133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

ákvæði íslenskra laga um hreinsun á strandstað.

[13:32]
Hlusta

umhverfisráðherra (Jónína Bjartmarz) (F):

Herra forseti. Hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson vekur hér máls á Wilson Muuga og afstöðu útgerðar eða tryggingafélags skipsins. Rétt er vegna orða hv. þingmanns að taka fram að hvort sem það er eigandi skipsins eða tryggingafélag, þá geta menn gengið lengra en lagaleg skylda býður þeim, ef menn ætla á annað borð að byggja á siglingalögunum. En lagalega skyldan, skyldan til aðgerða og útgjalda er í 20. gr. laga um varnir gegn mengun hafs og stranda. Þar segir ótvírætt að eiganda skips beri að fjarlægja strandað skip sem fyrst og eigi síðar en sex mánuðum eftir strand. Með þeim sex mánaða fresti er tryggt nægjanlegt svigrúm með tilliti til veðurfars og annarra aðstæðna.

Ég hef líka haft á orði að á eigendum skipsins hvíli siðferðileg skylda gagnvart umhverfinu og viðkvæmri náttúru umhverfis strandstaðinn, sem er m.a. á náttúruminjaskrá, og til viðbótar lagalegri og siðferðilegri skyldu er líka vert að árétta samfélagslega skyldu, ábyrgð eiganda flaksins gagnvart nærsamfélaginu. Ljóst er að sveitarstjórnir á umræddu svæði og íbúar umhverfis strandstaðinn hafa lagt mikla áherslu á þetta og taka ekki annað í mál en flakið verði fjarlægt.

Hins vegar má segja sem svo þegar verið er að velta upp hugsanlegu misræmi á milli laga, eins og hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson gerir, er ljóst að við byggjum á þessu ákvæði í 20. gr. laga um varnir gegn mengun hafs og stranda. Það er auðvitað ekki mitt hlutverk og ekki staður né stund í þingsal Alþingis að flytja þetta mál og ef á reynir verður tekist á um lagaleg álitaefni á öðrum vettvangi.