133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

ákvæði íslenskra laga um hreinsun á strandstað.

[13:37]
Hlusta

Kristján L. Möller (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrir það fyrsta þakka hv. þm. Björgvini G. Sigurðssyni fyrir að taka þetta mál upp. Ég vil beina spurningu minni til hæstv. samgönguráðherra vegna þess að hann hefur sagt í fréttum sem skýringu á því þegar um það var rætt að fyrir átta árum skipaði þáverandi samgönguráðherra nefnd til að móta reglur um siglingar á þeirri leið sem hér er gerð að umtalsefni, þá kom það fram í svari hæstv. ráðherra að skipafélögin hafi komið í veg fyrir að farið væri að þeim ráðleggingum sem þar voru lagðar fram. Því vil ég spyrja hæstv. ráðherra. Er það endilega vilji skipafélaganna sem ræður hér algerlega för? Gæti ekki verið að vilji og áhugi hæstv. samgönguráðherra og siglingayfirvalda ætti að ráða för hvaða leið væri farin en ekki beinlínis hagsmunaaðilar, í þessu tilfelli skipafélögin? Hvernig stendur á því að þetta hefur ekki verið gert? Fyrir átta árum var skipuð nefnd og ekkert hefur komið út úr henni. Hæstv. ráðherra talar um afslátt á kröfum. Ég held að það sé mikill afsláttur á kröfum að afgreiða þetta á þann hátt að skipafélögin geti neitað þessu og hafa verið á móti þessu, og þar með sé það hátturinn.

Einnig vil ég spyrja hæstv. samgönguráðherra út í það sem líka hefur verið fjallað um í fréttum, að hefðu 11 ára gamlir viðaukar við alþjóðasáttmála verið innleiddir hér á landi hvað þetta varðar, hefði ábyrgðarhlutinn sem hér er gerður að umtalsefni ekki verið 70 milljónir heldur 200 milljónir. Hvernig stendur á því, virðulegi forseti, að þessir 11 ára gömlu viðaukar sem talað er um í fréttum hafa ekki verið innleiddir í lög og reglugerðir hjá okkur?