133. löggjafarþing — 63. fundur,  31. jan. 2007.

ákvæði íslenskra laga um hreinsun á strandstað.

[13:41]
Hlusta

Jón Gunnarsson (Sf):

Herra forseti. Mér finnst vandræðagangur á hæstv. ráðherrum þegar kemur að því að svara spurningum varðandi Wilson Muuga sem nú liggur í Gerðarkotsfjöru á Hvalsnesi. Ég ætla ekki að fara yfir þá sögu hvernig stendur á því að skipið endar þarna uppi í fjöru og öllu því sem fylgt hefur. En vandræðagangurinn sem ég er að tala um er sá að hæstv. ráðherrar báðir segjast trúa því og treysta að 20. gr. laga um verndun hafs og stranda muni verða til þess að eigendur skipsins og tryggingafélag þess þurfi að bera kostnað af því að fjarlægja það (Gripið fram í.) og eigi að fjarlægja það áður en sex mánuðir eru liðnir frá strandinu.

Við höfum heyrt í fréttum að eigendur og tryggingafélag telja sig ekki þurfa að greiða nema um 70 millj. kr. fyrir hreinsun og að láta fjarlæga flakið. Það getur vel verið að hæstv. ráðherrar hafi rétt fyrir sér að 20. gr. í lögum um verndun hafs og strandar sé nægjanleg. En hversu lengi á að standa í því að rífast um hver eigi að gera hvað og hver eigi að greiða? Á að láta skipið liggja þarna í Gerðarkotsfjörunni á meðan, mánuðum eða jafnvel árum saman sem málaferli gætu tekið í sambandi við þetta?

Það sem mig langar að spyrja hæstv. ráðherra um er: Munu stjórnvöld þá sjá um að það sem fram kemur í 20. gr., að fjarlægja eigi svona skip úr fjöru innan sex mánaða, að það verði gert og lögin þannig uppfyllt og leita þá réttar ríkisins gagnvart eigendum og tryggingafélögum þannig að þeir sem þarna búa og hafa skipið í fjörunni beint fyrir framan hús sín og þeir sem eru í forsvari fyrir sveitarfélög geti treyst því að ríkið axli til að byrja með þá ábyrgð að fjarlægja skipið og síðan geti ríkið rifist í mörg ár við eigendur og tryggingafélög um að hver eigi að greiða?