislegrar hagnýtingar, nauðungarvinnu eða nauðungarþjónustu, þrælahalds eða athæfis sem svipar til þrælahalds, ánauðar eða líffæranáms. Samþykki þess sem er fórnarlamb mansals við hagnýtingu af þeim toga sem lýst er hér að ofan skiptir engu máli í tilvikum þar sem einhverjum þeim aðferðum sem lýst er hér að ofan hefur verið beitt. Tilkvaðning, flutningur, framsal, hýsing eða viðtaka á barni í hagnýtingarskyni telst vera „mansal“, jafnvel þótt ekki sé beitt neinum þeim aðferðum sem lýst er hér að ofan. „Barn“ merkir einstakling undir átján ára aldri.“

Þessi skilgreining er lögð til grundvallar í þessu frumvarpi enda staðfest af þeim sem undirrituðu Palermó-samninginn á sínum tíma árið 2000. Þessi lagasetning yrði í samræmi við tilskipanir Evrópuráðsins og hef ég í greinargerð sett niður ákveðinn kafla sem gerir ráð fyrir þeim tilskipunum sem Evrópuráðið hefur sett fram í þessum efnum. Það er ákveðinn samningur sem Evrópuráðið hefur gert um aðgerðir gegn mansali sem var undirritaður 16. maí 2005. Hann fjallar ekki síst um verndun fórnarlamba mansals og ráðstafanir til að standa vörð um mannréttindi þeirra, sem er eitt af meginmarkmiðum þessa frumvarps.

Í greinargerðinni get ég einnig um aðgerðir í Evrópu, á hvern hátt Evrópulöndin hafa beitt ákvæðum Palermó-samningsins og tilmælum Evrópuráðsins til að reyna að ná utan um þessi erfiðu mál. Það sem er kannski merkilegast við þetta frumvarp og það hvernig ég legg það fram er að vitnisburður gegn grunuðum glæpamanni þarf ekki endilega að vera skilyrði þess að fórnarlamb njóti verndar í því landi sem viðkomandi uppgötvast eða kemst í hendur á yfirvöldum.

Rökin fyrir fórnarlamba- og vitnavernd í tengslum við mansal eru í fyrsta lagi mannúðarsjónarmið. Mannréttindi þess fólks sem lendir í klóm nútímaþrælasala hafa verið brotin. Það hefur verið niðurlægt og oft hefur það verið beitt grófu ofbeldi. Til að það geti endurheimt mannlega reisn og orðið virkir borgarar í samfélaginu þarf það stuðning. Í öðru lagi má nefna þau rök að með því að fá fórnarlömbin til samvinnu við yfirvöld megi auka líkurnar á að lögreglu takist að koma upp um þá glæpamenn sem stunda ólöglegan innflutning eða sölu á fólki. Í því frumvarpi sem hér er flutt er samvinna fórnarlambsins við viðkomandi yfirvöld, um að vitna gegn hinum brotlegu, ekki gerð að skilyrði fyrir dvalarleyfi eða þeirri aðstoð sem skylt yrði að veita fórnarlömbunum samkvæmt frumvarpinu, heldur er lögð áhersla á að líkur aukist á því að fórnarlambið vitni gegn hinum brotlegu fái það dvalarleyfi og félagslega og réttarfarslega aðstoð.

Ef ekki er í lögum heimild til sérstaks dvalarleyfis fyrir fórnarlömbin er yfirvöldum nauðugur einn kostur að senda þau úr landi. Það hlýtur að ganga gegn mannúðarsjónarmiðum þar sem það leiðir óhjákvæmilega til þess að þau lendi aftur í klóm glæpamannanna og hörmungarnar haldi áfram. Samstarf yfirvalda og fórnarlambs getur verið með því móti að fórnarlambið gefi upplýsingar um grunaða einstaklinga, leggi fram ákæru eða beri vitni fyrir dómi, en gera verður ráð fyrir því að fórnarlömbin geti verið svo hart leikin af kúgurum sínum að slíkt sé óhugsandi. Því er það ekki gert að skilyrði í þessu frumvarpi.

Í greinargerðinni er almennur kafli um mannréttindi og mannúðarsjónarmið og svo hef ég sett fram athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins. Þar eru nánar skilgreind þau markmið sem ég tel að þurfi að vera til staðar ef við eigum að standa við skuldbindingar okkar samkvæmt Palermó-samningnum og samkvæmt þeim tilmælum sem við höfum fengið frá Evrópuráðinu.

Mig langar til í lok ræðu minnar, hæstv. forseti, að fara örfáum orðum um þau viðbrögð hæstv. dómsmálaráðherra sem ég átti orðastað við á miðvikudaginn í fyrirspurnatíma. Ég ræddi þá við hann um aðgerðaráætlun sem ríkisstjórninni er í sjálfu sér skylt að setja fram, aðgerðaráætlun sem miði að því að stemma stigu við mansali. Slík aðgerðaráætlun ætti að vera hluti af markvissum aðgerðum stjórnvalda á Norðurlöndunum til þess að uppræta þessa glæpi.

Hæstv. forseti. Hæstv. dómsmálaráðherra taldi ekki mikilvægt að sinna þessu verkefni og taldi ekki þurfa að setja saman aðgerðaráætlun af þessu tagi. Ég er hæstv. dómsmálaráðherra hjartanlega ósammála í því máli og vísa því á bug að á Íslandi sé nægilega mikið gert til að koma í veg fyrir að glæpaklíkur á borð við þær sem selja konur og börn á milli landa í kynlífsiðnað fái starfað á Íslandi eða að þær fái ekki að koma til landsins með fórnarlömb sín. Ég tel nú þegar nægilega margar vísbendingar um að hingað komi nú þegar konur sem þannig er ástatt um, fórnarlamb mansals. Ég tel að yfirvöld þurfi að hrista hér af sé slyðruorðið. Hæstv. ríkisstjórn þarf að setja fram aðgerðaráætlun gegn mansali. Við þurfum að fullgilda Palermó-samninginn og liður í öllum þeim aðgerðum gæti verið að samþykkja það frumvarp sem ég hef mælt fyrir.

Að lokinni þessari umræðu, hæstv. forseti, legg ég til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. allsherjarnefndar til umfjöllunar.