133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

ákvæði íslenskra laga um hreinsun á strandstað.

[13:30]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Nú hefur flutningaskipið Wilson Muuga legið í Hvalsnesfjöru í rúmlega fimm vikur og framtíð flaksins ekki öllum ljós og reyndar nokkuð langt frá því. Ástæðan er sú m.a. að eigendur Wilsons telja sér ekki skylt vegna mistaka í lagasetningu að greiða meira en 74 millj. kr. fyrir hreinsun á strandstað, sem er náttúrlega fjarri þeim kostnaði sem til fellur við það að fjarlægja Wilson. Eigendur telja sig í fullum rétti til að binda sig við þessa fjárhæð samkvæmt ákvæðum siglingalaga sem virðist hafa gleymst að uppfæra til raunveruleikans um kostnað við slíkt slys sem strandið á Wilson Muuga er. Nýja takmörkunarfjárhæð vantar og hefur vantað í áratug og fyrir gáleysi hefur það ekki verið uppfært. Því stendur eftir: Hvað kostar að ljúka við að hreinsa strandstað og hver á að borga?

Síðan er meginmálið þetta: Á meðan það er ekki leitt til lykta er umhverfisslys í uppsiglingu. Það vofir yfir á meðan Wilson er í fjörunni. Því er nær að spyrja hvað það mundi kosta íslenska náttúru ef slíkt gerðist vegna óljósra laga og seinagangs stjórnvalda. Lausnina er að hluta að finna í ákvæði um bótatakmörkunarrétt þess sem ber ábyrgð, sem er mun strangari t.d. í norskum lögum og þarf að breyta gagngert í íslenskum siglingalögum frá 1985, sem og lögum um verndun hafs og stranda og þá þarf skýra ábyrgð útgerðar annars vegar og tryggingafélags hins vegar. Þá koma einnig inn í þetta lög um verndun hafs og stranda sem kveða á um að eiganda sé skylt að fjarlægja skip á strandstað hálfu ári frá strandi.

Meginmálið er að leiða þarf til lykta hvað kostar að fjarlægja Wilson Muuga, hver ber ábyrgð og hvenær það verður gert. Þá þarf að samræma siglingalög og lög um verndun hafs og stranda til að fyrirbyggja svona uppákomur. Auk þess og það sem mestu máli skiptir er að endurskoða siglingaleiðina um Ísland þar sem umferð hefur aukist gífurlega, háskasiglingar stórra flutningaskipa við landið hafa aukist mjög mikið, skilgreina þarf sjóveg á að minnsta kosti þremur stöðum, við Reyðarfjörð, Reykjanes og fyrir Horn, út fyrir 30 sjómílur að talið er. Það er gerbreytt landslag í siglingu stórra skipa og slík slys vofa yfir. Því þarf að taka verulega á í þessu máli og samræma aðgerðir og að sjálfsögðu að ná flakinu af Wilson Muuga sem fyrst úr Hvalsnesfjöru.